Kathleen

Á stöðvaflakki mínu í dag rambaði ég á þátt Larry King þar sem hann spjallaði við einn af eftirlætisleikurum mínum, Kathleen Turner. Mér brá örlítið þegar ég sá hana, hún hefur bústnast dálítið og röddin bendir til þess að hún reyki a.m.k. tvo pakka á dag, en fljótlega kom í ljós að persónutöfrarnir eru síst minni en fyrrum og einnig skýrðist af hverju hún hefur svo sjaldan sést á hvíta tjaldinu á undanförnum árum.

Kathleen Turner hefur lengi átt við iktsýki að stríða, afar illvíga. Árum saman bar hún þjáningarnar sem sjúkdómnum fylgja en uppgötvaði síðan að með því að nota ósköpin öll af áfengi og alls kyns lyfjum gat hún linað kvalirnar. Hún sagði í viðtalinu að fyrstu lyfin, sem hún fékk við sjúkdómnum, hafi verið gríðarlega sterk. Þau ollu m.a. persónuleikabreytingum og urðu til þess að hún tútnaði út svo að um skeið var hún hreinlega óþekkjanleg. Kathleen tókst að lokum að segja skilið við Bakkus - skildi reyndar við eiginmanninn líka - og gengur nú allt í haginn.

Nýlega kom út ævisaga hennar, þar sem hún talar hispurslaust að venju, en þó hafa gagnrýnendur sagt að hún hefði mátt gefa lesendum fleiri tækifæri til að kjamsa á sögum af mótleikurum sínum í áranna rás. Hún hleður þá Michael Douglas og William Hurt lofi en er ekki eins hrifin af Burt Reynolds (sem hún segir að sé "just nasty") og Nicolas Cage, sem reyndar hefur lögsótt hana fyrir sögu af einhverjum hundastuldi, sem hann segir að sé haugalygi. Yfirleitt hefur ævisagan fengið góða dóma og hún hefur einnig selst mjög vel.

Kathleen Turner þreytti nýlega frumraun sína á sviði leikstjórnar og hefur hlotið mikið lof fyrir. Hún hefur helgað líf sitt leikhúsinu á undanförnum árum, enda fleiri hlutverk þar í boði fyrir konur á hennar aldri en í kvikmyndunum. Undantekningalítið hefur hún fengið skínandi dóma fyrir leik sinn og hlotið ýmsar viðurkenningar og verðlaun, meira að segja í Bretlandi, en þarlendir eru e.t.v. ekki beinlínis þekktir fyrir aðdáun sína á bandarískum sviðsleik.

Það var gaman að sjá Kathleen Turner og hlusta á hana. Hún geislar af lífsgleði, þrátt fyrir ýmiss konar áföll og þrotlausa baráttu við sjúkdóm sinn, og fyrir gamlan aðdáanda "Romancing the Stone", "Peggy Sue Got Married" og "Serial Mom" var dásamlegt að heyra hvað þessi geðþekka, hæfileikaríka og alþýðlega kona horfir glöð og bjartsýn fram á veginn í stað þess að velta sér upp úr fortíðinni og syrgja glötuð tækifæri.kath

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband