Undarlegar mótmælaaðgerðir

Ég verð að játa að ég er orðinn þreyttur á hávaðanum og umferðartöfunum sem sumir bílstjórar hérna fyrir norðan hafa valdið að undanförnu. Í fyrstu þóttu mér mótmælin skiljanleg en sú afstaða mín hefur smám saman verið að breytast.

Í fyrsta lagi finnst mér rangt að lögbrot skuli liðin.

Í öðru lagi finnst mér fáránlegt að sportjeppakarlar og tómstundaökumenn séu að ybba sig á þennan hátt. Ég skil sjónarmið atvinnubílstjóra miklu betur, en hafi jeppakarlar efni á breyttu jeppunum sínum hafa þeir líka efni á að borga á þá eldsneytið, jafnvel þótt verðið rjúki upp úr öllu valdi.

Í þriðja lagi bitna þessar ólöglegu aðgerðir á saklausu fólki. Margir eru býsna háðir strætisvögnum, (börn, aldraðir, öryrkjar og fatlaðir, svo nokkrir hópar séu nefndir) en áætlun vagnanna fór öll úr skorðum í dag. Á göngu minni (sem farin var af því að strætó kom aldrei) eftir fáfarinni götu mætti ég sjúkrabíl. Fór hann krókaleiðir vegna þess að hann komst ekki eftir aðalgötum bæjarins? Lest gríðarstórra flutningabíla, sem aka hver aftan í annars rassi, á svo sem ekki hægt með að hliðra til.

Hvað ef skelfilegur eldsvoði yrði, eða hroðalegt slys? Hver ber ábyrgðina ef slökkvi-, lögreglu- og sjúkrabílar tefjast vegna þess að götur eru stíflaðar og ekki heyrist í sírenum fyrir bílflautum?

Og hvernig hafa bílstjórarnir eiginlega efni á að mótmæla með þessari aðferð - að eyða eldsneyti -  ef eldsneytið er orðið svona dýrt?

Er þetta ekki svipað og ef ég mótmælti háu matarverði með því að kaupa ósköpin öll af mat á hverjum degi?

Ég ætla miklu frekar að mótmæla háu eldsneytisverði með því að taka ennþá oftar strætó en ég geri og ganga þegar ég get. Þá kaupi ég minna bensín og ríkið fær minna úr vasa mínum. Heilsan batnar og samviskan dafnar!

 


mbl.is Mótmælaaðgerðir á Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eyjólfur Sturlaugsson

Heyr heyr !

Eyjólfur Sturlaugsson, 4.4.2008 kl. 23:40

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband