24.5.2008 | 13:51
Misskilið hlutverk
Í 24 stundum í dag gerir Páll Óskar enn og aftur mikið úr framlagi sínu til Evróvisjónkeppninnar árið 1997. Hann segir að hann hafi í raun ætlað að bjarga keppninni, en vinsældir hennar hafi verið farnar að dvína og áhorfið að minnka. Hvaðan hann hefur það veit ég ekki, en vel getur verið að satt sé. Hitt held ég að sé rangt að Páll Óskar hafi bjargað Evróvisjón. Ég held að Evróvisjón hafi ekki þurft á neinum björgunaraðgerðum að halda og hafi einhver haft varanleg áhrif á keppnina er það ekki Páll Óskar.
Páll segir að allt í kringum lagið hafi verið hannað til þess að munað yrði eftir því. Það tókst. Aðra eins útreið hefur Ísland aldrei fengið í Evróvisjón og er þó afrekaskrá okkar þar ekki merkileg.
Mér virðist sem Páll Óskar og ýmsir fleiri gleymi því hvers vegna lög lenda yfirleitt í neðsta sæti. Það er vegna þess að þau eru léleg. Lagið sem við sendum í keppnina árið 1997 var einfaldlega lélegt - svo lélegt að því var hafnað.
Sumir segja að Evrópa hafi ekki verið tilbúin fyrir Pál Óskar og atriði hans árið 1997. Það held ég að sé fjarstæða. Flestar Evrópuþjóðir, a.m.k. þær sem aldrei lentu handan járntjaldsins, eru ýmsu vanar og ég held að Páll hafi ekki gengið fram af neinum. Það sem gekk fram af evrópskum Evróvisjónaðdáendum þetta ár var lagið. Ekkert annað. Þess vegna fékk það engin atkvæði.
Ég held að þáttur Páls Óskars í því sem Evróvisjón er í dag sé akkúrat enginn.
Athugasemdir
auðvitað bjargaði hann ekkert keppninni. hún er í raun sama djönkið og hún var orðin 1997.
hinsvegar finnst mér lagið hans eitt það flottasta sem við höfum sent og atriðið sömuleiðis. mín skoðun...
og það er ekki rétt að við höfum aldrei fengið aðra eins útreið því daníel ágúst fékk held ég bara ekkert atkvæði. kannski tvö eða þrjú....
en þrátt fyrir allt þetta djönk þá lá ég upp í sófa og horfði á þetta og "missti af" held ég bara þremur lögum... hehe
arnar valgeirsson, 24.5.2008 kl. 21:16
Tjah... samkvæmt júróvisjónsíðu RÚV þá lenti Páll Óskar í 20 sæti en fékk 18 stig, sem er t.d tveimur stigum meira en lagið Heaven sem Jónsi flutti, og 18 stigum meira en Daníel Ágúst fékk þegar hann fór og einu stigi minna en Gleðibankinn...
Framlag Páls Óskars er þar af leiðandi ekki versta framlag okkar heldur nær það einungis 4 sætinu á þeim lista (svona við fyrstu athugun á öllum framlögum okkar í þessari keppni) En önnur slæm framlög eru t.d lagið Angel (birta) sem fékk ekki nema 3 stig...
En persónulega finnst mér lagið hans Palla eitthvert það flottasta sem við höfum sent frá okkur, hvort hann breytti keppninni veit ég ekki enda enginn sérstakur júrósérfræðingur... En flott var það...
Takk fyrir kaffið!
Signý, 30.5.2008 kl. 18:20
Ætli ég yrði ekki að eta hattinn minn, ætti ég einhvern, fyrir að fara með svona fleipur. Biðst forláts ef ég er að gera of mikið úr útreið Páls. Heaven og Gleðibankinn urðu ekki neðst á sínum tíma, þó að stigin kunni að hafa verið færri, enda þátttökuþjóðirnar mismargar milli ára. Ætli Daníel Ágúst dæmist þá ekki yfirlúser ... eða öllu heldur Valgeir Guðjónsson?
Það sem ég átti við var að aðrir Evrópubúar eru yfirleitt ekki jafn hrifnir af lögunum okkar og við, enda erum við alin upp við að vita hverjir eru bestir, sama hvað öðrum finnst. Flestir Íslendingar eru líka orðnir sáttir við sín Evróvisjónlög um það leyti sem keppnin fer fram, enda búnir að heyra þau svo oft. Eggjandi klæðnaður, æsandi dans og voða fín leikmynd dugar ekki alltaf til að breiða yfir óspennandi tónsmíð og tilþrifalítinn söng. Oft hefur verið gripið til slíkra ráða í sögu Evróvisjón en uppskeran hefur yfirleitt orðið eins og til var sáð.
Verði þér að góðu, Signý ... verst að ég átti enga mjólk.
Helgi Már Barðason, 30.5.2008 kl. 22:21
Það er í góðu, ég vil ekki mjólk í mitt kaffi!...
En afþví að ég hef það að aukavinnu að vera leiðinlega manneskjan, partypooperinn og almennur bessewisser þá verð ég að leiðrétta það líka að Palli varð als ekkert í síðasta sæti hann varð í 20 sæti af 25 löndum (you gotta love google!...)
Signý, 30.5.2008 kl. 22:47
Þetta eru að verða hin skemmtilegustu skoðanaskipti. Svona á bloggið að vera.
Held ég hafi raunar hvergi haldið því fram að Páll hafi orðið neðstur, en það er rétt að það má auðveldlega skilja orð mín svo. Ég segi að vísu á einum stað að lagið hafi engin atkvæði fengið og það eru vissulega ýkjur. Reyndar ekki miklar, en ýkjur samt. Og þar af leiðandi eru það líka ýkjur í mér að halda því fram að við höfum aldrei fengið aðra eins útreið. Biðst forláts á því, Addi. Mér er ekki kappsmál að fara með bull og þvælu og það er gott að eiga hauka í horni sem láta mann vita ef maður kryddar sannleikann um of. Haltu endilega áfram besserwisserskap þínum og partýpooperisma, Signý!
Ég verð þó aldrei sammála ykkur um að þetta lag sé flott. En þannig er nú lífið bara og tilveran og það væri nú lítið varið í það ef allir væru sammála um alla skapaða hluti.
Helgi Már Barðason, 30.5.2008 kl. 23:29