Nordvision?

Það lá nú barasta við að sá gamli (ég) yrði sannspár. Ég spáði Íslendingum sautjánda sæti í Evróvisjón og ætlaði að vera voðalega svartsýnn svo að ég yrði nú ekki fyrir vonbrigðum. En þetta var allt saman ágætt. Lagið reyndar svolítið gamaldags og kannski fullhýrt fyrir almúgann, en Friðrik Ómar og Regína Ósk (FrÓmÓsk?) gerðu þetta vel.

Ég kann alltaf heldur illa við þetta austantjaldsmafíutal - held bara að tónlistarhefðin þar sé ólík okkar og tískustraumar e.t.v. aðrir. Rússneska sigurlagið var óttalega slappt að mínu mati og gríska og armenska lagið líka, en greinilegt var að ýmsir þarna í útlöndunum voru ekki sammála mér. Norðmönnum gekk vel. Það er e.t.v. til vitnis um að góð, einföld lög geta alveg náð langt ef þau eru ekki ofhlaðin. Okkur Íslendingum hefur hætt til að gera einfalda hluti flókna í Evróvisjónlögum og ekki uppskorið í samræmi við sáninguna.

Voru ekki til samtök sjónvarpsstöðva á Norðuröndum sem hétu Nordvision eða eitthvað álíka? Væri ekki upplagt að segja skilið við Evróvisjón og halda söngvakeppni norrænna sjónvarpsstöðva? Bjóða Álendingum, Færeyingum og Grænlendingum að vera með - og Sömum? Mikið held ég að það gæti orðið gaman. 

Líka mætti hugsa sér samstarf Vestur-Evrópuþjóða á þessu sviði. Draga gamla járntjaldið fyrir á ný að þessu leyti. Útkoman gæti orðið forvitnileg.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband