Bugsy Malone, Midnight Express og Commitments

Látinn er breski kvikmyndaleikstjórinn Sir Alan Parker. Það hefur farið furðu hljótt. Hvergi sá ég þessa getið í íslenskum fjölmiðlum, en einn þeirra skýrði hins vegar frá andláti leikarans Wilfords Brimley um svipað leyti.

Brimley var frábær leikari en Parker var líka frábær leikstjóri. Eftir hann liggja margar eftirminnilegar bíómyndir.

Var hann í einhvers konar ónáð? Af hverju er lár hans ekki fréttnæmt? Hví minnast íslenskir kvikmyndafræðingar hans ekki?

Spyr sá sem ekki veit.


Menn sem mættu setjast í helgan stein

Óskandi væri að Bogi þekkti sinn vitjunartíma. Hann er pínlega lélegur fréttalesari. Og væri ekki ráð að Stöð 2 færi að þagga niður í Bjögga? Ekki skánar hann með aldrinum, aumingja karlinn.

Í mínu tilviki sannast líklega hið fornkveðna að maður er aldrei of gamall til að fá kjánahroll.


Bið

Kona nokkur hjá embætti héraðssaksóknara segir að þær tólf vikur sem halda megi mönnum í gæaluvarðhaldi sé of stuttur tími.

Einn af forsvarsmönnum lögreglunnar hefur viðrað sömu skoðun.

Raunar segir konan að stundum hafi mál ekki verið nógu vel rannsökuð þegar gefin er út ákæra, hafi ég tekið rétt eftir.

Hvaða rugl er í gangi? Er þetta fólk virkilega á réttri hillu í lífinu?

Gerir það sér grein fyrir því hvaða frelsissvipting felst í því að vera hnepptur í fangelsi án dóms og látinn dúsa þar í tólf vikur, hvað á meira?

Þrír mánuðir? Nægja þeir virkilega ekki til að upplýsa mál? Við hvað eruð þið eiginlega að dunda ykkur?

Á sama tíma bíða sakborningar mánuðum og jafnvel árum saman í limbói eftir ákæru, jafnvel þótt mál séu tiltölulega klippt og skorin. Hvernig stendur á því? Ekki bera fyrir ykkur skort á mannskap eða fjármagni. Það kostar líka peninga - mikla peninga - að halda mönnum í gæsluvarðhaldi.

Nei, gott fólk hjá lögreglu og embætti héraðssaksóknara, takið til í ykkar eigin garði áður en þið farið að krefjast þess að mega traðka enn frekar á mönnum og konum sem ekki hafa verið dæmd sek og teljast því saklaus uns annað kemur í ljós.

Kannski mætti eyða minni tíma í hárgreiðslu og meiri í vinnuna?

 


Umrenningur

Umrenningur = bráðsmitandi magapest með niðurgangi.


Nægur tími til blammeringa?

Er alltaf dálítið rólegt hjá Kára Stefánssyni í vinnunni?


Atvinnurekstur

Ég er nú sennilega eitthvað tregur, en með fullri virðingu á ég erfitt með að skilja af hverju forstöðumaður ríkisstofnunar er formaður Félags kvenna í atvinnurekstri. Nema hún reki fyrirtæki "on the side"?


Hóf

Ég verð að játa að þrátt fyrir þetta venjulega offors og djöfulgang í nokkrum háværum þingmönnum og fleirum sem hafa gaman af athygli er ég dálítið stoltur af því hversu margir landar mínir vilja nálgast Samherjamálið af hófsemd og bíða með að kveða upp dóma þangað til öll kurl eru komin til grafar.

Guð láti gott á vita.

Yfirleitt er það nú svo, hugsa ég, að meirihluti fólks vill bíða og sjá hvað setur áður en það dæmir einhvern sekan. Það þorir bara ekki að minnast á það opinberlega vegna þess hvað ofstopafólkið hefur hátt og fer mikinn.

Hóf er best í öllu. Það er nú bara svo.


Popúlismi

Sigmundur Davíð er farinn að saka forsprakka annarra flokka um popúlisma.

Nú þykir mér kasta tólfunum.


Ok

Misminnir mig, eða eru mörg ár og jafnvel áratugir síðan ég las um það í blöðunum að Ok teldist ekki lengur til jökla?

Er þessi athöfn á jöklinum sáluga bara eitthvert skúespil?


Pakki frá sjónarhóli Evrópumanns

Ég er sjálfsagt gamaldags, en ef allir þingmenn Íslendinga (að frátöldum þingmönnum Miðflokksins, sem ég mun seint kjósa) treysta sér til að greiða atkvæði með innleiðingu þriðja orkupakkans er ég hlynntur henni.

Það kann vel að vera að sumum þyki það flokkast undir heimsku og barnaskap að treysta dómgreind 54 þingmanna af 63, en þá verð ég bara að lifa með því. Mér hefur því miður sýnst að "rökin" gegn innleiðingu orkupakkans séu oft í formi upphrópana og fúkyrða, enda hafa Íslendingar ævinlega verið færir um að mynda sér skoðun á málum án þess að kynna sér þau fyrst og verið tilbúnir að trúa þeim sem neikvæðastur er og hæst lætur.

Rök þeirra sem tala fyrir innleiðingu pakkans (sem allar hinar EES-þjóðirnar hafa þegar samþykkt) eru hins vegar yfirleitt málefnaleg og þar af leiðandi sannfærandi í mínum eyrum, hvort sem ég er nú barnalegur bjáni fyrir vikið eða ekki.

Einangrunarhyggja, hræðsluáróður, þjóðremba, popúlismi og falsfréttir verða æ stærra vandamál í íslensku samfélagi ekki síður en í útlöndum. Ekkert af þessu heillar mig, en því miður virðist vera hljómgrunnur sums staðar fyrir alls kyns neikvæðni og innantómum rembingi.

Það ætlar að ganga hægt að kveða niður draug Bjarts í Sumarhúsum.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband