Færsluflokkur: Bloggar
29.12.2016 | 18:09
Jól o.s.frv.
Góðir Íslendingar, aðrir Íslendingar. Helgi Már Barðason óskar ykkur gleðilegrar hátíðar og þakkar samfylgd góðs fólks á árinu sem er að líða.
16.12.2016 | 20:29
Plott
Ég held enn að það sé plott í gangi um myndun ríkisstjórnar. En eðli málsins samkvæmt verður það að ganga hægt og allir aðrir möguleikar verða að hafa verið kannaðir áður. Það er kenning sem undirritaður, Helgi Már Barðason, hefur aðhyllst alllengi.
10.12.2016 | 12:58
Mál að linni
Enn væla útflytjendur og ferðaþjónustufólk yfir styrkingu krónunnar. Steininn tekur þó úr þegar kveinað er yfir stöðunni gagnvart sterlingspundinu, enda er hún ekki okkur að kenna heldur fyrst og fremst ákvörðun Breta um að ganga úr ESB. Við þá ákvörðun snarféll pundið gagnvart flestum gjaldmiðlum, meira að segja krónunni okkar litlu og leiðinlegu. Ég skil svo sem útflytjendurna vel, þeir vilja fá meira fyrir afurðirnar, þó að reynslan ætti að kenna þeim að árangursríkara sé að hagræða en væla. En eigendur fyrirtækja í ferðaþjónustu ættu bara að skammast sín. Verðlagið í þeim geira er svo brjálæðislegt að engu tali tekur. Venjulegur Íslendingur hefur ekki lengur efni á því að gista á sæmilegu hóteli eða snæða á skítsæmilegum veitingastað, hvað þá að fara í Bláa lónið. Græðgin er með ólíkindum. Leggur Helgi Már Barðason hér með til að allir þeir, sem hag hafa af innlendum og erlendum ferðamönnum, taki sig taki og rífi niður verðið þannig að venjulegt fólk hafi efni á því að ferðast um Ísland, gista þar og éta. Því fyrr, þeim mun betra.
19.11.2016 | 21:47
Plott?
Það læðist að mér sá grunur að ekki sé allt með felldu varðandi stjórnarmyndunarviðræðurnar og að tiltölulega fáir viti með vissu hvernig í pottinn sé búið. Af hverju eru sjálfstæðismenn svona einkennilega rólegir yfir þessu öllu saman? En Helgi Már Barðason hefur svo sem áður haft rangt fyrir sér...
2.11.2016 | 19:20
Bretar
Magnað er að menn skuli kenna styrkingu krónunnar um fækkun á ferðum Breta til Íslands. Man enginn fall pundsins við Brexit? Bretar ferðast einfaldlega minna en áður. Voðalegur barlómur er þetta alltaf hreint.
2.11.2016 | 07:34
Monsieur le président
Helgi Már Barðason bíður spenntur eftir því hvaða stjórnmálaforingjum verður EKKI falið að mynda nýja ríkisstjórn...
30.10.2016 | 10:35
Verra gat það verið
Jæja, þá hefur Helgi Már Barðason fylgst með þingkosingunum héðan úr útlandinu. Margt kom á óvart við úrslitin. Annað ekki.
Sjálfstæðisflokkurinn vann stærri sigur en ég bjóst við. Ég held að Bjarni hafi verið að styrkja sig í sessi og ávinna sér ímynd sem traustur stjórnmálaforingi sem lætur ekki svo auðveldlega glepja sig af leið. Allar tilraunir til að sverta mannorð hans hafa reynst jafn árangursríkar og vatnsskvettur á gæs. Kökubakstur hans og brjóstagjöf Unnar Brár gáfu flokknum mýkri ímynd en áður. Auk þess er víða á ferðinni hið frambærilegasta fólk og eftir að flokkurinn losnaði við Evrópusinnana hefur hann áreiðanlega þjappast dálítið saman.
Vinstri grænir unnu sigur, en ég hélt satt að segja að flokkurinn yrði stærri. Ljóst er þó að persónufylgi Katrínar vegur þyngra en óbeitin sem margir hafa á Birni Val og ámóta fígúrum. Mikið skelfing var gott að hann komst ekki inn. Þá var afar klókt af VG að læsa ímynd stöðnunar, þvergirðingsháttar, þaulsætni og forneskju, þ.e. Steingrím Joð, inni í skáp fyrir þessar kosningar.
Viðreisn vann sigur. Benedikt virkar á mig sem heiðarlegur maður. Hann hefur ekki mikinn kjörþokka og veit það. Hann hefur hins vegar annars konar þokka til að bera og er greinilega skarpgreindur maður. Hann lét t.d. ekki teyma sig ofan í neinar skotgrafir fyrir þessar kosningar, talsmenn flokksins voru hreinir og beinir og uppskáru samkvæmt því.
Framsókn tapaði stórt, aðallega vegna hroka og spillingar, held ég. Það er eftirsjá að Karli, frænda mínum, Garðarssyni, en feginn er ég að þriðji maður flokksins í Norðausturkjördæmi komst ekki að.
Björt framtíð má svo sem vel við una eftir að hafa misst sinn besta þingmann, Brynhildi Pétursdóttur. Útlitið vinnur ekki með Óttari formanni, en ég hef á tilfinningunni að þar fari drengur góður. Björt er líka skynsöm kona og hefur staðið sig vel.
Píratar koma enn fyrir sjónir margra sem hálfgert anarkí og ég held að margir hafi ekki þorað að kjósa þá þegar á hólminn var komið. Auk þess stimplaði flokkurinn sig til vinstri í aðdraganda kosninga, sem ég hygg að mörgum hafi mislíkað og talið að þetta afl ætti að vera æðra slíkri flokkun. Þá var framkoma Birgittu síðustu dagana ekki til þess fallin að draga atkvæðin að. Síður en svo.
Samfylkingin er nánast útþurrkuð. Rjúkandi rúst (annað en Evrópusambandið, hvað sem hver segir). Öðruvísi mér áður brá. Sigríður Ingibjörg og Valgerður eru fádæma leiðinlegar áheyrnar og ekki mun ég sakna þeirra. Auk þess held ég að það hafi verið kominn tími á Össur. Formaður flokksins er óskaplega daufur, því miður álíka litríkur og Austfjarðaþokan. En ég gleðst yfir því að góður kunningi minn, Logi Már, skyldi hljóta kosningu. Þar fer ágætur drengur.
Niðurstaða mín? Eiginlega þessi: Verra gat það verið.
28.10.2016 | 19:37
Þröngsýnt, ungt fólk
Í fréttum Ríkissjónvarpsins í kvöld var m.a. rætt við tvær ungar stúlkur, sem töldu mikilvægt að unga fólkið færi á kjörstað og greiddi atkvæði, ekki síst vegna þess að eldra fólkið kysi alltaf sama flokkinn, áratug eftir áratug, "af því bara".
Ég legg til að unga fólkið hætti að gera því skóna að við, sem eldri erum, séum svona flokksholl. Þetta er leiðinleg fullyrðing, fordómafull og röng.
16.10.2016 | 11:34
Þor
Nú þorir Helgi Már Barðason hvorki að kjósa Bjarta framtíð né Viðreisn, af ótta við að þessir flokkar bindist Pírötum og Vinstri grænum eftir kosningar (og að Indriði H. komist aftur með puttana í skattamálin) :(
15.10.2016 | 21:43
Ofmat
Ég, Helgi Már Barðason, er svona frekar á því að bæði Nóbelsverðlaunin og Kári Stefánsson séu eilítið ofmetin...