Færsluflokkur: Bloggar
17.6.2017 | 18:49
Fólk í erfiðleikum
Nafnlausar svívirðingar segja allt um sendandann, ekkert um viðtakandann. Það er mín skoðun, sem ég heiti Helgi Már Barðason.
18.5.2017 | 22:41
Kveðja
Helgi Már Barðason fékk einkar fallega kveðju í dag frá manni sem hann þekkir nánast ekki neitt. Mikið óskaplega er heimurinn stundum indæll - en bara stundum :)
17.5.2017 | 15:30
Einþykkt fólk
Nú á að kvikmynda Sjálfstætt fólk. Líklega verður þverhausnum Bjarti breytt í einhvers konar hetju. Annars selst þetta tæplega.
8.4.2017 | 18:08
Lögregluþjónn
Lögregluþjónn.
Ekki lögreglumaður.
Starfsheitið var ekki valið að ástæðulausu á sínum tíma.
Nú gleyma þjónarnir unnvörpum þjónustuhlutverki sínu og þá fer illa.
23.3.2017 | 18:06
Edrú
Ég er hvorki synd- né gallalaus, en í dag náði ég því takmarki að hafa haldið mig frá áfengi í 16 ár, með Guðs hjálp og góðra manna. Ég ætla að fagna deginum með því að fá mér uppáhaldsbátinn minn á Subway og stóran og vel feitan ís á eftir. Margt hefur fyrir mig komið á lífsleiðinni og flest af því er gott. Slæmu atburðirnir sækja stundum á mig, eins og eðlilegt er, en ég er ósegjanlega þakklátur fyrir að hafa ekki brugðist við drýslunum og púkunum sem á mig hafa sótt í áranna rás með því að detta í það. Ég vona að Guð gefi að mér takist enn að horfa fram á veginn, að ég læri af mistökum mínum og að ég láti ekki dapurlegu stundirnar í lífi mínu stjórna hugsunum mínum og gjörðum. Ég vona líka að Guð gefi að ég geti fyrirgefið þeim sem gert hafa á hlut minn um dagana. Ekkert þrái ég heitar en að mega eyða því sem eftir er ævinnar sæmilega sáttur við sjálfan mig og samferðamenn mína.
24.2.2017 | 09:25
Kvikmyndir og kviknakið fólk
"Mjög mikið hallar á konur í íslenskum kvikmyndahúsum". Svo hljóðaði fyrirsögn í dagblaði.
Er það nokkuð skrýtið? Eru karlkyns kvikmyndagerðarmenn ekki margfalt fleiri en kvenkyns, sama hvert litið er?
Hitt hefði komið mér miklu meira á óvart.
***
Jónas tók nektarmynd af sjálfum sér. Hann var meira að segja svo vitlaus að senda hana til hennar Jónínu, sem fór strax að klámhrella hann og birta myndina á netinu. Jónas hafði nefnilega hafnað ástleitni hennar.
Magnús tók mynd af sér berum að ofan. Hann sendi hana engum, en gleymdi að loka tölvunni sem hann var að nota. Jónína, sem settist við tölvuna á eftir Magnúsi, komst yfir myndina og sendi hana út um hvippinn og hvappinn. Jónínu var nefnilega illa við Magnús, samstarfsmann sinn, af því að hann var vinsælli en hún.
Pétur hefur aldrei tekið nektarmynd af sjálfum sér og Jónína gæti því ekki gert honum slíka skráveifu þótt hún vildi.
Ábyrgðin er Jónínu. Henni ber að refsa. En Jónas og Magnús hefðu auðvitað átt að gæta sín. Ekki satt?
***
Gaman hef ég af því að margir láta eins og að allir þeir, sem vilja brennivín í búðir, séu sjálfstæðismenn. Eru ekki flutningsmenn frumvarpsins úr fjórum flokkum?
***
3.2.2017 | 19:22
Mörg er búmanns raunin
Þrýstihópar hafa lengi vælt ákaflega undan sterku gengi krónunnar, sem komið hefur flestum almennum neytendum til góða. Nú hefur gengið veikst í sjómannaverkfallinu, en enn er vælt og nýr kór tekinn við. Það er margt í mörgu, það er næsta víst.
28.1.2017 | 11:43
Séra Jón
Helgi Már Barðason mun sakna Sir John Hurt. Frábær leikari með skemmtilegt andlit og dásamlega hrjúfa og sérstaka rödd. "Nakinn, opinber starfsmaður", "Fílamaðurinn", drekinn í sjónvarpsþáttunum um galdramanninn Merlín... allt sem þessi maður gerði var afbragð. Og örlög hans í "Alien" eru auðvitað flestum í fersku minni. Ég átti því láni að fagna að sjá hann á sviði í Lundúnum fyrir áratug eða svo. Þá lék hann í verkinu "Heroes" ásamt Richard heitnum Griffiths og Ken Stott. Það var stórkostleg kvöldstund með stórkostlegum leikurum. Hvíli karl í friði.
17.1.2017 | 19:36
Vor
Ég, Helgi Már Barðason, lýsi því hér með yfir að ég trúi því að vorið muni koma.
1.1.2017 | 14:57
Gleðilegt ár
Megi 2017 færa þeim, sem það verðskulda, hamingju og frið.