Færsluflokkur: Bloggar

Kannski ...

hann reynist sannspár, bloggarinn sem telur að það verði Samfylkingin, Borgarahreyfingin og Framsóknarflokkurinn sem myndi evrópusinnaða meirihlutastjórn eftir kosningar og Vinstri grænt verði enn og aftur látið éta það sem úti frýs?
mbl.is Ekkert samkomulag um ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Evran

Í Fréttablaðinu í dag vakti athygli mína lítil grein eftir mann nokkurn, sem starfar við ráðgjöf hjá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum og er fyrrverandi fjármálaráðherra Ekvadors. Maðurinn segir að Íslendingar þurfi ekkert leyfi eða samþykki frá Evrópusambandinu til að taka upp evru. Evran sé leið út úr vandræðum okkar og hana þurfi að taka upp sem allra fyrst. Krónan sé okkar akkilesarhæll í baráttunni við kreppuna. Færir hann fyrir máli sínu fyllilega haldbær rök, að því er leikmaður eins og ég fær best séð.

Þessi maður ætti að vita hvað hann syngur í þessum efnum. Þegar hann var fjármálaráðherra Ekvadors tók ríkið upp bandaríkjadal í stað gjaldmiðilsins síns, sem þá var ónýtur. Nú er hann ráðgjafi hjá AGS.

Í blaðinu var önnur grein, sýnu undarlegri. Þar var á ferð Hallgrímur Helgason, listamaður. Honum er mikið í mun að það komi skýrt fram að hann sé ekki sammála Benedikt Jóhannessyni nema um Evrópusambandið. Þótti mér það kyndugt. Sammála.is snýst ekki um neitt annað og óþarfi að tyggja það ofan í landsmenn.

Hitt þótti mér merkilegra að Hallgrímur virðist viðurkenna fúslega að hann ætli að kjósa fortíðina í kosningunum á morgun. Mér finnst þetta bera vott um aðdáunarvert hugrekki, sem ég vissi ekki að Hallgrímur ætti til. Hann segir nefnilega um þá Benedikt að annari ætli að kjósa fortíðina, hinn framtíðina. Benedikt hefur lýst því yfir að hann hyggist kjósa framtíðina þannig að fortíðin hlýtur að vera val Hallgríms. Fortíðin er í mínum huga stöðnun, forsjárhyggja, háir skattar, ríkisrekstur og alls kyns höft og fínerí. Slíkur ófögnuður er best geymdur í Íslandssögu 20. aldar.

 


Skop og harmur

Kostulegt, óborganlegt - en jafnframt stórfurðulegt - var að hlusta á Steingrím J. Sigfússon koma sér fimm sinnum hjá því að svara spurningu Kristjáns Más Unnarssonar í fréttum Stöðvar 2 í kvöld um stefnu VG gagnvart olíuvinnslu á Drekasvæðinu. Spurningin var ekki flókin. Skyldi vera hægt að sjá viðtalið einhvers staðar í heild, óklippt?

Skelfilegar voru hins vegar fréttirnar af því sem Steingrímur J. sagði um Icelandair og framtíð þess austur á Egilsstöðum. Ég verð að játa að það setti að mér talsverðan ugg.

Verstar og óhugnanlegastar voru þó fréttirnar um hrunið, sem í vændum er, ef marka má Sigmund D. Gunnlaugsson, formann Framsóknarflokksins. Og hrikaleg eru þau tíðindi, ef sönn eru, að ríkisstjórnin hafi vitað þetta allt saman um hríð en hafi ætlað sér að leyna almenning þessu fram yfir kosningar.

Erum við að fara úr öskunni í eldinn á áttatíu dögum?


Skýring á tilnefningum

Gauti Kristmannsson, formaður Bandalags þýðenda og túlka, var snöggur að senda mér línu eftir bloggfærslu mína um þýðingaverðlaunin þar sem hann skýrði tilnefningaferlið fyrir mér. Hafi hann bestu þakkir fyrir.

Það eru sem sagt þrír einstaklingar, dómnefndarmennirnir, sem tilnefna nokkrar bækur hverju sinni og velja svo eina bók af þeim sem þeir sjálfir tilnefndu. Að sögn Gauta er þetta algengt fyrirkomulag. Stjórn BÞT velur dómnefndarmennina.

Ekki ætla ég að gera lítið úr hæf(n)i dómnefndarinnar eða því þrekvirki að lesa allar þessar þýðingar en mér finnst fyrirkomulagið engu að síður óeðlilegt. Hér áður fyrr tilnefndu þýðendur sjálfir bækur til þýðingaverðlaunanna, en þátttakan mun hafa verið lítil (að dómi stjórnar BÞT, líklega) og þess vegna var þessi mikla breyting gerð á fyrirkomulaginu.

Mér finnst þýðendur þar með hafa gert lítið úr sjálfum sér og störfum sínum, ég get ekki að því gert. Í fyrsta lagi missa verðlaunin ákveðinn virðingarsess ef þýðendur nenna ekki að tilnefna fólk úr sínum hópi til þeirra. Í öðru lagi setur stjórn félagsins ofan ef hún treystir ekki félagsmönnum til að tilnefna þýðingar/þýðendur og kýs fremur að hafa hönd í bagga á þennan hátt. Í þriðja lagi opnast dyr, þegar dómnefnd er svona valdamikil og fámenn, fyrir óæskileg og óeðlilega mikil áhrif tískustrauma og -sveiflna í þýðingafræðum, sem dómnefndarmenn kunna að aðhyllast hverju sinni. Og er þá aðeins fátt eitt nefnt.

Ég vona að þetta mál verði rætt á aðalfundi BÞT í maí, sem ég hef því miður ekki tök á að sækja en mun fylgjast með eftir mætti. Líklega (vonandi) hefur hinn almenni félagsmaður framselt valdið til að tilnefna þýðendur í hendur stjórnarinnar á aðalfundi hér um árið og þó að stjórnin hafi án efa farið vel með þetta vald finnst mér óeðlilegt að hún hafi það.

Að lokum tek ég fram að ég er með þessum orðum ekki að kasta rýrð á störf núverandi dómnefndar. Síður en svo. Og ég óska Hjörleifi enn og aftur til hamingju með verðlaunin.

 

 


Hamingjuóskir

Ekki efa ég að Hjörleifur Sveinbjörnsson er vel að þessum verðlaunum kominn. Til hamingju, Hjörleifur.

En hverjir tilnefndu? Mér vitanlega hefur hvergi komið fram hverjir tilnefndu þá þýðendur eða þær þýðingar sem dómnefndin gat svo valið úr.

Ég er starfandi þýðandi - er í Rithöfundasambandinu og í Bandalagi þýðenda og túlka og greiði félagsgjöld eins og mér ber - en átti þess ekki kost að tilnefna þýðanda/þýðingu.

Og fyrst það voru ekki þýðendur, sem tilnefndu til íslensku þýðingarverðlaunanna, hverjir voru það þá?

Og hverjir völdu þá?

Hverjir völdu svo dómnefndina og hvernig?

Gaman væri að fá vitneskju um þetta við tækifæri frá þeim sem hlut eiga að máli.


mbl.is Hjörleifur fékk íslensku þýðingarverðlaunin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á móti

Árum saman hafa þingmenn Vinstri græns gengið undir gælunöfnunum "hann Steingrímur á móti", "hún Kolla á móti" o.s.frv. vegna þess hvað þeir hafa verið duglegir í andstöðu sinni við mál sem ríkisstjórn hverju sinni hefur lagt áherslu á.

Nú hefur Vinstri grænu tekist að fá drjúgan hluta þjóðarinnar til að vera með sér á móti. Það var svo sem ekki erfitt verk. Hreyfingin hefur fengið til liðs við sig fólk sem mun kjósa listann, ekki vegna fylgis við málstaðinn, sem er trúlega takmarkað eins og fyrri daginn, heldur vegna andstöðu við fyrri ríkisstjórnir, einkum Sjálfstæðisflokkinn.

Svona fylgi er rótlaust, ótraust og afskaplega vanþakklátt. Það hefur sýnt sig í öðrum löndum, m.a. í Kanada. Það verður fljótt að snúa baki við Vinstri grænu ef hreyfingin heldur illa á spöðunum eftir kosningar. Ætli VG að halda óánægjufylginu má hreyfingin ekki gera minnstu mistök.

Ég hef ekki heyrt einn einasta Samfylkingarmann þræta fyrir að fylgið við þá samsteypu sé fyrst og fremst persónufylgi Jóhönnu Sigurðardóttur. Þegar enginn landsfaðir er til staðar snúa þessi atkvæði sér til hennar ömmu, sem leiðir, verndar og er svo góð. Hvíslið á götunni, um að Jóhanna muni draga sig í hlé við fyrsta tækifæri eftir kosningar, verður æ háværara. Og hver tekur þá við samsteypunni? Gamall foringi? Nýr? Víst er að sá verður a.m.k. umdeildari en Jóhanna. Þegar amma hverfur á braut leitar þetta fólk sér að nýrri, hlýrri hönd, sem það treystir til að leiða sig í rétta átt. Og því er nokk sama hvaða stjórnmálaafli sú hönd tilheyrir. Það hefur sagan sýnt. Höndin gæti því allt eins orðið blá.

Sjálfur ætla ég að kjósa til næstu fjögurra ára. Ég er að hugsa um að kjósa það fólk sem ég treysti best til að leiða þjóðina úr þrengingunum áður en fjórðungur hennar flytur úr landi. Ég ætla ekki að kjósa á móti fortíðinni, heldur fyrir framtíðina. Enda bera býsna margir ábyrgðina þegar fortíðin er annars vegar - ekki bara þeir seinheppnu.

Gárungarnir segja að forsetinn sé þegar búinn að klambra saman óskastjórninni sinni. En svo illum tungum trúi ég nú ekki.

 


Mikið ...

... hafði ég gaman af bíómyndinni um furðufuglinn Hallam Foe, sem Sjónvarpið sýndi á sunnudagskvöldið. Þetta var ein af þessum myndum þar sem manni er komið á óvart hvað eftir annað og það var unun að fylgjast með stórleikaranum unga, Jamie Bell ("Billy Elliot"), í aðalhlutverkinu.

... hef ég gaman af að horfa og hlusta á einn eftirlætisstjórnmálamanninn minn færa rök fyrir sínu máli og þúsunda annarra þessa dagana. Þessi stjórnmálamaður er Ragnhildur Helgadóttir, fyrrverandi ráðherra. Stórglæsileg kona, prúðmennskan uppmáluð og rökföst og sannfærandi eins og fyrri daginn.

... hafði ég gaman af viðtali við Sverri Hermannsson um helgina. Ekkert skítkast. Bara málefnalegt spjall. Enginn æsingur. Viðurkenndi að hafa skipt um skoðun í veigamiklum málaflokki og skammaðist sín ekkert fyrir það. Svona eiga bændur að vera.

... hef ég gaman af hrútnum Hreini og félögum. Alveg hreint dásamlegur selskapur. Það er ekki til betra lyf við vondu skapi.

 


Enn þverr skilningurinn

Ég skil ekki hvers vegna Sjálfstæðisflokkurinn ætti að þurfa að afneita einhverjum blaðaauglýsingum sem birst hafa að undanförnu.

Halda menn virkilega að enginn kvíði vinstri stjórn nema flokksbundnir sjálfstæðismenn? Ég þekki marga framsóknarmenn sem hrýs hugur við því að hér komist til valda samstjórn Vinstri græns og Samfylkingar. Af hverju berast böndin ekki að þeim - til dæmis? Eða öðrum stjórnmálaöflum sem eru lítt hrifin af þessu samkrulli?

Það er með ólíkindum að sæmilega skýrir menn skuli láta svona út úr sér í öllu athyglisbröltinu án þess að hafa nokkurn skapaðan hlut fyrir sér.

Ég þekki meira að segja allmarga jafnaðarmenn sem ekki vilja samstarf við Vinstri grænt. Meðan leiðtoga þeirra tekst að halda sundurleitri hjörðinni saman á persónufylgi þegja þeir þunnu hljóði en einn góðan veðurdag heyrist áreiðanlega í þeim, ef ég þekki þá rétt.

Þangað til ættu menn að þegja, finnst mér, um það sem þeir vita ekkert um. En ég skil ekki pólitík svo að ég geri ráð fyrir að maður þessi muni áfram reyna að ná athygli á annarra kostnað með því að tjá sig fjálglega um hin aðskiljanlegustu mál. Svona eins og bankamálaráðherrann okkar fyrrverandi, sem Íslendingar eru nú í þann veginn að kjósa yfir sig aftur eftir allt sem á undan er gengið.

 


Vondar auglýsingar

Ýmsir fara mikinn þessa dagana og býsnast yfir auglýsingum í blöðum, þar sem hópur fólks heldur hinu og þessu fram - sumt er sjálfsagt satt, annað logið - en enginn verður þó fyrir persónulegu skítkasti.

Þess vegna varð ég hissa þegar ég sá því haldið fram að svona svæsnar auglýsingar væru nýmæli í aðdraganda kosninga.

Eru menn búnir að gleyma heilsíðuauglýsingunni fyrir síðustu kosningar, þar sem "vinur litla mannsins," maðurinn í víggirtu glæsivillunni í heiðinni fyrir norðan (sem einhver sagði mér að væri bara gestabústaður) hvatti fólk (í öðru kjördæmi!) til að strika yfir tiltekinn þingmann og fór um hann ófögrum orðum?

Það versta var að sumir litlu mannanna fóru að þessum tilmælum auðjöfursins misskilda og hjartagóða, sem þarna notaði auðæfi sín og völd til að koma höggi á mann, sem stóð við sínar skoðanir og hlýddi sannfæringu sinni - hvað svo sem fólki finnst um skoðanir þingmannsins og ákvarðanir. Það er allt annað mál.

Mér er mishlýtt til stjórnmálamanna og óska ýmsum þeirra óteljandi yfirstrikana, en ég er bara lítill maður og get ekki birt heilsíðuauglýsingu í dagblöðum þar sem ég hvet fólk til að hafna þessu fólki.

Auglýsingin núna er ósköp meinlaus, finnst mér. Það er a.m.k. ekki verið að níða af neinum skóinn.


Lífmissir og líftaka

Ég var að ljúka við nýjustu skáldsögu eins þekktasta og vinsælasta sakamálahöfundar okkar. Frábær bók.

Aðeins tvennt stakk í augu. Á einum stað talar höfundur um að persóna hafi "misst líf sitt". Þetta hef ég hvorki heyrt né séð fyrr. Hins vegar liggur það fyrir okkur öllum að týna lífi, hverfa yfir móðuna miklu, deyja eða bíða bana - svo dæmi séu tekin.

Á mörgum stöðum notar höfundurinn svo orðalagið "að taka líf sitt". Það kemur mér mjög á óvart að sjá þennan afar ritfæra mann falla í þessa enskugryfju - ekki bara einu sinni, heldur margoft. Á íslensku sviptir fólk sig lífi, styttir sér aldur eða fellur fyrir eigin hendi - svo nokkuð sé nefnt. Við þurfum ekki á enskunni að halda.

Ég vona að ólánssamar persónur í verkum höfundarins muni héðan í frá velja íslenskari leið en að missa líf sitt eða taka það. Kannski er ég bara svona mikill þjóðernissinni inn við beinið?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband