Færsluflokkur: Bloggar
18.4.2009 | 20:40
Skilningur minn fer þverrandi
Í Fréttablaðinu í dag var býsna skemmtileg samantekt á stefnumálum flokkanna fyrir kosningarnar, sett fram í formi spurninga sem formenn flokkanna svöruðu.
Eftir að hafa skoðað svör formannanna lauslega fæ ég ekki séð hvernig Samfylkingin og Vinstri grænt ætla að vinna saman í ríkisstjórn eftir kosningar.
Hvernig er hægt að finna málamiðlun í málum á borð við gjaldmiðilsskipti og Evrópusambandið? Himinn og haf skilja að flokkana tvo í þessum efnum.
Ég tók sérstaklega eftir svörum formanna þessara flokka varðandi álverið á Bakka við Húsavík. Þau svör gefa Þingeyingum og Eyfirðingum ekki tilefni til bjartsýni.
Er ef til vill unnið að undirbúningi annars konar ríkisstjórnarsamstarfs á bak við tjöldin?
17.4.2009 | 08:53
Enginn hagfræðingur
Ég er enginn hagfræðingur, en er það ekki eins og að pissa í skóinn sinn að ætla að lækka laun opinberra starfsmanna? Minnka þá ekki skatttekjur ríkisins og sveitarfélaganna um leið? Ég hélt að ríkið væri ekki ofalið þessa dagana, hvað þá sveitarfélögin. Já, og lífeyrissjóðirnir - ekki eru þeir feitir um þessar mundir.
Ég veit alveg hvernig ég brygðist við slíkri launalækkun ofan á verðhækkanir, lánahækkanir og það allt saman. Ég flyttist til útlanda við fyrsta tækifæri með fjölskyldu mína. Ef ég kemst ekki lengur af á Íslandi er það eina ráðið. Ættjarðarást er eflaust kúl, einkum á þessum síðustu og verstu, en hún brauðfæðir ekki fjölskyldu mína.
Ég er heldur ekki sannfærður um að ég fengi launalækkunina nokkurn tímann til baka þó að betur færi að ára. Einhvern veginn hefur ríkið alltaf verið tregt í taumi þegar kauphækkanir eru annars vegar og jafnvel gengið á bak orða sinna í þeim efnum.
Er það ekki líka skópisserí að ætla að hækka fjármagnstekjuskatt? Hvað gerist þá? Fólk dregur úr sparnaði. Varla vilja menn stuðla að því?
Og ég er nógu gamall til að muna eftir fagnaðarlátunum þegar eignaskatturinn var loksins afnuminn á sínum tíma.
Væri ekki nær að koma því þannig fyrir að skuldir fólks lækkuðu, fyrirtæki og einstaklingar losnuðu við bróðurpartinn af vaxtabyrðinni og fyndu hjá sér hvöt til að vinna betur og framleiða meira? Um leið fengju ríki og sveitarfélög auknar tekjur af þessum fyrirtækjum og einstaklingum.
En, eins og ég segi, ég er enginn hagfræðingur.
15.4.2009 | 08:40
Skilningsleysi mitt er algert
Af hverju fara þeir, sem telja sig þess umkomna að ásaka pétur og pál um mútuþægni, ekki til lögreglunnar og tjá henni grunsemdir sínar í stað þess að þvaðra um þetta í fjölmiðlum? Mútuþægni er lögbrot. Ef grunsemdir vakna um slíkt á að tilkynna það lögreglunni.
Af hverju líðst þessu fólki að vaða um með ásakanir á hina og þessa? Hvers vegna virðist fólki með ákveðnar pólitískar tilhneigingar fyrirgefast hvað eftir annað að sverta mannorð fólks miskunnarlaust með alls konar tilhæfulausum fullyrðingum og mykjuvarpi í fjölmiðlum? Er fólk allt í einu sekt uns sakleysi þeirra er sannað? Ég hélt það ætti að vera á hinn veginn ...
Svo mega borgarar, sem ekki deila skoðunum þessara lýðskrumara, varla opna munninn án þess að vera ásakaðir um lygar og svik, svo vægt sé til orða tekið.
Já, það er margt sem ég ekki skil.
Þar á ofan var ráðherra í ríkisstjórninni að lýsa því yfir að hann vildi lækka laun opinberra starfsmanna og jafnframt hækka skatta. Undir þetta tók víst þingmaður hins ríkisstjórnarflokksins.
Voru það opinberir starfsmenn og aðrir launamenn sem ollu kreppunni? Eiga þeir að bera byrðarnar?
Guð sé oss næstur.
13.4.2009 | 18:13
Vammlausa liðið
Alveg er ég gáttaður á því hversu margir virðast hafa mikinn tíma til að blogga þessa dagana. Sjálfur fæ ég oft ekki tækifæri til slíks dögum saman.
Það veldur mér líka furðu hversu margir bloggaranna virðast vammlausir með öllu. Í skrifum þeirra er fátt að finna nema skítkast. Nóg er af grjótinu á Íslandi, svo mikið er víst, en ég vissi ekki að glerhúsin væri svona mörg. Og þeir sem eru í tísku hverju sinni mega varla æmta eða skræmta, þá eru mykjupennarnir komnir á loft og byrjaðir að andskotast á bloggsíðunum. Heiftin er slík að engu tali tekur. Og orðalagið svo sóðalegt að hverjum heilvita manni blöskrar.
Lengi vel var Davíð Oddsson í tísku. En nú er hann hættur og gerir fátt krassandi, enda ekki landsfundur á hverjum degi. Nú er Sjálfstæðisflokkurinn handhægastur, enda fátt að gerast í heimi fréttanna nema óeirðir austur í Tælandi og jarðskjálftar suður á Ítalíu og gúrkutínslumenn í hópi fréttamanna því ófærir um að komast út úr gróðurhúsi íhaldsins, jafnvel þótt víða sé að finna vöxtulegri gúrkur en þar.
Hinir vammlausu eru fljótir að skynja hvern er í tísku að hata hverju sinni. Þeir minna mig á rotturnar í kvæði Davíðs Stefánssonar, sem sífellt naga og naga. Í þessum hópi eru ríkir menn og snauðir. Alls kyns fólk. Þröngsýnir hrægammar, sem glaðbeittir hnita hringi yfir þeim sem sleginn hefur verið niður. Misgreindir eru gammarnir að sönnu, en allir eru þeir þó svo þröngsýnir og áhrifagjarnir að þeir færa þeir sig ekki úr stað meðan hægt er að kroppa í þann sem liggur. Þeir sjá ekki þá sem líka eru að falli komnir en fela sig í skóginum.
Hvað gera hrægammarnir og rotturnar þegar leiðtogar þeirra og skósveinarnir neyðast til að koma út úr skóginum og hníga niður í sólinni? Það verður spennandi að sjá.
11.4.2009 | 16:51
Skemmtilegar kenningar
Ég heyrði athyglisverða kenningu í gær.
Hún er sú að það sé engin tilviljun að fréttirnar um háa styrki til Sjálfstæðisflokksins berist einmitt núna. Og að það séu sjálfstæðismenn sjálfir sem standi fyrir því.
Sjálfstæðismenn hafi engan áhuga á að vinna kosningarnar núna. Þeir vilji tapa þeim. Gjarnan nógu stórt til að það sé fullkomlega tryggt að þeir sitji ekki í næstu ríkisstjórn. Þeir geti þá safnað kröftum, haldið endurnýjuninni áfram og veitt nýjum formanni tækifæri til að sjóast.
Vinstri stjórn popúlistaflokkanna verði nefnilega aldrei langlíf. Hún standi frammi fyrir erfiðum ákvörðunum og geti ekki beitt lýðskrumi nema í takmarkaðan tíma til að slá ryki í augu fólks. Þá sé "verkstjórinn" svo erfiður í samstarfi þegar alvara lífsins tekur við að annaðhvort hann eða samráðherrarnir muni gefast upp fljótlega, auk þess sem stjóri sé nokkuð farinn að lýjast eftir langa þingsetu.
Vinstri stjórn sé spáð 12-18 mánuðum á valdastólum. Meira að segja forsetinn geti ekki lengt líf hennar þegar allt verði komið í hönk.
Kenning þessi byggist á því að eftir 12-18 mánuði verði staða Sjálfstæðisflokksins gjörbreytt í augum almennings, sem sé jafnan fljótur að gleyma. Sjálfstæðisflokkurinn verði sá flokkur sem búinn sé að gera hreint. Hreinsa til. Viðurkenna mistök sín. Endurnýjast. Hinir flokkarnir verði ímynd stöðnunar, gamaldags úrræða, skrifræðis og öldungaræðis. Þeir verði löngu búinir að missa traust almennings, annaðhvort með því að grípa til vitlausra aðgerða eða með aðgerðaleysi.
Þá verði kosningar. Þar muni sjálfstæðismenn fara með sigur af hólmi.
Merkileg kenning. Áreiðanlega tóm tjara, en skemmtileg samt.
9.4.2009 | 23:58
Gaman ...
... hafði ég af fréttinni á Vísi þar sem hluthafi í FL Group, sem kært hefur styrkveitingu fyrirtækisins til Sjálfstæðisflokksins, fer mikinn yfir símhringingum frá sjálfstæðismönnum sem hóti honum öllu illu.
Skömmu síðar segir maðurinn að símtölin hafi verið nafnlaus!
Ég er að hugsa um að fara að hringja fáein hótunarsímtöl í nafni hinna og þessara flokka - en í skjóli nafnleyndar, að sjálfsögðu. Bara til að kanna hvort viðtakendur símtalanna hlaupi ekki örugglega með það í blöðin.
Þá hneykslast bloggari einn ógurlega á Sjálfstæðisflokknum, m.a. fyrir það að hafa ekki gert upp fortíðina.
Hér með er lýst yfir uppgjöri annarra stjórnmálaflokka við fortíðina og ábyrgð þeirra á því sem á annað borð getur talist vera stjórnmálamönnum að kenna í þessum ósköpum öllum.
Kannski verður uppgjörinu lokið fyrir þingkosningarnar 2010.
9.4.2009 | 11:20
Ég get ómögulega skilið ...
... af hverju stjórnarskrármálið getur ekki beðið svo að hægt sé að afgreiða brýnni mál,
... af hverju fólk safnaðist aldrei saman við þinghúsið til að mótmæla í öll þau skipti sem Vinstri grænt og Samfylkingin beittu málþófi,
... af hverju menn kyngja því að fólk, sem setið hefur á þingi áratugum saman og setið í ríkisstjórn annað veifið, skuli firra sig allri ábyrgð á stöðunni í þjóðfélaginu,
... af hverju fólk virðist fremur sækjast eftir hærri sköttum þessa dagana en niðurfellingu skulda.
Já, það er margt sem ég ekki skil.
9.4.2009 | 00:22
Mark og ómark
Ég tek ekki mark á fólki sem lýgur að allri heimsbyggðinni - lýgur til um ástæður þess að það fer ekki á fundi sem því ber að sækja og gerir sjálft sig og samlanda sína að fíflum fyrir vikið.
Ég tek ekki mark á fólki sem er sakfellt fyrir lögbrot en segir að það geri ekkert til - af því að sá sem kærði sé bara fífl og bjáni.
Ég tek ekki mark á fólki sem fer með fjárráð hundruða þúsunda manna en yppir bara öxlum þegar það er spurt af hverju peningar þeirra rýrni dag frá degi.
Ég tek ekki mark á fólki sem segir að hjónaband þess geti alveg gengið þó að karlinn vilji búa á Rifi en kerlingin í Róm.
Ég tek hins vegar mark á fólki sem viðurkennir að bera ábyrgð á því sem miður hefur farið og fólki sem skilar peningum sem því finnst það ekki hafa átt að þiggja.
Ég tek mark á fólki sem reynir ekki að firra sig ábyrgð og varpa sökinni á aðra.
Og hananú.
6.4.2009 | 21:55
Ég velti fyrir mér ...
... hver skyldi vera hin raunverulega ástæða þess að áhrifamaður í íslensku samfélagi forðast eins og heitan eldinn að fara til útlanda á fundi með erlendum kollegum sínum.
Enginn er ómissandi. Jú, jú, það er eflaust mikið að gera hjá áhrifamanninum en getur hann leyft sér að sniðganga útlenda kollega sinna ítrekað með þessum hætti?
Hvaða skilaboð er hann að senda með því?
Mér finnst að áhrifamaðurinn eigi að koma til dyranna eins og hann er klæddur. Eins og hann gerir gjarnan þegar hann veitir sjónvarpsviðtöl. Þá birtist hann gjarnan í eftirlætisúlpunni sinni.
Ef hann er t.d. félagsfælinn eða lélegur í ensku á hann bara að segja það. Ef hann nennir ekki svona ferðastússi eða er flughræddur(!) á hann bara að segja það. Ef hann er hræddur um að flokkurinn hans liðist í sundur ef hann bregður sér frá á hann bara að segja það.
Þessi áhrifamaður stærir sig af því að vera heiðarlegur. Er hann það?
Áhrifamaðurinn er ekki ómissandi. Ef til vill heldur hann það í alvöru. En þó að hann sé vinsæll í sumum kreðsum og njóti nú allt í einu aðdáunar skoðanasystkina sinna eftir mörg mögur ár þýðir það alls ekki að einhver geti ekki reddað hlutum fyrir horn meðan hann bregður sér af bæ.
Kirkjugarðurinn er fullur af ómissandi fólki, sagði skáldið forðum.
29.3.2009 | 17:41
Undarleg viðbrögð
Ég þekki ekki Bjarna Benediktsson. Ég hef hins vegar tekið eftir því að það versta, sem andstæðingar flokks hans hafa sagt um hann hingað til, snertir ætternið. Bjarni er sem sagt af ætt sem lengi hefur verið áhrifamikil í Sjálfstæðisflokknum, að sögn þeirra sem þykjast þekkja til.
Hvaða sanngirni er í slíku? Þætti andstæðingum hans sniðugt að vera hafnað á þeirri forsendu að þeir séu ekki af rétta fólkinu komnir?
Á að nota það gegn Jóhönnu Sigurðardóttur að hafa verið flugfreyja og að hún skuli hneigjast til fólks af sama kyni? Ég þekki ekki marga sem telja hana óhæfan flokksleiðtoga þess vegna. Þar liggja aðrar ástæður að baki.
Er Sigmundur Davíð ómögulegur flokksformaður af því að pabbi hans sat einu sinni á þingi?
Ég tek ekki þátt í því að hnussa yfir kjöri Bjarna Benediktssonar vegna þess úr hvaða fjölskyldu hann er. Ekki frekar en ég tel mig þess umkominn að hnussa yfir Steingrími joð af því að hann er bóndasonur úr Þistilfirði en ekki eitthvað annað.
Einum vinstri grænum vini mínum þykir Bjarni Benediktsson helst til fallegur (hans orð!) til að geta orðið sannfærandi flokksleiðtogi.
Jafnvel sæmilega reyndir stjórnmálamenn, sem vilja láta taka sig alvarlega, detta í þennan pytt þessa dagana.
Undarlegt.
![]() |
Bjarni kjörinn formaður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |