Færsluflokkur: Bloggar

Svo margt sem ég ekki skil ...

Ég er óttalegur auli þegar pólitík er annars vegar, það verður að viðurkennast.

Ég skil til dæmis ekki af hverju allt ætlar vitlaust að verða þegar einhver hægri maður vogar sér að tala um vinstri menn eins og vinstri menn tala um hægri menn.

Er almennt ætlast til meiri kurteisi af hægri mönnum, eða hvernig fúnkerar fúkyrðasýstemið eiginlega? Hverjar eru reglurnar í þessum leik?

Eða eru hægri menn bara meiri aumingjar? Þora þeir ekki að grípa til stóryrðanna nema á hátíðis- og tyllidögum, öfugt við vinstri menn, sem virðast ófeimnir við að nota þau dagligdags?

Þetta er bara eitt af því sem ég ekki skil og ég verð barasta líklega að kyngja því.

 


Red River ...

... heitir Rauðá á íslensku, sbr. t.d. söguna "Í Rauðárdalnum" eftir Jóhann Magnús Bjarnason. Ég ætla einmitt að ferðast um þessar slóðir í sumar og hlakka mikið til, enda verður þá vonandi farið að þorna um.

Auk þess minni ég á að engin fylki eru í Bandaríkjunum.


mbl.is Gríðarleg flóð í Norður-Dakóta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afrekskona Léttbylgjunnar

Ég sá í vefmiðli áðan að Jóhanna Sig væri jafnvel líkleg til að hreppa hið eftirsótta sæmdarheiti "afrekskona Léttbylgjunnar".

Ja, með svona titil gæti Jóhanna sannarlega farið að huga að því að setjast stolt í helgan stein. Enda varla hægt að hugsa sér meiri heiður.


Matur og lýðræði

Svo stjórnlagaþing gæti kostað 2 milljarða og jafnvel meira en það. Og hvað er þetta stjórnlagaþing for noget? Botna ekkert í þessu fyrirbæri þó að ég telji mig hafa reynt. Veit bara að mér finnst, af einhverjum ástæðum, ekkert sérlega góð lykt af því. Hvað þá verðmiðanum.

Lýðræðið kostar sitt, segja sumir. Jamm og já. En það gerir maturinn líka. Og ef þessum tveimur milljörðum væri nú deilt niður á mannskapinn í landinu, í stað þess að eyða þeim í eitthvað sem enginn veit hvaða árangur ber - ef nokkurn - fengi hvert mannsbarn að líkindum nokkra þúsundkalla í sinn hlut.

Kannski er stjórnlagaþing hið besta mál. En er þetta ekki of dýr tilraun eins og staðan er núna? Ég held að lýðræðið muni þrauka án stjórnlagaþings. Það hefur gert það hingað til. Og ég held líka, í einfeldni minni, að almenningur á Íslandi þurfi meira á þúsundköllum að halda í augnablikinu en háleitum hugsjónum. Því miður.


Viðbrögð

Góður maður hnippti í mig í dag og glotti í kampinn. Hann sagði viðbrögð ríkisstjórnarinnar við tillögum Tryggva Þórs Herbertssonar um bætt kjör almennings eindregið benda til þess að í þeim væri töluvert vit. Sjálfur hefði hann lítið vit á stjórnmálum, hvað þá efnahagsmálum, en hann væri eldri en tvævetur og hefði oft séð þetta áður.

Ég hafði ekki leitt hugann að því að það væri mögulegt að stjórnmálamenn hugsuðu svona. Skyldi kunningi minn hafa rétt fyrir sér?


Fullveldismissir?

Undarlegt þykir mér að heyra hatramma andstæðinga aðildar Íslands að Evrópusambandinu tala, án þess að blikna, um að Ísland muni tapa fullveldi sínu við inngöngu í ESB.

Ætlar sama fólk að halda því fram að Hollendingar, Bretar, Svíar, Írar og Frakkar, svo nokkrar þjóðir séu nefndar, hafi glatað fullveldi sínu og löndin séu ekki lengur fullvalda ríki?

Ég hef ekki orðið var við það. Og mér segir svo hugur um að hinn almenni Hollendingur sé ekki alveg tilbúinn að viðurkenna að föðurland sitt sé ekki fullvalda.

Varð ekki Ísland fullvalda ríki árið 1918? Þýðir Evrópusambandsaðild sem sagt að við hoppum afturábak um heila öld?

Ég held varla. Fólk getur haft ýmsar skoðanir á þessum málum en mér finnst að enginn eigi að gaspra svona með orðið "fullveldi".

Og hananú.


Sá yðar sem syndlaus er ...

Enn er málefnafátækt fólk að agnúast út í Árna Johnsen. Mann sem var á sínum tíma dæmdur og afplánaði sína refsingu. Hann var ekki náðaður, eins og sumir halda enn fram í fávisku sinni, heldur hlaut hann uppreist æru. Það er allt annar handleggur og slíka uppreist hafa margir hlotið í áranna rás.

En af hverju verður Árni enn fyrir árásum? Hvers vegna er andstæðingum hans svona meinilla við að hann nái góðum árangri í prófkjöri? Og af hverju fær maðurinn alltaf svona mörg atkvæði fyrst hann er svona ómögulegur?

Skyldi skipta einhverju máli í hvaða flokki hann er? Nei, ég er alveg viss um að syndleysingjarnir væru alveg jafn vondir við Árna ef hann væri í flokknum þeirra.

Eða hvað?

Mér er sagt að 62 þingmenn sjáist vart í kjördæmi sínu nema ef til vill rétt fyrir kosningar. Sá sextugasti og þriðji sé hins vegar alltaf á ferðinni. Hann fylgist gjörla með því sem íbúar kjördæmis hans, og raunar landsmenn allir, eru að skrifa og skrafa um hverju sinni. Hann bankar upp á hjá fólki, flokkssystkinum sínum og hatrömmum andstæðingum, sumar sem vetur og spyr hvernig fólkið hafi það, hvað brenni helst á því og hvaða mál það telji að séu brýnust fyrir hag almennings og landsins alls.

Þessi maður heitir Árni Johnsen. Ég þekki hann ekki og hef aldrei hitt hann, bý ekki í kjördæminu hans og hef ekki lagt mig í líma við að fylgjast með störfum hans, en þetta er mér sagt.

Væri ekki ráð að mykjudreifarar færu að gera hreint í eigin ranni í stað þess að hreyta ónotum í mann sem virðist hafa tekið til í sál sinni og lætur sig hag almennings einhverju varða en segist ekki bara gera það? Auk þess trúi ég ekki öðru en að skítkast í garð Árna Johnsen hljóti að vera komið úr tísku fyrir löngu og því tæpast vel til atkvæðasöfnunar fallið. Málefnasnauðir menn og konur ættu kannski frekar að snúa sér að því að sannfæra meðaljóna og pólitíska eymingja eins og mig um það af hverju umdeilt stjórnlagaþing, umdeildar stjórnarskrárbreytingar, umdeildar breytingar á kosningalögum og umdeilt seðlabankafrumvarp - og í kjölfar þess mannaráðning sem e.t.v. brýtur í bága við ákvæði stjórnarskrár - eru mikilvægari mál en hagur okkar meðaljónanna og fyrirtækjanna sem við vinnum hjá - þ.e.a.s. þeir okkar sem ekki hafa misst vinnuna og/eða ævisparnaðinn. Svo mikilvæg að það er ekki hægt að halda þingfundi ef þau eru ekki á dagskrá.

 


Vondir bakþankar

Ég hef stundum haft gaman af Davíð Þór Jónssyni, enda klár náungi og stundum skondinn. Ég verð hins vegar að játa að ég hef ekki haft mikla skemmtan af bakþönkum hans á baksíðu Fréttablaðsins síðustu vikurnar. Þessi skrif einkennast öðru fremur af hroka, reiði og ótta og valda mér miklum vonbrigðum. Þau lýsa höfundinum raunar betur en umfjöllunarefnunum. Og ég er alveg viss um að Davíð Þór hefur ekki ætlað sér að falla í þá gryfju.

Ég er sannfærður um að Davíð Þór Jónsson kæmi skoðunum sínum alveg jafn vel - og trúlega betur - til skila ef hann tileinkaði sér orðfæri ritstjóra síns, Þorsteins Pálssonar. Þorsteinn kann þá list að segja margt og skjóta fast án þess að nota stóryrði. Þó að ég sé ekki ævinlega sammála honum eru skrif hans ætíð málefnaleg og skemmtileg aflestrar. Það eru bakþankar Davíðs Þórs að mínum dómi ekki.


Fínir vitar

Mikið hafði ég gaman af útsetningunni og flutningnum á laginu "Brennið þið, vitar" í spurningaleiknum Gettu betur í kvöld. Frábært skemmtiatriði. Vel flutt og útsetningin miklu betri en sú gamla!

Fylki?

Undarlegt þótti mér að sjá flokkinn "Fylki Bandaríkjanna" í boði í spurningaþættinum Útsvari í kvöld. Mér var ungum kennt að í Bandaríkjunum væru engin fylki. Þar væru hins vegar 50 ríki. Þess vegna héti landið Bandaríkin, ekki "Bandafylkin".

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband