Færsluflokkur: Bloggar

Heimur versnandi fer

Kvartað yfir áfengisáhrifum? Ja, hérna. Margt er mannanna bölið. Eitt er víst að meðan ég drakk hefði ég áreiðanlega þegið þennan öllara - nokkrum sinnum á dag!
mbl.is Kvartað yfir áfengisáhrifum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mary?

Mary? Ef hann heitir Friðrik hlýtur hún að heita María hér uppi á Íslandi.

Annaðhvort Frederik og Mary eða Friðrik og María, ekki satt?

 


mbl.is Friðrik og Mary í opinbera heimsókn til Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaða hluti?

"Hluti aldraðra fer of snemma á hjúkrunarheimili að mati sérfræðings" segir í undirfyrirsögn á forsíðu 24 stunda í dag.

Hvaða hluti skyldi það vera? Kviðurinn, kannski?

W00t

Mikið déskoti getur maður nú verið fyndinn ...

 


Eignaspjöll

Veggjakrot, sinubrunar, íkveikjur ... ég held að það hljóti að vera tími til kominn að setja miklu harðari lög um eignaspjöll á Íslandi. Víða vestanhafs er svo mikil virðing borin fyrir eignarréttinum að fólki dettur ekki einu sinni í hug að rölta yfir annarra manna lóðir þó að engin sé girðingin. Eitthvað annað en hérlendis. Hér kveikjum við í eigum annarra eða eyðileggjum þær með öðru móti ef okkur dettur í hug - við látum sko engan segja okkur fyrir verkum! Hvergi er þetta skýrara en í umferðarómenningunni okkar. Reglur eru bara fyrir einhverja aula.

Við Íslendingar erum nefnilega algerir Jónatanar - gerum bara nákvæmlega það sem okkur sýnist. Það er kominn tími á að Soffía frænka sýni klærnar og herði refsingar við eignaspjöllum, hverju nafni sem þau nefnast. Og hananú.


mbl.is Allt að 5000 tré ónýt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Köben?

Hvar er þetta Köben? Af samhengi má ráða að þetta sé borg, að líkindum í Danmörku, en þrátt fyrir ítrekaða leit hefur mér ekki tekist að finna hana á neinu korti. Þó er Köben auglýstur áfangastaður flugfélaga og þangað eru ferðir á vegum ferðaskrifstofa, jafnvel héðan frá litlu Akureyri. Ég hef séð þetta orð, Köben, í blaðaviðtölum og þetta á greinilega að vera ákaflega skemmtilegur staður.

Ég spurði danskan vin min að þessu og hann kannaðist ekki við neitt Köben. Hann hélt reyndar fyrst að ég væri að tala um að "köbe ind" og undraðist að ég skyldi ekki vita hvað það væri.

Hér með er lýst eftir Köben, þeim forvitnilega stað.


Ellen og Skepnurnar

Sé út undan mér að Ellen Burstyn er í Sjónvarpinu. Líklega er þetta Ya-Ya Sisterhood, mig minnir að hún hafi verið á dagskrá kvöldsins.

Hef sjaldan hrifist eins mikið og af Ellen Burstyn í kvikmyndinni Requiem For A Dream. Myndin var ekki sú besta sem ég hef augum barið, en leikur Ellenar var sennilega með því allra magnaðasta sem ég hef séð. Varð leiður þegar hún fékk ekki Óskarinn.

Var að hlusta á eina af eftirlætisplötunum mínum áðan. Hún heitir Before We Were So Rudely Interrupted (1977) og er önnur (og að mínum dómi sú betri) af tveimur "reunion-"plötum hljómsveitarinnar Animals eins og hún var í upphafi. Miklir snillingar eru þessir menn - eða voru, því að bassaleikarinn Chas Chandler er dáinn. Synd að hljómsveitin varð ekki langlífari og synd að hún skyldi ekki gera fleiri endurreisnarplötur. Eric Burdon söngvara og Alan Price hljómborðsleikara kom víst ekkert sérstaklega vel saman. Hef lítið heyrt í Price síðustu árin, en Burdon er í fantaformi og röddin aldeilis mögnuð ennþá. Það syngja fáir hvítir menn blúsinn eins og hann.

John Steel var enn að tromma síðast þegar ég vissi og Hilton Valentine að spila á gítarinn. Mikið væri gaman ef eftirlifandi Skepnur kæmu nú saman einu sinni enn.

 


Losun

Enn er ekki minnst á sjávarútveginn þegar talað er um losun mengunarefna í andrúmsloftið. Álver og önnur iðjuver eiga að fá á baukinn og af nýjustu fréttum að dæma eru bílar landsmanna, ekki síst þeir stóru, iðnir við kolann líka.

Er það vitlaust munað hjá mér að allstór hluti losunarinnar komi frá togurum landans og fiskiskipum hans? Er sjávarútvegurinn svo friðhelgur að ekki megi minnast á þetta? Eða hver er ástæðan?

 


Fón hóm

ET ... ert þetta þú?
mbl.is Óþekkt loftfar á íslenska flugstjórnarsvæðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég á von á því

Einkennilegt hversu margir veðurfræðingar á Stöð 2 eiga von á hinu og þessu. Siggi stormur og a.m.k. tvær stúlknanna eiga ævinlega von á, en búast aldrei við, gera aldrei ráð fyrir, halda aldrei og telja aldrei neitt líklegt. Þetta er svo sem ekkert stórmál, síður en svo, en ég get ekki neitað því að mér finnst orðafátæktin þreytandi og svolítið sorgleg.

Ég tel þó víst, held, býst við, reikna með, geri ráð fyrir og vænti þess að veðurfræðingarnir gefi okkur gott vor.

Wink


Þýðendur eru þýðendum verstir

Í ár ber svo við að í staðinn fyrir að þýðendur tilnefni sjálfir bækur til þýðingaverðlauna ársins er það dómnefnd sem gerir það. Hvaða forsendur dómnefndin hefur til að tilnefnda þessar bækur veit ég ekki. Varla er henni gert að lesa hverja einustu bók sem út kemur á árinu - eða hvað?

Með þessu eru Íslensku þýðingaverðlaunin orðin marklaus. Eign fárra einstaklinga. Enn frekar hátíð fárra útvalinna snobbara en áður. Dómnefnd (skipuð þremur einstaklingum, ef ég man rétt) getur ekki tilnefnt bækur til þýðingaverðlauna. Hver tekur svo ákvörðun um verðlaunabókina? Dómnefndin? Eða er hún þegar búin að velja verðlaunabókina og nefnir bara nokkrar í viðbót til að reyna að búa til einhverja spennu?

Auðvitað eiga þýðendur sjálfir að tilnefna bækur til Íslensku þýðingaverðlaunanna. Allir þýðendur, a.m.k. allir þeir sem vilja, geta og telja sig færa um. Þó að ekki sé allt gott í henni Hollywood hafa þarlendir þó vit á að hrófla ekki við tilnefningakerfinu sem þar hefur verið notað lengi, a.m.k. ekki að neinu ráði. Ef einhverjir aðrir en þeir sem starfa í kvikmyndaiðnaðinum ættu að fara að tilnefna til Óskarsverðlauna myndu sennilega hreppa hnossið einhverjar myndir sem enginn hefur heyrt um, hvað þá séð.

Tilnefningarnar í ár renna enn frekari stoðum undir grun minn um að þar sé farið eftir höfundum og þýðendum fremur en þýðingum. Það er sem sagt gott að hafa þýtt norskt stórskáld og gott fyrir þýðanda að vera þekktur rithöfundur. Að minnsta kosti eitt dæmi er um fúsk í tilnefningunum nú, að mati ágæta vina minna sem þær hafa stúderað. Kunningi minn, sprenglærður í norsku og víðlesinn í bókmenntum þarlendra, segir mér t.d. að þýðingin á umræddri bók sé miðlungsvel gerð, kannski rétt rúmlega það. Ekkert meira. Þessi kunningi minn er ekki maður stórra orða og því hef ég tilhneigingu til að trúa honum. Um þýðinguna get ég ekki dæmt sjálfur þar eð ég kann ekki norsku. Kunningi minn hefur reyndar efasemdir um að þýðandinn kunni norsku nema sæmilega.

Skyldi þetta vera eina dæmið um miðlungsþýðingu sem er tilnefnd af því að höfundurinn var þekktur og þýðandinn þykir gott skáld? Er endilega víst að góðir rithöfundar séu góðir þýðendur? Halldór Laxness var góður rithöfundur (mistækur eins og aðrir) en var hann góður þýðandi? Ekki finnst öllum það.

Ég efast ekki um að þýðendurnir sem tilnefndir eru í ár séu yfirleitt allvel að tilnefningu komnir. Hins vegar veit ég að margar afburðaþýðingar eru ekki tilnefndar nú og það er engin ný bóla. Þegar góð þýðing er ekki tilnefnd en miðlungsþýðing á greiða leið inn á borð dómnefndar (sem hefði, að mínu mati, átt að hafna þessu hlutverki og vísa því til þýðenda almennt) eru ástæðurnar eflaust nokkrar. Kannski er þýðandinn ekki nógu fínn pappír. Kannski er höfundurinn ekki nógu fínn pappír. Kannski þekkja dómnefndarmennirnir ekki verkið. Kannski þekkja dómnefndarmennirnir ekki höfundinn.

Eflaust halda einhverjir að ég sé bara sár yfir því að þýðing mín skyldi ekki tilnefnd. Svo er ekki. Ég er hins vegar afar sár yfir því að þýðingin hafi aldrei átt möguleika á að vera tilnefnd. Og ég er alveg hundrað prósent viss um að ég er ekki eini þýðandinn sem er ósáttur við að hafa verið utan myndar frá upphafi.

Nýupptekið fyrirkomulag á tilnefningum er móðgun við þýðendur. Þeir hafa haft mikið fyrir því að vekja athygli á störfum sínum og list á síðustu árum en nú stefnir hraðbyri í að yfirstétt þýðenda komi sér svo makindalega fyrir að enginn eigi möguleika á frama í heimi þýðinganna nema með þeirra velþóknun.

Íslensku þýðingaverðlaunin eru að verða hálfgerður kjánaleikur fyrir snobbhænsn. Það þykir mér slæmt. Nóg er af slíku í heimi lista og menningar þó að þýðendur api það ekki eftir. Það hefur verið stolt okkar þýðenda að við höfum sjálfir tilnefnt verðlaunabækurnar. Við megum ekki við því að einhver sjálfskipuð elíta þykist þess umkomin að segja okkur hvað er gott og hvað ekki, ekki síst þegar forsendurnar eru vægast sagt hæpnar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband