Færsluflokkur: Bloggar

Nordvision?

Það lá nú barasta við að sá gamli (ég) yrði sannspár. Ég spáði Íslendingum sautjánda sæti í Evróvisjón og ætlaði að vera voðalega svartsýnn svo að ég yrði nú ekki fyrir vonbrigðum. En þetta var allt saman ágætt. Lagið reyndar svolítið gamaldags og kannski fullhýrt fyrir almúgann, en Friðrik Ómar og Regína Ósk (FrÓmÓsk?) gerðu þetta vel.

Ég kann alltaf heldur illa við þetta austantjaldsmafíutal - held bara að tónlistarhefðin þar sé ólík okkar og tískustraumar e.t.v. aðrir. Rússneska sigurlagið var óttalega slappt að mínu mati og gríska og armenska lagið líka, en greinilegt var að ýmsir þarna í útlöndunum voru ekki sammála mér. Norðmönnum gekk vel. Það er e.t.v. til vitnis um að góð, einföld lög geta alveg náð langt ef þau eru ekki ofhlaðin. Okkur Íslendingum hefur hætt til að gera einfalda hluti flókna í Evróvisjónlögum og ekki uppskorið í samræmi við sáninguna.

Voru ekki til samtök sjónvarpsstöðva á Norðuröndum sem hétu Nordvision eða eitthvað álíka? Væri ekki upplagt að segja skilið við Evróvisjón og halda söngvakeppni norrænna sjónvarpsstöðva? Bjóða Álendingum, Færeyingum og Grænlendingum að vera með - og Sömum? Mikið held ég að það gæti orðið gaman. 

Líka mætti hugsa sér samstarf Vestur-Evrópuþjóða á þessu sviði. Draga gamla járntjaldið fyrir á ný að þessu leyti. Útkoman gæti orðið forvitnileg.

 


Misskilið hlutverk

Í 24 stundum í dag gerir Páll Óskar enn og aftur mikið úr framlagi sínu til Evróvisjónkeppninnar árið 1997. Hann segir að hann hafi í raun ætlað að bjarga keppninni, en vinsældir hennar hafi verið farnar að dvína og áhorfið að minnka. Hvaðan hann hefur það veit ég ekki, en vel getur verið að satt sé. Hitt held ég að sé rangt að Páll Óskar hafi bjargað Evróvisjón. Ég held að Evróvisjón hafi ekki þurft á neinum björgunaraðgerðum að halda og hafi einhver haft varanleg áhrif á keppnina er það ekki Páll Óskar.

Páll segir að allt í kringum lagið hafi verið hannað til þess að munað yrði eftir því. Það tókst. Aðra eins útreið hefur Ísland aldrei fengið í Evróvisjón og er þó afrekaskrá okkar þar ekki merkileg.

Mér virðist sem Páll Óskar og ýmsir fleiri gleymi því hvers vegna lög lenda yfirleitt í neðsta sæti. Það er vegna þess að þau eru léleg. Lagið sem við sendum í keppnina árið 1997 var einfaldlega lélegt - svo lélegt að því var hafnað.

Sumir segja að Evrópa hafi ekki verið tilbúin fyrir Pál Óskar og atriði hans árið 1997. Það held ég að sé fjarstæða. Flestar Evrópuþjóðir, a.m.k. þær sem aldrei lentu handan járntjaldsins, eru ýmsu vanar og ég held að Páll hafi ekki gengið fram af neinum. Það sem gekk fram af evrópskum Evróvisjónaðdáendum þetta ár var lagið. Ekkert annað. Þess vegna fékk það engin atkvæði.

Ég held að þáttur Páls Óskars í því sem Evróvisjón er í dag sé akkúrat enginn.


Evróvisjónið

Ég frétti að einhverjir væru að bíða eftir því að ég tjáði mig um evrópsku söngvakeppnina sem nú fer fram í landi serbneskra. Það er mér heiður og ánægja að vera talinn til spekúlanta á þessu sviði þó að ekki sé ég neinn sérfræðingur. Kannski halda menn það bara af því að ég var dálítið iðinn við að dusta rykið af gömlum Evróvisjónlögum meðan ég sá um þáttinn Pipar og salt á Rás 1.

Ég var að horfa á Kastljós áðan og þá kom í ljós að við Andrea Jónsdóttir, gamall samstarfsmaður minn af Rás 2, erum sammála um portúgalska lagið. Ég kaus það og finnst það stinga skemmtilega í stúf við flest önnur lögin í keppninni. Söngvarinn er í sómasamlegum holdum, klæðir sig almennilega og syngur mjög vel. Auk þess er lagið ágætt, sem auðvitað vegur þyngst! Það minnir um margt á róleg, falleg lög sem eitt sinn voru áberandi í keppninni en eru nú sjaldgæf. Hvort Portúgalar vinna í ár er svo annað mál.

Ekkert botna ég í vinsældum sænska lagsins, sem mér finnst óspennandi. Danska lagið er ágætt en mér finnst ég hafa heyrt það þúsund sinnum áður. Það finnska finnst mér óttalega klént, svo að ég fái lánaða klisju frá öðrum gömlum samstarfsmanni mínum - það er ekki nóg að flytja eitthvað sem má kalla rokk, það þarf að vera eitthvað varið í lagið og flutninginn. Synir mínir voru hrifnir af laginu frá Búlgaríu og daprir yfir því að það skyldi ekki ná lengra - og ég er eiginlega sammála þeim. Það skyldi þó aldrei hafa verið kjólnum að kenna?

Eftirlætislögin mín úr Evróvisjón eru mörg. Ég er alltaf jafn hrifinn af "Neka mi ne svane", sem keppti fyrir Króatíu fyrir nokkrum árum, og "Eres tu" frá Spáni er sígilt. Svo fannst mér gaman að Birthe Kjær hinni dönsku skyldi ganga vel um árið með lagið "Vi maler byen röd" og ekki var Norðmaðurinn Ketill Stokkan verri þegar hann söng um Rúmeó, eins og hann sagði. Já, þau eru mörg, gullkornin í Evróvisjón.

En hvaða lag skyldi oftast sönglast um í hausnum á mér? Jú, haldið ykkur fast: "Flying The Flag", framlag Breta síðan í fyrra. Gúð í himlen.


Velkomin í Akureyrarkirkju

Beyoncé er velkomin í Akureyrarkirkju, það er ég viss um, og ég er líka sannfærður um að þar munu engir abbast upp á hana. Við Akureyringar erum alla jafna dagfarsprúðir menn og látum fræga fólkið oftast í friði, ef við á annað borð berum kennsl á það ...
mbl.is Of fræg til að fara í kirkju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flissað í dýi?

Æ fleiri tala nú um dýflissur með effi, þ.e. bera orðið fram dý-flissa. Í mínu ungdæmi lærði ég að þarna ætti að vera b-hljóð, eins og í Keflavík. Fyrirbærið héti sem sagt dýbb-lissa. Gaman væri að vita hvað er rétt í þessu efni.

Hitt veit ég að það er rangt að spá í einhverju, eins og margir gera nú orðið. Ætli þetta sé áhrifsbreyting frá orðasambandinu að velta fyrir sér? Ég er ekki mikið fyrir Megas, en hann hafði þó vit á að ráðleggja fólki að spá í sig, en ekki sér. Í alvöru talað, gætu menn hugsað sér þetta fína lag heita Spáðu í mér?

Vonandi spá menn ekki of mikið í þessu bulli mínu, en þeim er velkomið að spá í þetta bull mitt ef þeir nenna.

Í einhverri auglýsingu er líka talað um ást-ríðu. Mér var ungum kennt að þetta hétu á-stríður, en Ást-ríður væri á hinn bóginn kvenmannsnafn.

Og skelfing leiðist mér að heyra jafnvel ágætlega menntað fólk segja "Ég vill".

Lýkur nú hljóðum úr nöldurhorni Helga Más að sinni.


Nostalgígja - eins og maðurinn sagði

Ég er líklega enginn unglingur lengur. Ég stend mig a.m.k. að því hvað eftir annað að gefast upp á því sjónvarpsefni, sem í boði er, og skella í tækið einhverjum gömlum sjónvarpsþáttum sem ég hef dálæti á. Ef mig langar að horfa á gamanþætti verða Yes, Minister, Prúðuleikararnir eða Allo! Allo! gjarnan fyrir valinu. Ef ég er í skapi fyrir spennu horfi ég á Flóttamanninn (The Fugitive) með David Janssen, Dýrlinginn með Roger Moore, Mission Impossible með Martin Landau eða heldur nýrri þættir á borð við Inspector Morse og Prime Suspect.

Mig langar til að eignast Equalizer, sem er víst nýkominn út, og Jake & The Fatman. Þeir félagar (ekki má gleyma hundinum Max) voru oft ágætir. Svo bíð ég eftir að þættirnir Maverick verði gefnir út - ég man að ég horfði á þá í bernsku og hafði gaman af. Æ síðan hefur James Garner verið einn af eftirlætisleikurunum mínum.

Mér er þó ekki alls varnað. Ég er orðinn leiður á CSI og Law & Order, en hef ákaflega gaman af Dexter og svo eiga Aðþrengdar eiginkonur og Dirty Sexy Money góða spretti. Og á meðan ég get hlegið mig máttlausan að Hrútnum Hreini er ég sæmilega ungur í anda - held ég. Varla er komið að því í mínu tilfelli að tvisvar verði gamall maður barn - ég vona svo sannarlega ekki!


Stóra rotþróarmálið

Mér verður strax rórra við að lesa að stóra rotþróarmálið verði senn til lykta leitt. Þetta er án efa eitt af stærri, snúnari og svæsnari sakamálum síðari ára. Sannkallað skítamál.
mbl.is Rotþró stolið og sett niður í nágrenninu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Down á Signload?

Sign á Download. Þetta er dásamleg fyrirsögn - fullkomlega óskiljanleg flestum öðrum en þeim sem lifa og hrærast í þessum geira!
mbl.is Sign á Download
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vitur eftir á

Að mér skyldi ekki hafa dottið þetta í hug þegar gamla þvottavélin mín bilaði hérna um árið.
mbl.is Seldi undirfötin sín
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Upp, upp mín sál

njallidemAlltaf þykir mér gaman að því þegar frábærir listamenn, sem ef til vill hafa "afvegaleiðst" um skeið, snúa aftur og það með slíkum krafti að eftir er tekið. Ég hlakka til dæmis til að sjá Robert Downey Jr. í nýju myndinni, þó að ég sé ekkert tiltakanlega hrifinn af hasarmyndum í teiknimyndastíl. Downey hefur sannarlega fengið uppreisn æru, enda afbragðsleikari, og gott að hann skuli vera laus við Bakkus og leiguþý hans.

Á spilaranum hér á síðunni er splunkunýtt lag með gamla jöfrinum Neil Diamond. Fyrir einu eða tveimur árum gaf hann út plötuna 12 Songs, sem markaði nokkurs konar nýtt upphaf hjá þessum ágæta tónlistarmanni. Upptökustjórinn Rick Rubin sannfærði hann um að það væri farsælla fyrir hann að snúa aftur til upphafsins - einfaldleikans - í stað þess að halda áfram að semja miðlungslög, klædd í alltof miklar umbúðir. Þetta gerði Diamond, enda var einfaldleikinn það sem gerði hann frægan á sínum tíma - einfaldar laglínur, einfaldar útsetningar, auðskildir textar. Árangurinn lét ekki á sér standa og 12 Songs er að flestra mati í hópi allra bestu verka Diamonds.

Nú er að koma út ný plata, gott ef útgáfudagurinn er ekki bara 6. maí. Ég hef ekkert heyrt af henni nema þetta eina lag, "Pretty Amazing Grace", og það lofar sannarlega góðu. Vona að Diamond haldi sig við einfaldleikann. "Hafðu það einfalt" er gott ráð sem sjaldan bregst.

Neil Diamond er nýbúinn að vera "mentor" í American Idol. Gott ef sá þáttur er ekki bara sýndur í kvöld? Ég er ekki með Stöð 2 svo að ég fylgist ekki svo grannt með Idolinu, en sá þó þáttinn með Dolly Parton um daginn og hafði gaman af.

Á spilaranum er líka nýr singull frá Deborah Harry af plötunni hennar, Necessary Evil. Ágætislag. Gaman þegar svona reyndir jaxlar eins og Debbie og Neil eru að gera góða hluti. Oft er það nefnilega gott sem gamlir kveða ... eða þannig.

Hvorki Neil Diamond né Deborah Harry fá þó líklega inni í nýjum vikulegum útvarpsþætti sem ég verð með á Rás 1 í sumar. Þar verður á ferðinni svona alls kyns "easy-listening"-tónlist í bland við djass, blús og létt popp og fyrsti þátturinn verður líklega helgaður þeim Dinah Washington og Brook Benton. Hlakka til að fást við þetta og vona að einhverjir nenni að hlusta!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband