Færsluflokkur: Bloggar

Lán í óláni

Ja, hérna. Hann er samt heppinn, karlinn, að hin breiðu spjótin skuli ekki tíðkast þarna austur frá. Þá væri hann trúlega í harla vondum málum.
mbl.is Vaknaði með hníf í bakinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Félög sem aldrei urðu til

Hér eru nokkur félög sem mig hefur langað til að stofna á lífsleiðinni - en það er með þau eins og svo margt annað að sitt er hvað, hugmynd og framkvæmd.

Hið íslenska einstæðingafélag

Frömuðafélag Íslands

Félag íslenskra flautaþyrla

Bandalag sómamanna

Ofurhetjufélag Norðurlands

Bandalag sakamanna

Hið íslenska lúðulakafélag

Samtök sykursætra

Auðnuleysingjafélagið

Félag áhugamanna um hafnarframkvæmdir í Hrunamannahreppi

Félag örþreyttra feðra

Hollvinasamtök hugumstórra

Samtök áhugamanna um bættan básúnuleik í Fílharmoníuhljómsveit Vínarborgar

og svo mætti lengi telja.

Var líka á sínum tíma næstum búinn að stofna þetta félag:

Áhangendafélag ríkisstjórnarinnar í Menntaskólanum á Akureyri og næsta nágrenni (skammstafað ÁrMAnn).

 


Af forsetum á Hofsósi og framandi gestum í Þistilfirði

Ekki veit ég af hverju, en þessi fyrirsögn minnti mig einhvern veginn á fyrirsögnina frægu í Degi forðum (einhvern tíma á áttunda áratugnum): "Negri í Þistilfirði".

Líklega er það vegna þess að fyrirsögnin "Forsetinn tók skóflustungu á Hofsósi" er svo skemmtilega margræð. Er þetta merkilegur atburður vegna þess að það var forsetinn, sem vann verkið, eða af því að það hefur ekki gerst í trilljón ár að skóflustunga hafi verið tekin í umræddu sveitarfélagi? Eða telst það til tíðinda að forsetinn hafi tekið skóflustungu, en ekki eitthvað annað, á Hofsósi?

Negrinn í Þistilfirði reyndist vera svartur vinnumaður, ef ég man rétt, og alls engin aðsteðjandi vá, eins og margir gárungar ályktuðu að gamni sínu. Negri var heldur ekki eins neikvætt orð á áttunda áratugnum og það er nú. Ég efast um að ritstjórinn, Erlingur Davíðsson (sem sumir héldu að bæri ættarnafnið Skráði vegna þess hvað hann var duglegur að skrá æviminningar manna og kvenna), hefði notað þetta orð ef honum fyndist á því neikvæður blær.

Og þá er spurningin, allt eftir því hvaða skilning menn leggja í fyrirsögnina um forsetann:

Hver skyldi taka næstu skóflustungu á Hofsósi?

Hvað skyldi forsetinn gera næst á Hofsósi?

Hvar skyldi forsetinn taka skóflustungu næst?


mbl.is Forsetinn tók skóflustungu á Hofsósi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sprengingar og leifturhiti

Það gengur greinilega mikið á við framleiðslu á kaffirjóma.

Hann er bæði leifturhitaður og fitusprengdur. Það stendur á umbúðunum og varla ljúga þær.

Vissi ekki að verkun kaffirjóma útheimti slík endemis læti. Ekki bara ofurhita heldur líka sprengingar.

Ég þoli voðalega illa hita. Man enn eftir sumrinu þegar ég vann við framleiðslu á júgursmyrsli í Sjöfn sálugu í Gilinu. Það var óbærilegt svitabað stundum. Sprengingar þoli ég enn verr, enda friðelskandi maður.

Mikið er ég feginn að vinna ekki í kaffirjómaframleiðsludeildinni hjá Mjólkurbúi Flóamanna.


Eru blaðurmennin lýðskrumarar?

Blaðurmenni ýmiss konar hafa lengi vaðið uppi á síðum dagblaðanna á Íslandi. Sum hafa verið nafnlaus, t.d. Staksteinar, Svarthöfði og Dagfari, en önnur skrifa undir nafni. Dálkarnir hafa heitið ýmislegt, s.s. Bakþankar, Kjallarinn, Í dag, o.s.frv. Sú var tíðin að mér fannst oft gaman að lesa klausur þessara blaðurmenna - ég hef enn ekki fundið neitt skárra orð yfir þau - og hlusta á þau í sjónvarpi og útvarpi þegar þau hafa verið kölluð til svonefndar álitsgjafar í þessum miðlum, en sú tíð er liðin. Ég uppgötvaði nefnilega að blaðurmennin voru ótrúlega oft sammála hinum neikvæðu röddum í þjóðfélaginu - röddum sem dæma hart og snarlega og hafa lítið fyrir því að kynna sér málin, enda gæti þá komið í ljós allt önnur niðurstaða.

Eru blaðurmennin lýðskrumarar? Ég held það. Þau þjást af Dabbahatri, ríkisstjórnaróþoli, kirkjuofnæmi og ýmsum fleiri sjúkdómum sem ýmsir háværir gasprarar hafa lengi neitað að leita sér lækninga við. Þau eru til dæmis sammála um að slysin á Reykjanesbraut séu samgönguráðherra að kenna, að ímynduð óáran í íslensku efnahagslífi (hvar er sú óáran annars staðar en meðal spekúlanta?) sé Seðlabankastjóra og forsætisráðherra að kenna (og Hannesi Hólmsteini, sem hefur það til saka unnið - ásamt svo mörgu öðru - að sitja í bankaráði), að ástæðan fyrir breytingunum sem dómsmálaráðherra vill gera á Keflavíkurflugvelli sé persónuleg óvild hans í garð sýslumanns, jafnvel þótt ráðherrann hafi vandlega útskýrt hvert hann telji meinið vera þar um slóðir ... og svo framvegis. Aðeins Umferðarstofa þorir að nefna að hugsanlega geti ógætilegur akstur ökumanna verið orsök einhverra slysa! Og nú fá ráðamenn á baukinn hjá lýðskrumurunum fyrir að ætla að mæta við opnunarhátíð Ólympíuleikanna í Kína. Væri það nú ekki meiri hræsnin ef við settum upp á okkur stýri og neituðum að fara þangað? Enn meiri hræsni en að bjóða trukkabílstjórum í nefið fyrir að brjóta lög en handtaka Falun Gong-menn fyrir að vera til?

Lýðskrumararnir í fjölmiðlunum tóku margir hverjir undir mótmælaaðgerðir trukkabílstjóra - og jeppakarla - þangað til þeir fundu að samúðin með þeim var að hverfa. Þá snerist dæmið við, enda eru blaðurmennin jafnan sammála þeirri rödd þjóðarinnar sem hæst hefur, þótt fáir reynist ef til vill vera í þeim kór við nánari athugun. Þau benda sjaldnast á mein heldur velta sér upp úr þeim, raunverulegum og ímynduðum, þangað til þau skynja að fólk hefur ekki áhuga á þeim lengur. Stundum bregst þó lýðskrumurunum bogalistin. Einn þeirra hefur til dæmis enn ekki uppgötvað (eða neitar að viðurkenna) að enginn nema hann hefur áhuga á Davíð Oddssyni lengur.

Kannski þjáist ég af blaðurmennaóþoli? Það skyldi þó aldrei vera. Hver skyldi fást við að meðhöndla slíkt?


Mislukkuð viðtalstækni

Ég var að horfa/hlusta á viðtal Sigmars við Kristján Möller á RÚV áðan en skipti um rás áður en viðtalinu var lokið. Var orðinn svo gáttaður á framkomu spyrilsins gagnvart ráðherranum að ég afbar ekki að horfa á ósköpin. Kristján sýndi aðdáunarverða kurteisi og rósemi þótt hann fengi varla að ljúka einni einustu setningu fyrir framígripum Sigmars, sem virtist halda að hann væri staddur í hraðaspurningunum í Gettu betur.

Fyrir bragðið fór þetta viðtal fyrir ofan garð og neðan. Samgönguráðherra fékk nær aldrei að ljúka máli sínu og gafst ekki tækifæri til að segja margt. Maður er svo sem vanur alls kyns framíköllum frá ódönnuðum þingmönnum í sjónvarps- (og þing-) sal, en svona viðtalstækni spyrils skilar engum árangri. Hún gerir fátt annað en pirra áhorfandann og draga úr Kastljóssáhorfi hans.

Aðgangsharka er stundum nauðsynleg, en mannasiðirnir þurfa að fá að fljóta með til að slík harka skili einhverjum árangri.


Hvaða hvalveiðar?

Erum við Íslendingar að veiða hvali þessa dagana? Það hefur bara alveg farið fram hjá mér ...
mbl.is Svíar gagnrýna hvalveiðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er vor

Það var ekkert vor að sjá í veðurkortunum hjá henni Kristínu í Sjónvarpinu áðan. Áfram kalt hér nyrðra og snjórinn ekkert á förum.

Á þessum árstíma langar mig alltaf að búa í útlöndum. Í einhverju góðu landi þar sem vorið kemur á vorin, en ekki um mitt sumar.

Vona bara að þetta tákni að vorið komi hægt og jafnt. Að við sleppum við árans maíhretin sem hafa verið fastur liður á undanförnum árum. Ég hef nefnilega engan smekk fyrir vorhretum.

Raunar hefur veðrið verið ákaflega fallegt undanfarna daga og vikur. Bjart og stillt. Það vantar bara fáeinar gráður til að geta kallast vorblíða.

Þetta minnir mig á konuna sem sagði frá því í útvarpinu fyrir nokkrum árum að hún hefði verið orðin stálpuð þegar hún uppgötvaði að faðirvorið nefndist faðirvorið en ekki þaðervorið. Alla sína bernsku hafði hún haldið að bænin góða byrjaði á orðunum "Það er vor".

Já, það er vor. Skítt með kuldann og snjóinn. Almanakið segir að það sé vor og þá skal vera vor. Og hananú.


Stjarna fallin frá

Ben Húr, Mikkelangeló og Móses ... ekki amalegt að hafa slík hlutverk á ferilskránni sinni! Charlton Heston var umdeildur maður á síðari árum, en þau mál snertu ekki leiklist. Ekki fannst öllum hann góður leikari, en hann var stjarna engu að síður. Maðurinn þurfti ekki annað en birtast á hvíta tjaldinu, þá átti hann myndina.

Það er sjónarsviptir að þessum svipmikla stórleikara, sem var af gamla skólanum og skammaðist sín ekkert fyrir það.

 


mbl.is Charlton Heston látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Neyðarástand!

Ef marka má lesendadálka Morgunblaðsins á morgun, sunnudag, er það ekki dýrtíðin sem er helsta ógnin við landsmenn um þessar mundir. Nei, hvorki eldsneytisverðið, verðtryggingin, vextirnir né íslenska krónan - ekki einu sinni fall hlutabréfanna. Það sem veldur Íslendingum mestum áhyggjum þessa dagana - og heilagri bræði, raunar - eru breytingarnar sem gerðar hafa verið á einum ástælasta þjóðarréttinum okkar, mjólkurkexinu.

Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins eru hvorki fleiri né færri en þrjú lesendabréf um þetta efni og er álit manna nokkurn veginn þetta: Mjólkurkexið frá Frón er miklu verra en það var áður og það er óhæfa. Nær bara ekki nokkurri átt.

Einn lesandi kvartar undan grófleika og hefur líklega snætt grófa mjólkurkexið án þess að gera sér grein fyrir því. Eða speltútgáfuna. Hinir eru bara fúlir yfir því að nokkur maður skuli voga sér að hrófla við uppskriftinni að þessu ljúfmeti.

Frón auglýsti vandlega á kexumbúðum sínum um daginn að þar á bæ væru menn hættir að brúka herta fitu (transfitu). Vitleysingurinn ég, sem þó þykir mjólkurkex ágætt ef ekkert annað er til í kotinu, varð guðslifandi feginn og hafi bragðið breyst eitthvað við fituskiptin var ég sannarlega fús til að fyrirgefa þeim það. Allt fyrir hollustuna. Hélt að fleiri Íslendingar yrðu því fegnir að ófögnuðurinn hefði verið fjarlægður úr kexinu.

Boy, was I wrong.

Ég gleymdi því að mjólkurkex er eitt af því allra heilagasta sem íslenska þjóðin á. Mjólkurkexi á ekki að breyta. Vextir mega fara upp og krónan niður, enda hefur það alltaf verið svoleiðis. En í mjólkurkexi hafa aldrei tíðkast neinar sveiflur. Verði hróflað við því hefur krosstré brugðist og við því megum við ekki. Auk þess er það fullkomlega ólíðandi.

Lifi kransæðakíttið.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband