Færsluflokkur: Bloggar
2.4.2008 | 21:43
Undarlegar mótmælaaðgerðir
Ég verð að játa að ég er orðinn þreyttur á hávaðanum og umferðartöfunum sem sumir bílstjórar hérna fyrir norðan hafa valdið að undanförnu. Í fyrstu þóttu mér mótmælin skiljanleg en sú afstaða mín hefur smám saman verið að breytast.
Í fyrsta lagi finnst mér rangt að lögbrot skuli liðin.
Í öðru lagi finnst mér fáránlegt að sportjeppakarlar og tómstundaökumenn séu að ybba sig á þennan hátt. Ég skil sjónarmið atvinnubílstjóra miklu betur, en hafi jeppakarlar efni á breyttu jeppunum sínum hafa þeir líka efni á að borga á þá eldsneytið, jafnvel þótt verðið rjúki upp úr öllu valdi.
Í þriðja lagi bitna þessar ólöglegu aðgerðir á saklausu fólki. Margir eru býsna háðir strætisvögnum, (börn, aldraðir, öryrkjar og fatlaðir, svo nokkrir hópar séu nefndir) en áætlun vagnanna fór öll úr skorðum í dag. Á göngu minni (sem farin var af því að strætó kom aldrei) eftir fáfarinni götu mætti ég sjúkrabíl. Fór hann krókaleiðir vegna þess að hann komst ekki eftir aðalgötum bæjarins? Lest gríðarstórra flutningabíla, sem aka hver aftan í annars rassi, á svo sem ekki hægt með að hliðra til.
Hvað ef skelfilegur eldsvoði yrði, eða hroðalegt slys? Hver ber ábyrgðina ef slökkvi-, lögreglu- og sjúkrabílar tefjast vegna þess að götur eru stíflaðar og ekki heyrist í sírenum fyrir bílflautum?
Og hvernig hafa bílstjórarnir eiginlega efni á að mótmæla með þessari aðferð - að eyða eldsneyti - ef eldsneytið er orðið svona dýrt?
Er þetta ekki svipað og ef ég mótmælti háu matarverði með því að kaupa ósköpin öll af mat á hverjum degi?
Ég ætla miklu frekar að mótmæla háu eldsneytisverði með því að taka ennþá oftar strætó en ég geri og ganga þegar ég get. Þá kaupi ég minna bensín og ríkið fær minna úr vasa mínum. Heilsan batnar og samviskan dafnar!
![]() |
Mótmælaaðgerðir á Akureyri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
1.4.2008 | 20:18
Bönnum aprílgabb!
Akureyri.net sagði frá því að fimm þingmenn úr öllum flokkum hefðu lagt fram frumvarp um bann við hvers kyns aprílgabbi, þar sem saklaust fólk yrði of oft fyrir alvarlegum óþægindum vegna þess.
Þingmennirnir, sem nefndir voru, eru ekki til, né heldur kjördæmi þeirra. Og ekkert slíkt frumvarp er á döfinni að því er ritstjóri www.akureyri.net best veit.
![]() |
Varstu gabbaður í dag? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
31.3.2008 | 08:35
Gúdd God
![]() |
Madonna endurgerir Casablanca |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.3.2008 | 08:48
Caddyshack
![]() |
Stríð við jarðíkorna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.3.2008 | 17:06
Fló
Í gærkvöldi sáum við hjónakornin loksins Fló á skinni í Samkomuhúsinu á Akureyri. Við gátum ekki notað frumsýningarmiðana okkar á sínum tíma og svo var bara uppselt og uppselt ... en það var alveg þess virði að bíða. Raunar varð ég fyrir ofurlitlum vonbrigðum, sennilega af því að svo margir höfðu dásamað sýninguna og ekki átt nógu sterk orð til að lýsa henni. Þetta er hvorki besti farsi sem ég hef séð né skemmtilegasta sýningin. En ég skemmti mér engu að síður konunglega.
Það var gaman að sjá Aðalstein Bergdal aftur á fjölum Samkomuhússins og sömuleiðis þau Margréti Helgu Jóhannsdóttur og Randver frænda minn Þorláksson. Þetta eru frábærlega færir leikarar. Hin eru það auðvitað líka, en það er eins og fyrirhöfnin hjá hinum reyndu leikurum sé engin. Í því liggur m.a. snilld þeirra.
Þó að ég hafi sagt hér að ofan að sýningin hafi valdið mér eilitlum vonbrigðum - svona eins og Óskarsverðlaunamyndir sem almenningur og gagnrýnendur hafa lofsungið svo mjög að maður á helst von á kraftaverki - er hún sannarlega kvöldstundarinnar virði.
19.3.2008 | 08:43
Jamm
![]() |
Páll Óskar og Björk söngvarar ársins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.3.2008 | 18:47
Ég er athafnamaður
Jón Ólafsson, fyrrverandi hljómplötuútgefandi og kaupmaður, er jafnan titlaður "athafnamaður" í fréttum nú orðið. Sennilega vegna þess að hann vasast í svo mörgu án þess að nokkur kjaftur viti í rauninni hvað hann er að brasa svona dagligdags.
Mér finnst soldið óréttlátt að Jón og fleiri útvaldir menn fái einhvers konar einkarétt á þessum fína titli. Sjálfur er ég til dæmis mikill athafnamaður. Ég stunda ýmsar athafnir, borða, sef, vinn, teygi úr mér, les, horfi á sjónvarp, syndi, geng, eltist við börnin mín, fer á snyrtinguna og svo mætti lengi telja.
Skyldu þeir hjá Símaskránni samþykkja að ég titli mig athafnamann? Best að ég láti á það reyna við tækifæri. Mér hefur raunar líka dottið í hug að ég myndi bera titilinn "frömuður" með miklum sóma, enda er orðið gjarnan notað um fólk sem fær einhverjar flugur í höfuðið, framkvæmir þær og dregur aðra með sér. Þetta hef ég oft gert. Flugurnar mínar hafa ekki alltaf verið gáfulegar og þeir sem dregnir hafa verið hafa ekki ævinlega dregist með sjálfviljugir, en það er önnur saga ...
13.3.2008 | 21:59
Konur beri eyrnalokka
Í einhverju blaðanna í dag sá ég klausu þar sem dómstjóri nokkur kvartar undan því að karlkyns lögmenn séu, sumir hverjir, hættir að bera hálstau.
Þetta er ljóta vitleysan. Ég hef aldrei skilið af hverju "snyrtilegur klæðnaður" karlmanna felur í sér að þeir þurfi að lufsast um með hálstau. Þau þjóna engum tilgangi og eru vita gagnslaus, hvernig sem á málið er litið. Helst að bindin komi að notum við að hræra í súpunni þegar þjónninn gleymir að færa manni skeið eða þegar mann langar til að kyrkja eitthvert karlkyns merkikertið.
Fræg urðu lætin á Alþingi þegar Hlynur Hallsson þrjóskaðist við að bera bindi. Það var engu líkara en piltur hefði neitað að vera í buxum eða viljað trítla um þingsali í gúmmístígvélum einum fata.
Dómstjórinn segir að konur í lögmannastétt séu miklu duglegri við að klæða sig "snyrtilega". En hver er þá snyrtilegur klæðnaður kvenna? Kjóll? Nei, sumar eru í dragt. Hattur? Varla.
Hér með legg ég til að konur í lögmannastétt og á Alþingi verði skyldaðar til að bera eyrnalokka. Þeir eru ámóta tilgangslausir og bindin og oft álíka ósmekklegir. Verði konur neyddar til að bera eyrnaglingur tel ég að viðunandi jafnrétti sé náð í bili, a.m.k. þangað til einhver hefur þor til að afnema bindi(s)skyldu karlmanna á "fínum" vettvangi.
13.3.2008 | 20:38
Salt og/eða sandur
Stundum er eins og Akureyringar séu fastir í gamla tímanum, líklega á sjöunda eða áttunda áratugnum þegar SÍS og KEA réðu ríkjum í bænum og templarar voru stórtækir bíó- og hótelrekendur.
Umræðan um hálkuvarnir í bænum er eldgömul og hefur lítið breyst í áranna rás. "Salt" er þvílíkt hryllingsorð í eyrum sumra bæjarbúa - og brottfluttra líka, því að þeir láta stundum hærra en heimamenn - að halda mætti að um kjarnorkuúrgang væri að ræða. Menn gleyma því stundum að sandur fýkur og stíflar niðurföll. Og salt skemmir ekki skó eða bíla ef vel er um hvort tveggja hugsað. Fáir kunna reyndar betur að hugsa um bílana sína en Akureyringar.
Í Mogganum í dag er klausa eftir framhaldsskólakennara á Akureyri þar sem hann telur að betri sandur og bætt götuhreinsun yrðu mjög til bóta. Ég er hjartanlega sammála. Hins vegar er ég ósammála honum um að sandaustur án salts yrði hér eftir, sem hingað til, einhvers konar allra meina bót.
Akureyri hefur stækkað mjög á síðustu árum. Þungaflutningar til bæjarins og um bæinn hafa aukist óskaplega. Gríðarstórir vörubílar, hlaðnir grjóti, möl eða sandi, eru á ferðinni um allan bæ. Þegar sjóflutningar lögðust af jukust landflutningar að sama skapi og þeir bílar eru heldur engin smásmíði. Halda menn að þetta hafi ekkert að segja þegar svifrykið er annars vegar? Eigandi dekkjaverkstæðis hér í bæ heldur því fram að malbikið sé lélegra nú en áður fyrr og það sé ein orsök svifryksins. Ég hallast að því að hann hafi talsvert til síns máls.
Það er ekki sandurinn, sem veldur svifrykinu, heldur ökutækin. Og til að draga úr mengun af völdum ökutækja er langbesta leiðin sú að nota strætisvagna, hjóla eða ganga. Þannig getur almenningur lagt sitt af mörkum. Það þýðir lítið að tuða yfir svifrykinu og halda bara áfram að fara allra sinna ferða á bíl. Enn eru vegalengdir á Akureyri ekki svo óyfirstíganlegar að þær afsaki hömlulausa bílanotkun bæjarbúa. Meira að segja ógnarhátt og síhækkandi eldsneytisverð virðist ekki megna að koma í veg fyrir að Akureyringar fari milli húsa á bíl, hér eftir sem hingað til. Og svo í ræktina í dagslok - auðvitað á bílnum!
En til að strætó komist leiðar sinnar þurfa leiðir að vera greiðar. Og sandurinn nægir bara ekki lengur til þess. Því miður. Ég held að það nægi ekki að fá fína kústa til að sópa göturnar. Það þarf hugarfarsbreytingu. Og þangað til hún á sér stað sé ég ekki annan kost en að halda áfram að setja salt í sandinn en fara eins sparlega með hvort tveggja og kostur er.
Það er ekki sanngjarnt að gera lítið úr viðleitni Akureyrarbæjar til að minnka svifryk, hvað þá að kalla hana hlægilega. Akureyarbær steig stórt skref í rétta átt þegar hann fór að bjóða upp á ókeypis strætisvagnaferðir. En til þess að það skref skili sér þurfa Akureyringar að nota strætisvagnana. Líka framhaldsskólakennarar.
11.3.2008 | 11:41
Lagt við hlustir í heimsborginni
Alltaf finnst mér gaman að heimsækja ríki Engla og Saxa, ekki síst sjálfa höfuðborg breska heimsveldisins. Þar var ég um helgina á ráðstefnu um norrænar þýðingar, sem var að mörgu leyti ágæt. Ekki áttum við Íslendingar marga fulltrúa þar en þó leit Sigurjón Sigurðsson inn og einnig var stuttlega fjallað um viðhorf Halldórs Laxness til þýðinga á verkum sínum og um vandamál við þýðingu dróttkvæða. Skemmtilegust var umfjöllun reynds og virts ensks þýðanda, Geoffrey Samuelsson-Brown, um það sem þýðendur eiga að gera og það sem þeir mega ekki gera. Viðhorf bókaútgefenda til norrænna bókmennta var líka mjög forvitnilegt, sem og fyrirlestur um misjafnlega vel heppnaðar þýðingar á verkum Ibsens.
Á föstudagskvöldið leit ég inn á Borderline í Sóhó, einn minnsta hljómleikasal sem ég hef heimsótt, og hlustaði á Matt Schofield Trio spila stórkostlega blöndu af djassi, blús, fönki og rokki. Schofield er ungur að árum en hefur þegar getið sér orð sem einn af mögnuðustu gítarleikurum samtímans og félagar hans eru ekki af verri endanum heldur. Trymbillinn bráðsnjall og orgelleikarinn, Jonny Henderson, lék sér að því að spila bassann með vinstri og taka sóló með hægri. Sannarlega eftirminnileg kvöldstund og ég á áreiðanlega eftir að fylgjast með Schofield og félögum í framtíðinni.
Á sunnudagskvöldið fór ég í London Palladium-leikhúsið, sem er stórt, gamalt og gullfallegt, og hlustaði á írsku þjóðlagapoppsveitina Clannad. Ég hef aldrei gefið henni mikinn gaum en var þó á sínum tíma mjög hrifinn af laginu "Closer To Your Heart". Clannad brást ekki vonum mínum og flutti lagið undir lokin. Brian Kennedy söng með þeim lagið "In A Lifetime" og gerði það afar vel.
Tónleikarnir voru miklu betri og skemmtilegri en ég átti von á, því að sannast sagna var ég ofurlítið efins um að tónlistin væri að mínu skapi og e.t.v. fullróleg fyrir minn smekk. Þetta reyndust að sjálfsögðu fordómar af verstu sort. Fjórmenningunum til fulltingis var fjöldi snjallra hljóðfæraleikara og söngvara og tónleikarnir voru tvímælalaust í hópi þeirra betri sem ég hef sótt um dagana. Ég held að engin hljómsveit blandi jafn snilldarlega saman keltneskri þjóðlagahefð og engilsaxnesku léttrokki. Húrra fyrir Clannad.
Á heimleiðinni varð ég fyrir nokkrum töfum vegna slæms veðurs (sem á Íslandi teldist vart meira en skítaveður í meðallagi), en komst þó á Stansted vel fyrir brottfarartíma. Ekki voru allir svo heppnir og af tali manna heyrði ég að sumir höfðu lent í verulegum ævintýrum á leiðinni á flugvöllinn. Þakklátur varð ég að hafa ekki lent í þeim hópi.
Er þegar farinn að hlakka til næstu ferðar, hvenær sem hún verður.