Færsluflokkur: Bloggar

Vantar eldgos?

Ég er farinn að halda að við þurfum á einu mergjuðu eldgosi að halda, eða öðrum hressilegum náttúruhamförum, til að við almúginn getum loksins fengið frið fyrir stanslausum ekkifréttum af Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni.

Ætlar þessari gúrkutíð aldrei að ljúka?

 

 


Rjóður af skömm

Það hlaut að koma að því að blessaðir Pólverjarnir fengju að finna fyrir drambinu og fávísinni í undirmálslýðnum sem hér hefur hokrað í ellefu hundruð ár og þykist nú allt í einu vera eitthvað, bara af því að hann getur sveiflað kreditkortum og búið til heimasíður.

Fyrir kemur að ég skammast mín fyrir að vera Íslendingur, en aldrei fyrirverð ég mig eins mikið og þegar ég les fréttir af fordómum sumra okkar í garð annarra þjóða - sem eru vitaskuld byggðir á vanþekkingu, kjánaskap og minnimáttarkennd.

Pólverjar eru stolt þjóð með merka sögu og menningu. Hið sama á við um fjölmargar aðrar þjóðir - sjálfsagt allar, ef út í það er farið. Sýnum þeim, sem hingað koma, virðingu og gleðjumst yfir því að þeir vilja lifa hér og starfa með okkur.


Sjálfbjarga forseti

Rakst á svohljóðandi klausu á ruv.is undir fyrirsögninni Forseti skotinn:

„Jose Ramos Horta, forseti Austur Tímor verður fluttur á sjúkrahús í Darwin í Ástralíu í dag til þess að gera að skotsárum sem hann hlaut þegar hópur uppreisnarmanna gerði skotárás á bústað forsetans í höfuðborginni Dili í morgun.“

Ég get ekki skilið þetta öðruvísi en svo að forsetinn eigi sjálfur að gera að sárum sínum.

Skyldu heilbrigðisráðherra og ríkisspítalar vita af þessari sparnaðarleið?


Veður

Það var dálítil upplifun að vera með fjölskyldunni í Reykjavík í nokkra daga í vikunni. Á miðvikudag var mikið blíðskaparveður, á fimmtudag hafði snjóað og gekk á með éljum, á föstudag brast á brjálað vatnsveður með roki og á laugardag tók hann upp éljaganginn að nýju. Ekta íslenskt vetrarveður - eintóm sýnishorn.

Vatnsveður eins og þetta upplifum við sjaldan á Akureyri, hvað þá eldingar og annað slíkt fínerí sem féll vel í kramið hjá börnunum. Sunnanáttin hér er yfirleitt þurr þó að hún geti svo sannarlega verið hvöss og hviðótt. Það er hins vegar varla hægt að segja að komið hafi almennilegt norðanbál hér í mörg ár, vindurinn virðist ekki lengur drífa inn allan fjörðinn.

Veðrið er magnað fyrirbæri - ekki síst fyrir þær sakir að vera eitt af því fáa sem mannskepnunni hefur ekki tekist að koma böndum á (sem betur fer). Áhrif mannskepnunnar á veðráttu og veðurfar eru hins vegar áreiðanlega einhver.


Góðar Hetjur

Mikið er ánægjulegt hvað sýningin Hetjur fær góða dóma. Ég var svo lánsamur að sjá Hetjurnar á sviði í Lundúnum fyrir tveimur eða þremur árum. Í aðalhlutverkum voru John Hurt og Richard Griffiths en þriðji aðalleikarinn, Ken Stott ("Rebus") var veikur og ekki man ég hvað leikarinn hét sem fyllti skarð hans. Það var ógleymanlegt að sitja á fjórða bekk í leikhúsi og hafa meistara á borð við Hurt og Griffiths svo að segja í seilingarfjarlægð. Stórleikarar - Griffiths reyndar í fleiri en einum skilningi!

Ég er viss um að Sigurður Skúlason, Theodór Júlíusson og Guðmundur Ólafsson eru ekki síðri. Og verkið svíkur sannarlega engan. Ljúft og létt leikrit sem kemur manni í gott skap.

 


Hábölvuð kvöld

Sunnudagskvöld eru að verða bagalega góð sjónvarpskvöld. Ríkissjónvarpið sýnir frábæra danska þáttaröð, Glæpinn, og í gærkvöldi sýndi það svo eina af mínum eftirlætismyndum, Bagdad Café. Óborganleg. Marianne Sägebrecht, Jack Palance og CCH Pounder öll hreint dásamleg í hlutverkum sínum og hugmyndin (að planta Bæjarafrú í tilheyrandi klæðnaði niður í bandarískri eyðimörk) geggjuð. Tók myndina upp og ætla að horfa á hana (enn á ný) við fyrsta tækifæri.

Svo kom hann Dexter, vinur minn. Með betri þáttum bandarískum sem hér hafa sést upp á síðkastið. Ég fæ samt alltaf samviskubit yfir að halda með helsjúkum fjöldamorðingja - bót í máli að illþýðið sem hann myrðir er mannsorp eins og það gerist verst. Það er líka bót í máli að allt er þetta í plati ...

Miðvikudagskvöld eru að verða erfið líka. Ég hef lúmskt gaman af hinni ófríðu Bettý, einkum stórkostlegum aukapersónunum. Judith Light stelur senunni í hvert skipti sem hún birtist og er enn betri en í Who's The Boss? forðum. Strax á eftir kemur svo einn kostulegasti karakter sem ég hef séð lengi, Doc Martin. Martin Clunes er yndislegur í hlutverkinu og þar er einnig gnægð aukapersóna.

Ég get alltaf hallað mér að DR, BBC og fleiri góðum stöðvum þegar illa árar á Sjónvarpinu og Skjá einum, en með þessu áframhaldi verður áhorfið á erlendu stöðvarnar lítið þegar fram í sækir. Og hreyfigetan engin á kvöldin!


Til þess gerðir menn

Mikið fannst mér eigandi Barsins í Reykjavík komast skemmtilega að orði í viðtali við fréttamann Sjónvarpsins í kvöld. Hann sagði að sér hefði verið hótað af Vinnueftirlitinu "og fleiri til þess gerðum mönnum".

Ég efast um að nokkrir menn séu sérstaklega gerðir til þess að hafa eftirlit með vinnu annarra eða sinna ámóta verkum ... en samt á ég ekki í nokkrum vandræðum með að sjá og skynja manngerðina. Ég held, svei mér þá, að ég kannist við fáeina "til þess gerða menn"!


Forsetinn í fjölmiðlakaupum?

Ég hrökk í kút þegar ég sá svohljóðandi fyrirsögn í Morgunblaðinu í dag við mynd af Ólafi Ragnari Grímssyni:

Forsetinn á Al Jazeera

Ja, hérna. Nýtt og krassandi hneykslismál í uppsiglingu? Ólafur Ragnar, fjölmiðlafrumvarpsóvinur númer eitt, farinn að sölsa undir sig heilu alheimssjónvarpsstöðvarnar á laun?

Svo las ég klausuna og komst að hinu sanna.

Ólafur Ragnar hafði birst á sjónvarpsrásinni en ekki fest kaup á henni.

Mér var nokkuð létt, ég neita því ekki ...


Sætir, langir sumardagar í vændum?

Jæja, nú sjá mínir menn vonandi loksins fram á betri tíð með blóm í haga.
mbl.is Mikil ánægja hjá Derby með nýja eigendur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mengun/sóun

Ekki veit ég hvað ég gekk framhjá mörgum mannlausum, kyrrstæðum bílum í morgun sem höfðu verið ræstir og stóðu svo bara þarna í gangi og sóuðu eldsneyti.

Enginn þeirra var gamall dísilbíll.

Ég skil ekki hvað fólki gengur til. Lítið var um hrím á rúðum í morgun svo að varla er það ástæðan. Ungbörn þola ágætlega kulda, séu þau sæmilega klædd, svo að ekki er það haldbær ástæða heldur. Það er heldur alls ekkert sérstaklega kalt úti núna. Raunar veit ég að það stendur yfir eilíf barátta á sumum leikskólum að fá fólk til að drepa á bílunum meðan það stekkur inn með barnið eða sækir það.

Hvað er að?

Gerir fólk sér ekki grein fyrir hvað það er að gera?

Hvað þarf að koma til svo að heilafrumur okkar Íslendinga hrökkvi í gang?

Og hefur fólk virkilega efni á því að sóa peningunum svona? Getur það ekki eytt þeim í eitthvað skynsamlegra og skemmtilegra?

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband