Færsluflokkur: Bloggar
27.1.2008 | 22:01
Vonska
Í minni sveit var ekki til siðs að gera gys að veikindum fólks eða velta sér upp úr þeim.
Veikindi voru einkamál. Ég held að heimurinn hafi ekki breyst svo mikið að veikindi fólks séu hætt að vera einkamál. Ég vona ekki.
Menn mega tala um þau ef þeim sýnist, en það er dónaskapur að spyrja um þau, hvað þá að nota þau til að reyna að klekkja á fólki.
Ég óska Ólafi F. Magnússyni alls hins besta. Hann hefur vaxið mjög í mínum augum á síðustu dögum og vikum - meðan aðrir hafa orðið sér til verulegrar minnkunar.
Stjórnmál í Reykjavík koma mér annars ekki við ... ég gat bara ekki orða bundist. Hvað skyldu annars margir þeirra, sem urðu sér til skammar á áhorfendapöllunum í Ráðhúsinu um daginn, búa annars staðar en í Reykjavík?
Skyldi enginn utanbæjarmaður - Kópavogsbúi eða Seltirningur - hafa leynst á meðal þeirra?
Ég segi eins og Örn Arnarson, skáld og ömmubróðir minn, þegar hann gleymdi að slökkva í pípunni sinni áður en hann stakk henni í vasann og ungur maður benti honum á að það væri kviknað í yfirhöfninni hans:
"Hvað kemur það þér við þótt minn jakki brenni?"
Reykjavík er ekki að brenna. En einn góðan veðurdag hlýtur að koma að því að þeir, sem ganga of langt brenni sig.
Annað er óhugsandi.
26.1.2008 | 14:51
Gott er að vera snoðinn hið efra
Ja, mikið asskoti er ég feginn að eiga þetta ekki á hættu ...
Kannski ég ætti að fara að ganga með sveðju á mér og svipta hárinu af einhverri grunlausri konu næst þegar leiðin liggur út í búð?
Ég á nóg af UHU, svo að ekki verður það vandamál ...
![]() |
Rændu hári |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.1.2008 | 14:00
Alveg bit
![]() |
Mótmælendur yfirgefa Ráðhúsið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.1.2008 | 09:42
Þar kom skýringin
![]() |
Flensuveirur þrífast dögum saman á peningaseðlum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.1.2008 | 19:19
Mannagöng og manngangur
Ekkert botna ég í reykvískum yfirvöldum að vilja grafa göng undir Elliðavoginn. Ég sá alltaf fyrir mér gullfallega, háa brú þarna. En vilji mínir gömlu sveitungar fara svona með skattpeningana sína verða þeir að fá að gera það í friði. Mér finnst göng ljót mannvirki, myrk og illþefjandi en þau eru víða nauðsynleg. Til dæmis á Vestfjörðum. Við Elliðavog hefði verið gráupplagt að reisa brú sem hefði orðið eitt af einkennum Reykjavíkur. En þetta er nú bara mín skoðun.
Við Illugi Jökulsson erum sjaldan sammála. En kannski eigum við fleira sameiginlegt en ég hélt. Las í blaði í dag að hann hefði á sínum tíma haldið með Spasskí. Það gerði ég líka. En hefði Spasskí unnið hefði skáksagan áreiðanlega ekki orðið jafn fjörug síðan og raun varð á.
16.1.2008 | 11:14
Úr Grettis sögu?
Þessi skemmtilega fyrirsögn er á visir.is í dag:
Fundu fornsögulegt nagdýr á stærð við nautgrip
Ég er ekki vel að mér í Íslendingasögunum, en minnist þess þó ekki að hafa lesið þar um svona kvikindi (enda mun það ættað frá Úrúgvæ).
15.1.2008 | 21:52
Gloppótt minni yfirvalda
![]() |
Gleymdist í fangelsi í 50 ár |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.1.2008 | 16:53
Meira skemmtilegt
Á dv.is í dag er líka þessi skemmtilega fyrirsögn: "Óttast um fuglaflensu á Bretlandi."
Ekki vissi ég að ástæða væri til þess að óttast um þetta hvimleiða fyrirbæri! Skyldu þarlendir björgunarsveitarmenn hafa verið kallaðir út?
10.1.2008 | 08:20
Mæður og útfararstofur
8.1.2008 | 08:32
Breytingar til hins verra
Stundum rekst maður á svo skemmtilegar fyrirsagnir á Mbl.is að maður getur hreinlega ekki annað en leikið sér með þær og gert athugasemdir. Þannig stóð á vefnum seint í gær: "Hópurinn sem fer til Noregs er klár." Þarna var átt við hóp landsliðsmanna í handknattleik sem fer til Noregs á næstunni. Ég gat ekki á mér setið og kommenteraði eitthvað á þá leið að þetta væri gott mál þar sem það yrði svo leiðinlegt afspurnar ef við sendum eintóma vitleysinga.
Varla hafði ég sleppt orðinu þegar Mbl.is breytti fyrirsögninni. Þar með voru skemmtilegheitin úr sögunni og bloggfærslan mín ónýt. Nú er fyrirsögnin svohljóðandi: "Val á Noregshópnum liggur fyrir." (!)
Ég ætla að biðja blaðamenn Mbl.is þess lengstra orða að hætta þessu, því að ekki er þetta í fyrsta sinn sem þeir breyta skemmtilegri fyrirsögn í dauflega eftir að við, sem reynum að taka lífið ekki hátíðlegar en nauðsynlegt er, höfum gert við hana einhverja athugasemd. Athugasemdirnar eru ekki meiðandi, nema síður sé, svo að tæplega er það ástæðan. Skemmtilegar og tvíræðar fyrirsagnir lífga upp á tilveruna. Það er alveg nóg af deyfðinni og dauðyflishættinum alls staðar í kringum okkur. Haldið áfram að búa til skemmtilegar fyrirsagnir, Moggamenn, og kryddið með því tilveru okkar hinna. Og leyfið þeim svo að standa.