Færsluflokkur: Bloggar

Ferðamálastjórar og aðþrengdar eiginkonur

Alveg er ég bit á því að ekki skuli hafa orðið meiri læti yfir ráðningu Ólafar Ýrar Atladóttur í starf ferðamálastjóra. Hvert er samhengið milli ferðamála og starfa fyrir Vísindasiðanefnd? Ólöf mun að vísu hafa unnið sem leiðsögumaður og landvörður um skeið og stýrt fyrirtæki á sviði ferðamála í Mývatnssveit, ef ég man rétt (forlátið mér ef ég fer rangt með) en þó að ég hafi dundað við dagskrárgerð fyrir útvarp í hjáverkum á árum áður myndi ég seint sækja um stöðu útvarpsstjóra - nema vera nokkuð viss um að fá djobbið, þ.e.a.s. vera í réttum stjórnmálaflokki og svoleiðis. Í hvaða flokki er Ólöf Ýrr? Mér sýnist gengið framhjá hverjum reynsluboltanum á fætur öðrum við þessa ráðningu, en hún virðist hafa fallið í skuggann af látunum í kringum aðra ráðningu, þ.e. ráðningu nýs orkumálastjóra. Ólöf Ýrr er án efa hin mætasta kona og ég er ekki í vafa um að hún hefur kosti til að bera sem ráðherra metur mikils og meira en kosti annarra umsækjenda, en gaman væri að vita hverjir þeir eru.

Ég gat ekki annað en brosað þegar ég sá rabbgrein forsprakka Lesbókar Morgunblaðsins í gær þar sem hann fjallaði um tvo sjónvarpsþætti, Glæpinn og Aðþrengdar eiginkonur. Ég er sammála Þresti Helgasyni hvað Glæpinn varðar, en botna ekkert í því að hann skuli ekki koma auga á sortahúmorinn í Aðþrengdum eiginkonum, þar sem Bandaríkjamenn gera stólpagrín að sjálfum sér, yfirborðsmennskunni, forgangsröðuninni og gildismatinu. Þröstur segir stílfærðan leikinn yfirgengilegan og dellukenndan þráðinn tilgerðarlegan. Það er nákvæmlega þetta sem olli því að þættirnir slógu í gegn! Bandaríkjamenn eru aldrei dásamlegri en þegar þeir hæðast að sjálfum sér og mig undrar að Þröstur skuli ekki koma auga á ískalt og kolsvart háðið í Aðþrengdum eiginkonum, sem beinist ekki síst að bandarískum sjónvarpsþáttum þar sem tilgerðin er svo sannarlega oft yfirgengileg. Þættirnir um eiginkonurnar eru að vísu aðeins farnir að vatnast út, en eiga enn frábæra spretti og persónurnar eru margar hverjar hreint dásamlegar.


Loft, leikhús og lag

Mikið líst mér vel á loftbílinn sem sagt var frá í fréttum Sjónvarps í kvöld. Ódýr bíll sem gengur fyrir lofti, getur náð 100 km hraða og komist um 200 km á lofthleðslunni. Hljómar eins og brandari, en ég hlakka til að sjá hvað úr þessu verður. Bíllinn á víst að koma á markaðinn eftir um það bil ár.

Mér líst ekki eins vel á þá gjörð Borgarleikhússtjóra að hætta að bjóða Jóni Viðari Jónssyni á frumsýningar af því að honum líkar ekki það sem gagnrýnandinn skrifar. Dálítið barnalegt, finnst mér, en listamenn eru reyndar margir hverjir viðkvæmar sálir og svolitlar prímadonnur - svona eins og aðþrengdar eiginkonur eða tískugengið í Ugly Betty - og þola því illa neikvæða gagnrýni. Minna um margt á útvarpsmenn að þessu leyti. Wink

Ég var að horfa á Kastljósið og hreifst mjög af fallegu lagi sem Einar Valur Scheving og félagar léku þar. Ég held bara að ég verði að reyna að útvega mér diskinn. Í þættinum var einnig rætt við Árna Egilsson bassaleikara, góðvin föður Einars Vals. Sá hét Árni Scheving og var gríðarlega flinkur tónlistarmaður. Hann lést nú skömmu fyrir áramót. Blessuð sé minning hans.

 


Eldvarnabrækur

Það er auðvitað þjóðráð að hafa eina svona flík hangandi nálægt eldavélinni í staðinn fyrir rándýr eldvarnateppin. Auk þess setja vel sniðnar nærbuxur áreiðanlega mikinn og skemmtilegan svip á eldhúsið. Svona fréttir draga líklega ekki úr þjófnaði á brókum frá Ríkisspítölunum ... (!)
mbl.is Eldur slökktur með stórum nærbrókum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óskar í augsýn?

Hann er áreiðanlega betri leikari en sumir verðandi kollegar hans þar vestra! LoL


mbl.is Knútur verðandi Hollywood-stjarna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skáldsaga?

Þetta verður skemmtilega öðruvísi ævisaga ... líklega eintómar ágiskanir!
mbl.is Ozzy man ekkert
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamlársheimska

Ég er að hugsa um að láta alla flugelda eiga sig í ár. Í fyrra skaut ég upp nokkrum slíkum og dauðsá eftir því. Þeir voru dýrir og ekkert sérstakir. Flugeldakaup held ég að sé einhver versta peningasóun sem til er. Ég vil heldur fara aðrar leiðir til að styrkja björgunarsveitir, sem vissulega eru nauðsynlegar. Ég kæri mig ekki lengur um að auka slysahættu og valda hávaða- og rykmengun með þessum hætti, auk þess sem af þessum ófögnuði er gríðarlegur sóðaskapur.

Björgunarsveitir hljóta að geta fundið sér aðrar fjáröflunarleiðir. Fyrst Reykjanesbær fann svona glimrandi leið til að nýta mannvirkin á Keflavíkurflugvelli eftir nokkuð skyndilegt brotthvarf varnarliðsins (og fjölgaði íbúum hressilega í leiðinni) hljóta björgunarmenn að geta fundið sér einhverja fjáröflunarleið sem ekki hefur jafn hrikalegar aukaverkanir í för með sér.

Ég skil raunar ekki þetta veður sem Íslendingar gera út af áramótunum. Þau koma einu sinni á ári og eru ekkert merkilegur viðburður. Jólin eru annar handleggur, þá erum við að fagna fæðingu Frelsarans. Að sóa peningum í alls kyns uppfuðranlegt drasl og annan óþarfa á gamlárskvöld er ekkert annað en hreinræktuð, íslensk heimska.

Já, ég veit að ég er neikvæður. En þetta finnst mér nú samt. Og hananú. Smile


Bhúttó

Voðalega er maður orðinn meyr með aldrinum. Mér brá þegar ég las að Benazír Bhúttó hefði verið myrt og uppgötvaði fljótlega að ég tók tíðindin bara býsna nærri mér. Mér finnst ég nú ekkert sérstaklega gamall - rétt skriðinn af unglingsárunum, raunar - en á minni stuttu ævi hafa æði margir þjóðarleiðtogar verið myrtir eða teknir af lífi í þessum heimshluta. Mál er að linni. Ég held að fallin sé merk og mæt kona sem hefði gert heiminn betri, hefði hún fengið að lifa lengur.

Jól

Gleðilega jólahátíð, kæru bloggvinir, og aðrir sem inn á þessa síðu rata. Hafið það sem allra best um jólin og njótið hátíðarinnar.

Ekki bara ég

Það eru greinilega fleiri en ég sem bíða eftir að eignast seðla ... Wink  
mbl.is Beðið eftir seðlum í Simbabve
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endurskin

Alveg er ég bit á því að endurskinsmerki skuli ekki fást við hvern einasta afgreiðslukassa í landinu. Raunar ætti eitthvert gott fyrirtæki eða félag að taka sig til og dreifa þeim ókeypis sem allra víðast, helst þannig að hver einasti kjaftur íslenskur fái að minnsta kosti 2-3 stykki. Í gær munaði minnstu að strætó keyrði framhjá mér þar sem ég stóð á biðstöðinni - undir ljósastaur. Vagnstjórinn sá mig ekki, en góð kona í vagninum kom auga á mig og lét hann vita.

Ég var svartklæddur í rökkrinu og án endurskinsmerkja.

Síðdegis í dag horfði ég upp á bíl snarsveigja framhjá miðaldra konu sem gekk á götunni (engin var gangstéttin þar sem hún var á ferli) því að bílstjórinn sá hana ekki fyrr en hann var kominn að henni. Konan var dökkklædd og án endurskinsmerkja.

Eitthvað heyrði ég um að Neytendasamtökin hefðu skorað á verslunareigendur að hafa endurskinsmerki við kassana hjá sér í stað sælgætis.

Ég styð það heils hugar. En merkin verða að vera vönduð, ódýr og þægileg viðfangs. Það ætti ekki að vera svo erfitt - er það?

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband