Færsluflokkur: Bloggar
28.6.2007 | 13:34
Öst, vest, hjemme bedst? Förste del
Þá er rúmlega hálfsmánaðarlöngu ferðalagi um Holland og Belgíu lokið og hersingin komin heim. Það er alltaf ágætt að koma heim, að minnsta kosti fannst börnunum það þó að þau hefðu skemmt sér konunglega í útlöndunum. Sjálfur hefði ég vel getað hugsað mér að vera lengur og fara víðar. Ég hef ákaflega gaman af að ferðast og myndi gera miklu meira af því ef heimilisbókhaldið leyfði.
Þetta var raunar dálítið merkileg ferð. Tengdapabbi varð sjötugur nú í júní og hélt upp á afmælið með því að bjóða börnum sínum, tengdabörnum og barnabörnum, alls 30 manns, til vikudvalar í Kempervennen í Hollandi. Og viti menn, hver einasti kjaftur komst með - það vantaði ekki einn einusta mann í hópinn. Ferðin var bókuð snemma og því höfðu allir tök á að skipuleggja fríið sitt með tilliti til þess að komast með.
Það var ljómandi gott að dveljast í Kempervennen. Þangað hafa margir Íslendingar farið sér til hvíldar og skemmtunar, enda sumarhúsin ágætlega útbúin og ýmislegt hægt að hafa fyrir stafni. Börnin nutu þess að fara í sund, hjóla og leika sér. Unglingarnir brugðu sér á þungarokkstónleika ekki langt frá. Fullorðna fólkið slakaði á, fór í stuttar hjólreiðaferðir og naut lífsins.
Það sem olli mér helst vonbrigðum í Hollandi var kaffið. Hollendingar eru litlir kaffimenn og Starbucks-menningin virðist því miður ekki hafa haldið innreið sína þangað enn. Kaffið var yfirleitt þunnt og bragðlítið, ekki ósvipað íslensku vegaskálakaffi. Ölið drekk ég ekki lengur en man af fyrri kynnum, löngum og nokkuð ítarlegum, að á því sviði standa Hollendingar mjög framarlega. Það sem vakti mesta ánægju mína var því vatnið úr krananum, sem var ekki einasta ágætlega drykkjarhæft heldur bara nokkuð gott.
Viðmót starfsfólks í Kempervennen var prýðisgott og allt stóðst sem stafur á bók. Íslendinga hittum við fáa, en römbuðum þó á gamla nágranna okkar af Eyrinni, fólk sem við þekkjum ekki ýkja mikið, en virðist þó tengt okkur á dularfullan hátt, því að síðast þegar við fórum í svona frí, fyrir þremur árum, hittum við þetta ágæta fólk líka - fyrir algjöra tilviljun. Það var í Lególandi í Danmörku. Já, heimurinn er lítill.
Eftir ljúfa og notalega viku í Kempervennen og nágrenni fór bróðurpartur hópsins heim, en við Anna og börnin leigðum okkur hins vegar bíl og héldum til Belgíu. Nánar um það síðar.
9.6.2007 | 22:55
Suðurnesin
Ég hef alltaf kunnað vel við mig á Suðurnesjunum og veit ekki af hverju. Mér finnst Reykjanesskaginn afskaplega fallegur, en líkt og mörg önnur landsvæði verður hann ekkert ýkja smart í þoku og dumbungi eða roki og rigningu. Hið sama má t.d. segja um Mývatnssveit, en bæði svæðin eiga það sameiginlegt að í góðu veðri er vandfundið fegurra land. Kannski hafa genin eitthvað að segja í sambandi við kærleika minn til Reykjanessins, ég veit það ekki, en langafi var úr Leiru. Því miður eru mörg herrans ár síðan ég hef gefið mér tíma til að skoða Reykjanesskagann en vonandi auðnast mér að bæta úr því í sumar eða á næsta ári. Með Suðurstrandarvegi verða til nýir möguleikar þegar þar að kemur og ég vona að í framtíðinni komi vegtenging milli Hafna og Sandgerðis um Ósa. Ég held að úr því yrði skemmtileg, lítil hringleið.
Ég á leið um þessar slóðir á næstu dögum en hef því miður ekki tíma til að stansa. Gef mér sennilega ekki einu sinni tíma til að heilsa upp á hana Barböru vinkonu mína í Kapellunni, en hana fannst mér alltaf notalegt að hitta á árum áður þótt ekki sé ég kaþólskur. Ég vona að hún standi þar enn.
9.6.2007 | 12:37
Neikvæðni
Stundum finnst mér ég vera svo hryllilega neikvæður að það hálfa væri nóg. En dálkarnir hans Illuga Jökulssonar í Blaðinu duga til að lækna mig. Í samanburði við Illuga er ég algjör Pollýanna. Ég skil annars ekkert í drengnum að láta svona sýknt og heilagt. Fengi hann ekkert borgað fyrir pistlana ef hann væri á jákvæðum nótum? Kannski ekki, það er svo margt skrýtið í kýrhausnum.
Í alvöru talað finnst mér bagalegt að svona yfirskilvitleg neikvæðni eins og fram kemur í pistlum Illuga skuli yfir höfuð þrífast í fjölmiðlum landsins. Ýmsir hafa á pilti miklar mætur, telja að hann stingi á kýlum í þjóðfélaginu o.s.frv., en minna má nú aldeilis gagn gera. Og óbeit mannsins á Davíð Oddssyni er slík að fýluna leggur langar leiðir. Sitt sýnist hverjum um Davíð og það er í góðu lagi að hafa sínar skoðanir á framámönnum í þjóðfélaginu en hamslaus krossferð af því tagi sem Illugi hefur brölt í síðustu áratugi er allt annar og uggvænlegri handleggur - ekki fyrir Davíð, heldur Illuga.
Illugi Jökulsson er feikilega flinkur penni. Með þeim albestu sem til eru. Mikið óskaplega vildi ég að hann notaði hann landi og þjóð til gagns, en ekki til að ausa for yfir suma samferðamenn sína (aðrir sleppa nefnilega alltaf dálítið billega, sýnist mér) hvenær sem færi gefst - jafnvel þótt hann fái borgað fyrir það. Svolítið nöldur og nagg er allt í lagi stöku sinnum og við höfum gott af því að skýrir menn segi okkur til syndanna, en Illugi er því miður löngu hættur því. Það er langt síðan skrif hans breyttust úr harðskeyttri þjóðfélagsrýni í lítt dulbúna ólund og takmarkalitla beiskju. Vonandi tekst honum að komast hjá því að verða að sams konar þjóðfélagsmeini og hann hefur hamast gegn í áranna rás.
Og nú ætla ég að segja þetta gott í bili. Ég er nefnilega orðinn alltof neikvæður!
7.6.2007 | 18:30
Númer
Mikils metinn baráttumaður fyrir bættri umferðarmenningu á Íslandi lét eitt sinn hafa eftir sér, þegar hann var spurður hvort einhvern veginn væri hægt að þekkja varasama ökumenn úr, að reynslan hefði kennt sér að vera á varðbergi gagnvart gömlum mönnum með hatt. Þeir eru nú orðnir fáir, gömlu mennirnir sem keyra um með hatta á höfði, en ég uppgötvaði nýlega að menn sem hafa keypt sér gömlu bílnúmerin sín eru margir hverjir frekar varasamir. Þeir hafa eiginlega komið í stað hattakarlanna. Þetta eru gjarnan eldri karlmenn á jepplingum og ég held það geti varla verið nein tilviljun hversu margir þessara herramanna sleppa stefnuljósunum, keyra alltof hægt, nema staðar á miðri götu til að gægjast inn í fallegan garð eða skoða einhvern eðalvagn á stæði, o.s.frv. Þeir eru sem sagt einir í heiminum, ef frá er talin frúin í farþegasætinu.
Já, ég veit, þetta eru fordómar. Skammið mig bara. Samt sem áður eru dæmin of mörg til að ég geti afgreitt þetta sem bull og þvælu í mér. Og sama hvað hver segir, ég ætla að halda áfram að vara mig á rosknum karlmönnum sem aka um alsælir í fortíðarhyggjunni á gömlu bílnúmerunum sínum.
5.6.2007 | 18:30
Kjós
Bráðsnjallir þóttu mér yfirmenn álversins á Grundartanga að velja nýjan forstjóra með ættarnafnið Kjos. Ég er ekki í nokkrum vafa um að David Kjos á eftir að kunna vel við sig við Hvalfjörðinn, enda Kjósin handan fjarðar, sú fagra sveit. Honum verður áreiðanlega vel tekið, nema hrepparígurinn sé þeim mun meiri á þessum slóðum. Nú legg ég til að aðrar álversstjórnir hugsi sinn gang, láti núverandi forstjóra fjúka og finni fólk með viðeigandi ættarnöfn til að gegna forstjórastöðum. Er ekki til einhver góður og sprenglærður Mr. Midness sem stýrt gæti fyrirhuguðu álveri í Helguvík? Reyðfirðingar gætu fengið Mrs. Eastfjord, Húsvíkingar Mr. Lundey og Hafnfirðingar yrðu ábyggilega sáttir við Barböru Chapel.
Bill Dale væri líka upplagður í forstjóradjobbið í kalkþörungaverksmiðjunni við Arnarfjörð...
3.6.2007 | 12:01
Agnavíma?
Á mbl. is birtist í dag frétt um að ítalskir vísindamenn hafi fundið kókaínagnir í loftinu í Róm. Þéttni þeirra er víst mest í miðborginni, einkum í grennd við La Sapienza-háskólann. Einnig fundust merki um efni sem er í maríjúana og hassi, nikótín og koffín.
Hér er náttúrlega komin ódýr og góð lausn fyrir fátæka fíkla. Kannski rekst maður á snusandi fólk í kringum Háskólann á Akureyri næstu daga, í leit að ofurlitlum vímuvotti?
2.6.2007 | 13:35
Nafngreindur
Ég var búinn að heyra fréttir um að maður nokkur hefði verið handtekinn í Leifsstöð nýlega með tvö kíló af sterkum fíkniefnum en átti ekki von á að hann yrði nafngreindur í fjölmiðlum frekar en flestir þeir sem borið hafa eiturlyf til landsins fyrir sjálfa sig eða aðra. En í Fréttablaðinu í dag birtist nafnið á kauða og kemur þá í ljós að um er að ræða allþekktan náunga - reyndar þekki ég lítið til hans þar sem ég hef ekki haft "réttu" sjónvarpsstöðina árum saman og þoli auk þess illa sjónvarpsþætti þar sem hætta er á að einhver syngi illa. Fyrst fauk í mig fyrir hans hönd og aðstandendanna - af hverju er hann nefndur á nafn öðrum fremur? - en svo fór ég að velta fyrir mér hvort honum væri hreinlega ekki greiði gerður með þessu. Pilturinn hefur komið fram opinberlega og sagt frá vandamálum sínum í sambandi við notkun vímuefna og kannski getur svona atburður orðið til þess að hann hætti endanlega. Þjóðin finnur e.t.v. til með honum og veitir honum í framtíðinni það aðhald sem fíkniefnasjúklingum er nauðsynlegt. Gott bakland er mikilvægt á batagöngunni og ekki er verra ef hálf eða öll þjóðin er með manni í liði.
Vitaskuld er ekkert víst að drengurinn sé enn í neyslu þótt hann sé gómaður með svona mikið magn fíkniefna. Ekki er ólíklegt að efnin tilheyri einhverjum stórum "sjálfstæðum dreifingaraðila" og hugsanlega hefur strákurinn skuldað honum peninga og því jafnvel neyðst til að taka að sér þetta verkefni. Það er ýmislegt til í slíkum dæmum og ekkert verður fullyrt um það hér hver sannleikurinn kann að vera, enda er ég blessunarlega laus við að hafa nokkra einustu þekkingu á undirheimum eiturlyfjanna. Hitt veit ég að það er ekki alltaf nóg að hætta að drekka eða dópa. Skuldirnar við seljendurna hverfa ekki við það eitt, og það eru þær, því miður, sem koma mörgum fíkniefnaneytandanum á kaldan klaka á ný.
Hvað sem öðru líður óska ég tónlistarmanninum snjalla alls hins besta í baráttunni við drauginn slynga.
30.5.2007 | 21:48
Hjólabretti
Á leiðinni í vinnuna geng ég framhjá einhverjum besta hjólabrettagarði á Íslandi, að því er mér er sagt. Hann er við Háskólann á Akureyri og þar dvelst ellefu ára gamall sonur minn löngum stundum með félögum sínum. Sonur minn er sem sagt brettamaður mikill. Það hefur hann verið í nokkur ár og er orðinn ótrúlega fimur. Ég veit að líkt og fleiri fell ég stundum í þá gryfju að vera sýknt og heilagt með aðfinnslur en gleyma hrósinu þegar við á. Ég má til með að hrósa öllum hlutaðeigandi yfirvöldum á Akureyri fyrir þennan hjólabrettagarð. Hann er stórglæsilegur og það er frábært að ganga þarna hjá og virða fyrir sér krakka á öllum aldri leika sér á brettum, línuskautum og alls konar "farartækjum" öðrum.
Ég spurði eitt sinn son minn hvort stóru strákarnir væru ekki með yfirgang á brettasvæðinu. Hann þvertók fyrir að svo væri og af orðum hans mátti ráða að þvert á móti væri gaman að leika sér þarna með stóru strákunum af því að þeir kynnu svo margt og væru sumir hverjir duglegir að kenna þeim sem minna kynnu fyrir sér. Hann sagði að á brettasvæðinu væru allir kurteisir og tillitssamir. Það er sem sagt alger undantekning, eftir því sem mér skilst á syni mínum, að það skerist í odda í brettagarðinum.
Ég hef alltaf verið mjög sæll með brettaiðkun sonar míns. Þetta er frábærlega holl og góð hreyfing og hann stundar íþróttina af miklum áhuga. Ekki minnkaði ánægja mín þegar ég uppgötvaði að í brettagarðinum er að nokkru leyti að finna útópíuna sem við þráum öll - stað þar sem allir eru jafnir og allir koma fram við náungann af kurteisi, virðingu og tillitssemi. Mikið vildi ég að svoleiðis staðir væru á hverju strái.
Nú þarf bara að koma upp inniaðstöðu fyrir bretta- og línuskautafólkið. Þá yrði minn maður kátur - og pabbi hans líka.
27.5.2007 | 22:23
Dion
Ég er alltaf að uppgötva eitthvað nýtt. Það finnst mér gaman. Líka þegar ég uppgötva eitthvað sem er alls ekki nýtt, heldur býsna roskið. Meira að segja ekki nýtt fyrir mér, heldur opnast það bara fyrir mér með nýjum hætti og ég fæ breytta sýn á efnið. Þetta gerðist í dag þegar ég stakk í tækið mitt mynddiski sem ég keypti fyrir lítið á útsölumarkaði fyrir fáeinum dögum. Um var að ræða tónleikadisk með Dion nokkrum DiMucci, ítalskættuðum Bandaríkjamanni sem kannski er ekki heimilisvinur alls staðar á Íslandi, en ætti að vera kunnugur þeim sem komnir eru til vits og ára.
"Dion & The Belmonts" ætti að klingja einhverjum bjöllum. Maður þessi söng og spilaði lög á borð við "Runaround Sue," "The Wanderer" (ekki Donnu Summer-lagið), "Teenager In Love" og fleiri frábær lög frá sjötta og sjöunda áratugnum. Hann hefur aldrei þagnað, karlinn, og fyrir ekki löngu síðan kom út diskur með honum þar sem hann syngur og spilar (listavel á gítarinn sinn) dásamlega einfaldan, kjarnmikinn og hráan Bronxblús.
Hún virðist kannski löng, leiðin frá dúvoppi til bronxblúss, en Dion kann á hvoru tveggja skil og flestu þarna á milli. Á tónleikunum tekur hann flest sín þekktustu lög auk allmargra nýrri laga úr ýmsum áttum. Milli laga segir hann skemmtilega frá þeim margvíslegu áhrifum sem hann varð fyrir á unglingsárum og mótuðu hann sem tónlistarmann. Má þar nefna kirkjutónlist, blökkumannablús, rokkabillí og trúartónlist gyðinga. Allt þetta og fleira til heillaði sveininn unga.
Svona menn eru fjársjóður. Þeir velja það besta úr þeim hefðum sem í kringum þá og búa til sína eigin tónlist - sem auðvitað slær svo í gegn, ekki síst vegna einlægninnar, sem er ómissandi innihaldsefni. Og þeir daga ekki uppi við að spila gömlu lögin sín fyrir örfáar hræður í mislukkuðum sjónvarpsþáttum - nei, þeir eru eilíflega að gera tilraunir, semja, blanda og hræra þangað til þeim finnst þeir hafa eitthvað fram að færa á ný. Nú ætla ég að leggjast í grúsk og kanna feril Dions til hlítar, því að hann er miklu, miklu merkilegri (og skemmtilegri) tónlistarmaður en mig hafði nokkurn tímann grunað.
Svona atburðir eru kannski ekki merkilegir í flestra augum, en frá mínum bæjardyrum séð lífga þeir mjög upp á tilveruna. Og þetta er alls ekki í fyrsta skipti sem ég "uppgötva" tónlistarmenn, leikara og fleiri listamenn á þennan hátt, næstum fyrir algera tilviljun. Þetta er alltaf að koma fyrir mig. Það er það sem er svo skemmtilegt!
26.5.2007 | 11:43
Skip
Kolefnisjöfnun er mjög til umræðu núna, enda hið besta mál. Bráðsnjallt t.d. hjá bílafyrirtækjum að fara þessa leið meðan umhverfisvænna eldsneyti en bensín er ekki komið í almenna notkun. Margt er að gerast í þessum málum og er það vel. Ég er eindreginn fylgismaður stórfelldrar trjáplöntunar og landgræðslu og andstæðingur bensín- og dísilfnyks, svo að ég er viss um að ég á eftir að fylgjast vel með.
En svo fór ég allt í einu að hugsa um skipin. Hvað með þau? Einhvern tímann heyrði ég sagt að býsna drjúgur hluti gróðurhúsalofttegunda, sem Íslendingar sendu frá sér, kæmi úr skipaflotanum. Hvað ætlar útgerðin að gera? Nú hefur að vísu verið stofnað félag um svokallaða lífdísilframleiðslu sem fara skal fram á Krossanesi við Akureyri og meiningin að nota þessa dísilolíu á fiskiskipin okkar, en það breytir því ekki að eftir sem áður er um dísilolíu að ræða og það er víst sama hvaðan hún er upprunninn, alltaf mengar hún. Og tæplega framleiðist nóg á allan flotann þegar þar að kemur.
Hér með er skorað á útgerðarmenn að gera eitthvað í sínum málum, sem líka eru okkar mál, og ekki bara okkar Íslendinga. Ætli útgerðin sér að sneiða hjá þessari umræðu fyndist mér það eiginlega hreinræktað ábyrgðarleysi. Það er engin afsökun að losunin skuli eiga sér stað úti á sjó! Er ekki löngu kominn tími til að kolefnisjafna sægreifana?