Færsluflokkur: Bloggar
16.9.2019 | 09:19
Popúlismi
Sigmundur Davíð er farinn að saka forsprakka annarra flokka um popúlisma.
Nú þykir mér kasta tólfunum.
20.8.2019 | 14:19
Ok
Misminnir mig, eða eru mörg ár og jafnvel áratugir síðan ég las um það í blöðunum að Ok teldist ekki lengur til jökla?
Er þessi athöfn á jöklinum sáluga bara eitthvert skúespil?
13.8.2019 | 16:40
Pakki frá sjónarhóli Evrópumanns
Ég er sjálfsagt gamaldags, en ef allir þingmenn Íslendinga (að frátöldum þingmönnum Miðflokksins, sem ég mun seint kjósa) treysta sér til að greiða atkvæði með innleiðingu þriðja orkupakkans er ég hlynntur henni.
Það kann vel að vera að sumum þyki það flokkast undir heimsku og barnaskap að treysta dómgreind 54 þingmanna af 63, en þá verð ég bara að lifa með því. Mér hefur því miður sýnst að "rökin" gegn innleiðingu orkupakkans séu oft í formi upphrópana og fúkyrða, enda hafa Íslendingar ævinlega verið færir um að mynda sér skoðun á málum án þess að kynna sér þau fyrst og verið tilbúnir að trúa þeim sem neikvæðastur er og hæst lætur.
Rök þeirra sem tala fyrir innleiðingu pakkans (sem allar hinar EES-þjóðirnar hafa þegar samþykkt) eru hins vegar yfirleitt málefnaleg og þar af leiðandi sannfærandi í mínum eyrum, hvort sem ég er nú barnalegur bjáni fyrir vikið eða ekki.
Einangrunarhyggja, hræðsluáróður, þjóðremba, popúlismi og falsfréttir verða æ stærra vandamál í íslensku samfélagi ekki síður en í útlöndum. Ekkert af þessu heillar mig, en því miður virðist vera hljómgrunnur sums staðar fyrir alls kyns neikvæðni og innantómum rembingi.
Það ætlar að ganga hægt að kveða niður draug Bjarts í Sumarhúsum.
7.6.2019 | 20:06
Erla
Ég er að hlusta á lög með Erlu heitinni Stefánsdóttur. Mikið vildi ég að sú ágæta söngkona hefði sent frá sér meira efni meðan hún lifði. Einstök kona með einstaka rödd.
18.4.2019 | 22:43
Garfunkel
Ég fór á tónleika með Art Garfunkel í kvöld. Hann er orðinn lúinn, blessaður karlinn, lotinn í herðum og röddin farin að gefa sig. Ég hafði reyndar heyrt að hann væri búinn að spilla í sér röddinni með stórreykingum. Hann söng mörg þekkt lög og talaði vel um sinn gamla félaga, Paul Simon.
Garfunkel tók nokkur lög með syni sínum, sem er 28 ára og heitir James Arthur (eða Arthur yngri). Þvílíkur söngvari. Hann er enn betri en karl faðir hans var - ef það er þá hægt.
22.2.2019 | 11:13
Gönuhlaup
Á árunum kringum 1980 veðjuðum við vinirnir stundum um það þegar við fórum í búð hvað kaffipakkinn hefði hækkað mikið frá því síðast. Oftast töpuðum við allir. Kaffipakkinn hafði nefnilega hækkað meira en við töldum hugsanlegt.
Já, óðaverðbólgutíminn. Þá var nú aldeilis gaman að lifa. Eða þannig.
Og verkföllin - hvert öðru lengra og skemmtilegra - skiluðu nákvæmlega engu.
Þetta rifjaðist upp fyrir mér í morgun þegar ég fletti Fréttablaðinu.
6.1.2019 | 23:24
Hið svokallaða skaup
Skaupið, já. Mín skoðun: Það var svo ófyndið að ég gat ekki annað en hlegið eftir á. En svo fór ég að hugsa. Líklega er þetta skaup alveg eins og Íslendingar eru nú á dögum, að minnsta kosti sá háværi minnihlutahópur sem lætur að sér kveða á netinu og eys drullu og hroða yfir hvern sem vera skal (gjarnan nafnlaust), kýs lögbrjót mannveru ársins (af því að tilgangurinn helgar meðalið), heimtar meira rafmagn en vill ekki virkjanir, krefst þess að fá allt ókeypis frá útlöndum en vill ekkert láta í staðinn, krefst þess að fólk velji íslenskt þótt það hafi ekki efni á því, öfundar alla sem hafa það skárra en hann, en brennir samt tugþúsundum króna á gamlárskvöld (dýravernd hvað?), grenjar yfir öllum sköpuðum hlutum daginn út og inn, og svo framvegis. Skaupið var eins og Íslendingar. Frekt, fullt af gremju, skinheilagt, yfirgengilegt, leiðinlegt, ósmekklegt, þreytandi, hávært, dónalegt, ruddafengið, skítlegt og fullt af upphrópunum, en innihaldsrýrt. Með öðrum orðum afskaplega sorglegt - alveg eins og við.
28.11.2018 | 20:19
Leikhús og tónleikar
Ég skrapp í leikhús í Lundúnum um helgina og þótt fyrr hefði verið. Sá tvö leikrit. Mæli með "The Height of the Storm" eftir Florian Zeller, þar sem gömlu kempurnar Eileen Atkins og Jonathan Pryce fara á kostum í margræðu og lágstemmdu verki, en var ekki hrifinn af "True West" eftir Sam Shepard. Ef til vill er verkið ekki eins gott og mig minnti (ég las það endur fyrir löngu), en uppfærslan heillaði mig að minnsta kosti ekki. Ég fór líka á tvenna tónleika, Billy Ocean í Cardiff og Monty Alexander í Lundúnum. Báðir eru frá Vestur-Indíum. Báðir fluttu "No Woman No Cry". Ocean stóð fyrir sínu, en djasspíanistinn Alexander, sem ég þekkti ekkert til áður, er hreinræktaður snillingur - og meðspilararnir líka.
2.11.2018 | 20:47
Olía
Auk þess leggur Helgi Már Barðason til að Íslendingar fari nú að kaupa olíu frá Íran.
14.10.2018 | 10:42
Kórallar
Helgi Már Barðason brá sér á firnagóða tónleika með ensku hljómsveitinni The Coral. Prýðileg skemmtun. Fínir rokkarar, flott lög.