Skegg

Ég hef verið skeggjaður í fimmtán ár eða meira. Börnin mín hafa sjaldan séð mig skegglausan, nema við afar hátíðleg tækifæri og ég hef jafnharðan leyft skegginu að vaxa aftur. Þó hefur það aldrei orðið neitt í stíl við skegg Sveinbjarnar Beinteinssonar, þess skeggprúða goða, heldur er skeggið á mér svona í George Michael- og Steingríms J.-stílnum alla jafna. Konan mín vildi á sínum tíma ekki að ég safnaði skeggi en getur nú, held ég, ekki hugsað sér að ég vappi um veröldina nauðrakaður.

Ég var að strjúka á mér nýslegið skeggið áðan og fór þá að hugsa um hvað ég væri heppinn. Ég mætti ekki til þess hugsa hvernig mér liði ef mér sprytti ekki grön. Sannfærður er ég um að skeggið mitt hefur oft forðað mér frá því að falla í pytt svartsýnis, þyngsla og almenns doða ... það er einfaldlega svo óskaplega róandi, gleðjandi og andagiftaraukandi að strjúka á sér skeggið. Meira að segja broddar duga ágætlega.

Konur hafa fæstar skegg til að státa af - þótt hún amma mín hafi haft örlítinn ljósan hýjung á efri vörinni, sem mér þótti afar merkilegur þegar ég var barn - en ætli sítt hár komi ekki í sama stað niður? Ég sé a.m.k. konur oft snúa upp á hárið á sér og fikta í því þegar þær þurfa mikið að hugsa.

Er það kannski þess vegna sem ég er með skegg? Af því að ég hef ekkert hár til að snúa upp á? Á þessu hlýtur að vera til einhver gagnmerk sálfræðiúttekt, það er ég viss um ...

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Vala Elísdóttir

En ertu með hár á höfðinu?

Guðrún Vala Elísdóttir, 5.10.2007 kl. 19:33

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband