25.6.2008 | 23:49
Reykjanesskagi
Fór um Reykjanesskagann fyrir nokkrum dögum, alla leið frá Þorlákshöfn vestur um til Keflavíkur, þaðan hringinn um Garð og Sandgerði og nýja Ósabotnaveginn, svo eftir hefðbundnu leiðinni til Reykjavíkur og þaðan austur um Þrengsli til Eyrarbakka, þar sem við eldri sonur minn dveljumst þessa dagana.
Veðrið var dásamlegt og Reykjanesskaginn skartaði sínu fegursta. Ýmislegt vakti þó athygli mína annað en náttúrufegurðin, til dæmis það hversu margt er illa eða alls ekki merkt. Ég kom t.d. skilti sem á stóð "Arnarker"og hjá því merkið athyglisverður staður. Engar frekari upplýsingar var þar að finna. Engin gönguslóð, ekkert sem gaf til kynna hvað þetta væri for noget og hvort þetta mýstíska ker væri tuttugu metra frá vegi eða tvö hundruð.
Um allan skagann liggja vegir og slóðar hingað og þangað, ómerktir eða illa merktir. Ómögulegt er að segja hvert þeir leiða mann, enda tókum við feðgar snemma þá ákvörðun að hunsa hliðarvegi með öllu. Verra er þó að nýi Ósabotnavegurinn er með öllu ómerktur. Raunar finnst mér nafngiftin hálfgert rangnefni þar sem vegurinn liggur svo langt frá Ósabotnum að maður nýtur þeirra alls ekki þaðan. En gaman var að fara þessa leið engu að síður.
Við komum að álfubrúnni og munaði minnstu að við færum framhjá henni, þar sem ekkert skilti er fyrir vegfarendur sem koma sunnan að. Ef til vill er almennt talið að ferðamenn komi aðeins að brúnni frá Keflavík.
Eru þá neikvæðu punktarnir upptaldir en þeir jákvæðu eru sem betur fer miklu fleiri. Óskaplega gaman var að koma að Garðskagavita, þar sem staðsetning byggðasafns og tjaldstæðis er einkar skemmtileg, og sömuleiðis á Stafnes, sem er hreint dýrðlegur staður. Syni mínum þótti gaman í Krýsuvík og við skemmtum okkur líka ágætlega við Reykjanesvita, en þangað hef ég ekki komið óralengi. Áður hef ég minnst á glæsilega inniaðstöðu fyrir brettamenn í Keflavík og heimamenn mega líka vera ánægðir með sundlaugina sína, sem er mjög skemmtileg.
Reykjanesið er stórlega vanmetin ferðamannaslóð og ég er harðákveðinn í að fara þangað sem allra fyrst aftur og gefa mér góðan tíma. Ég vona bara að merkingarnar verði orðnar fleiri og betri þá.