Sælt er sameiginlegt skipbrot

Fyrir tuttugu og fimm árum fékk ég sekt sem ég var mjög ósáttur við - og er enn. Ég brá mér í bíó á Akureyri að kvöldlagi og lagði bílnum mínum í stæði sem merkt var Strætisvögnum Akureyrar, en þar sem vagnarnir voru hættir að ganga þann daginn taldi ég óhætt að geyma bílinn minn þar meðan ég færi í bíó.

Það reyndist nú aldeilis misskilningur.

Þegar ég kom út beið mín sektarmiði á framrúðunni. Ég fór strax daginn eftir til sýslumanns og ræddi við fulltrúa hans, sagði honum hvers kyns var og ég væri ósáttur með að fá sektina. Spurði hvort laganna verðir hefðu virkilega ekkert betra að gera en að eltast við svona lagað.

Fulltrúi sýslumanns sagðist því miður ekkert geta gert. Eftir talsvert japl, jaml og fuður fór ég niður á næstu hæð og greiddi sektina, en hélt síðan heim með lafandi skottið, hryggur og reiður í hjarta.

Nú hafa augu mín opnast. Auðvitað á ég ekki að una svona meðferð. Þennan blett á flekklitlum ferli mínum verð ég að afmá þegar í stað.

Nú ætla ég að finna árans lögregluþjóninn sem skrifaði sektina, þó að það kunni að taka mig marga mánuði, og sýna kauða í tvo heimana. Síðan kemur röðin að sýslumannsfulltrúanum - og ég man vel hvað hann hét. Ætli ég verði ekki svo ekki að taka sýslumanninn til bæna og loks dómsmálaráðherrann þáverandi, enda er ég með afbrigðum ósáttur og óánægður með embættisfærslur og framkomu allra þessara manna í málinu. Ég ætla að fara fram á verulegar skaðabætur og að gjörðir mannanna verði skoðaðar ofan í kjölinn. Skaðabæturnar ætla ég að nota til að kaupa brauð og gefa öndunum, því að ég er vinur fuglanna og fáir, ef nokkrir, hafa lagt jafn mikið af mörkum og ég til að bæta kjör þeirra, enda stæri ég mig af því hvenær sem ég fæ tækifæri til.

Ég vona bara að málið teljist ekki fyrnt ...


mbl.is Jóhannes Jónsson í Bónus undirbýr kæru vegna Baugsmálsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Bjallaðu í Þjóðarsálina og kallaðu þetta mannréttindabrot. Það hjálpar mörgum í gegnum daginn. ;)

Helgi Hrafn Gunnarsson (IP-tala skráð) 2.7.2008 kl. 12:08

2 identicon

:-)

Þorsteinn G. Gunnarsson (IP-tala skráð) 2.7.2008 kl. 15:16

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband