Færsluflokkur: Bloggar

Veður

Þvílíkt einmuna tíðarfar.


Von

Mikið vona ég að Íslendingar fari að átta sig á því að þeir eru hreint ekkert merkilegir :)


Skömm

Mikið vildi ég að Íslendingar legðu af þann leiða sið að sparka í liggjandi fólk. Nag, öfund, hroki, ótti og skóníð sem bitnar á þeim, sem ekki svara fyrir sig, er afkomendum víkinga og Kelta ekki sæmandi.


Það var og

Þá er spurning hvort maður hefji aptur færslur hjer. Les þetta orðið nokkur kjaptur?


Jæja

Let the games begin.


Akureyri vikublað og "eineltisbrandarar" Davíðs

Jæja. Þar kom að því að ritstjóri Akureyrar - vikublaðs, gæti ekki setið á sér lengur og sýndi sitt pólitíska andlit. Ég hef reyndar verið að bíða eftir því alveg síðan fyrsta tölublaðið kom og raunar dáðst að því hve lengi þessi rammpólitíski maður fór svo vel með stjórnmálaskoðanir sínar að maður varð þeirra varla var.

En í nýjasta tölublaðinu stendur eftirfarandi klausa:

"Lof vikunnar fá landsfundarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fyrir frumlega kímnigáfu. Hvað er hægt annað að segja um hóp fólks sem leggst á bakið í hláturskrampaköstum yfir eineltisbröndurum mannsins sem erlendir fjölmiðlar setja í 19. sæti yfir helstu orsakavalda heimskreppunnar?"

Nú vill svo til að ég botnaði lítið í þessum hlátursköstum. Mér þóttu brandarar Davíðs, þeir sem ég heyrði í sjónvarpinu, ekki sérlega fyndnir og raunar hálf-ósmekklegir. En ennþá ósmekklegra finnst mér að nota orðið "einelti" þó að Davíð svari endrum og sinnum fyrir sig. En ef við leyfum okkur að nota það orð frjálslega að sinni mætti segja að fáir hefði fengið stærri skammt af pólitísku einelti á síðari árum en hann - nema kannski Geir Haarde. Ætli ekki megi grafa upp, með lítilli fyrirhöfn, nokkra "eineltisbrandara" úr safni Steingríms Joð, Bjarnar Vals og Marðar Árnasonar, svo nokkrir séu nefndir. En kannski heitir það ekki "einelti" ef fórnarlambið er "á rangri hillu" í pólitík?

Og að Davíð skuli vera talinn einn af helstu orsakavöldum heimskreppunnar er auðvitað stórkostlegasti brandarinn af þessu öllu saman. Skyldi hann hafa verið fyrir ofan seðlabankastjóra Tonga eða forsætisráðherra Gíneu-Bissá? Mikill er máttur okkar Íslendinga.


Frá hinu opinbera

Áhrifakona í íslensku samfélagi segir dapurlegt að réttarhöldin yfir nímenningunum séu einu réttarhöldin sem eitthvað kveði að eftir hrunið.

Mér finnst alveg einboðið að hún geri eitthvað í þessu máli. Hún var nú einu sinni áhrifakona þegar allt hrundi svo að það ættu að vera hæg heimatökin ... eins og Bretinn segir: Charity begins at home.

Ætli hún hafi ekkert áttað sig á því hvað þessi ummæli voru klaufaleg? Æ, skrumið lætur ekki að sér hæða.

Og svo ætlar kumpáni hennar, strákurinn á kassanum, að vinda ofan af leigu erlends fyrirtækis á nýtingarrétti á íslenskri auðlind. Jæja. Meistari lýðskrumsins lætur ekki að sér hæða. Það er nú gott að hann getur spillt fyrir atvinnulífi víðar en í sínu eigin kjördæmi. Hann verður a.m.k. seint sakaður um kjördæmapot, blessaður.


Skemmtileg brella bæjarstjórnarmeirihlutans

Mikið asskoti rakst ég á skemmtilega auglýsingu áðan.

Hún er um opinn íbúafund um staðsetningu nýs hjúkrunarheimilis á Akureyri, sem gamla bæjarstjórnin hafði á sínum tíma ákveðið að ætti að rísa í Naustahverfi.

Nú, þegar Framsóknar-/Þórslisti fólksins er kominn til valda, er skyndilega boðið upp á "val" um tvo staði. Hinn staðurinn er í heimafylki Odds Helga, formanns bæjarráðs - í Síðuhverfi.

Og hvar er fundurinn haldinn? Í Síðuskóla, auðvitað (enda verður þá meiri von til þess að íbúar Naustahverfis nenni ekki að mæta).

Hver er meðal framsögumanna? Títtnefndur Oddur Helgi. Enginn annar bæjar- eða varabæjarfulltrúi er þar á meðal.

Oddur Helgi greiddi ábyggilega atkvæði gegn því á sínum tíma að hjúkrunarheimilið risi í Naustahverfi. Það þóttu út af fyrir sig allmerkileg tíðindi því að Oddur Helgi sat gjarnan hjá við afgreiðslu mála. Gott ef hann strengdi þess ekki líka heit einhvern tímann á bæjarstjórnarfundi í umræðum um kirkjugarða að aldrei skyldi hann láta jarða sig sunnan Glerár. Guð hjálpi honum þegar hann gerist gamall ef hjúkrunarheimilið verður nú reist (langt!) fyrir sunnan á!

Ég bý í Naustahverfi en mér er hjartanlega sama hvort hjúkrunarheimilið rís í túnfætinum hjá mér eða í mýrinni við Vestursíðu. Ég veit hins vegar ekki hvort ég á að hlæja eða gráta þegar ég sé svona kostulega auglýsingu. Ný vinnubrögð? Má ég þá frekar biðja um þau gömlu! Vitaskuld er löngu búið að ákveða hvar byggingin á að rísa. Naustahverfi var út úr myndinni um leið og úrslit sveitarstjórnarkosninganna urðu ljós.

Mestu máli skiptir þó að þeir, sem þurfa á hjúkrunarrýmunum að halda, fái gott og vandað húsnæði á fallegum stað, þar sem þeim líður vel, og að þangað takist að ráða gott og hæft starfsfólk.

En með svona auglýsingu beinist athyglin enn og aftur frá nauðsyn hjúkrunarrýmanna og að hinni ráðvilltu bæjarstjórn okkar sem ætti nú eiginlega að ráða sér brellumeistara, ætli hún að halda áfram á þessari braut.

 


En Baugsmálið?

Ég er óttalega minnislaus og fljótur að gleyma. Það getur því vel verið að það sé misminni hjá mér að Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið í ríkisstjórn þegar viðamikil rannsókn fór fram á meintum skattalagabrotum Baugs og tengdra fyrirtækja. Líklega er það einnig misminni að Jóhanna Sigurðardóttir hafi þá kvartað yfir kostnaðinum sem fór í rannsóknina.

Það er gott að þetta er misminni hjá mér og að Jóhanna er eftir allt saman öflugur frömuður í skattrannsóknarmálum.


mbl.is Hundraða milljarða skattsvik
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Engin framsókn í skipulags- og samgöngumálum á Akureyri?

Illa líst mér á úrslitin í prófkjöri Framsóknarflokksins fyrir bæjarstjórnarkosningarnar á Akureyri. Smölun KA-manna hefur greinilega gengið vel og skilað sér því að í efstu sætin raða sér gallharðir KA-menn. Það er svo sem gott og blessað og allt er þetta indælisfólk nema hvað lítil von verður til þess að hagrætt verði í rekstri íþróttafélaga á næstunni þannig að þau verði sameinuð eða að hætt verði að ausa fé í uppbyggingu fullkominnar fótboltaaðstöðu á mörgum stöðum í bænum.

Enn verra er þó að innvígðir og innmúraðir KA-menn eru yfirleitt svarnir andstæðingar Dalsbrautar og þar með andvígir nauðsynlegum framförum í skipulags- og samgöngumálum í bænum. Dalsbraut er Naustahverfi t.d. lífsnauðsynleg. Ljóst er að sem íbúi í Naustahverfi og áhugamaður um skynsamlega notkun útsvarstekna mun ég hafa af því talsverðar áhyggjur ef framsóknarmenn komast til áhrifa í bænum á ný.

Vonandi eru þær áhyggjur óþarfar og tekið skal fram að sá sem þetta ritar er ekki Þórsari og hefur engar taugar til þess félags fremur en KA.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband