Færsluflokkur: Bloggar
31.10.2007 | 13:33
Karlsvagninn
Verða þá sérstakir vagnar fyrir karla? Hvað þá um hommana? Eða eru engir slíkir þarna frekar en í Íran? Er öruggt að konurnar verði óhultar fyrir fjölþreifnum lesbíum? Segið mér að þessi frétt sé grín ...
![]() |
Einungis fyrir konur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
31.10.2007 | 08:45
Styr?
Ég las það í frísnepli í gær að nokkur styr stæði um bæjarstjóra Akureyringa. Kannast lesendur við bæjar-, sveitar- eða borgarstjóra sem ekki stendur styr um? Ekki ég. Fólk í svona starfi er alltaf umdeilt. Það er einfaldlega bara þannig.
Í blaðinu stendur líka að margar óánægjuraddir heyrist vegna ákvarðana Sigrúnar Bjarkar bæjarstjóra. Í fyrsta lagi er ég ekki alveg sannfærður um að Sigrún Björk taki allar hinar umdeildu ákvarðanir ein. Í öðru lagi held ég að allar ákvarðanir séu í eðli sínu umdeilanlegar. Það er voðalega erfitt að hafa alla ánægða. Ekki síst þegar maður er bæjarstjóri. Þess vegna blæs ég á svona fullyrðingar.
Bæjarstjórn mun hafa lækkað greiðslur til þeirra foreldra sem þurfa á dagmæðrum og -feðrum að halda. Í klausunni er því haldið fram að foreldrum þessum gremjist að á sama tíma sé miklum fjárhæðum mokað í menningarhús sem hafi farið langt yfir þann kostnað sem áætlaður var í upphafi.
Ég ætla nú að vera svo róttækur - eða afturhaldssamur, eftir atvikum - að halda því fram að foreldrar ungra barna þurfi ekki allir á dagforeldrum að halda. Ekki yrði ég hissa þótt ein fyrirvinna dygði í nokkrum tilfellum - en þá þarf kannski að skipta nýja lúxusjeppanum út fyrir ársgamlan fólksbíl, selja vélsleðann og sleppa litun og strípum annan hvern mánuð. Ég veit vel að það er ekki í tísku að hafa litlu börnin heima, en það gæti verið ráð fyrir þá foreldra sem hafa efni á því og geta mögulega dregið úr neyslunni og lúxusnum. Þá verða líka til fleiri pláss hjá dagforeldrum fyrir þau ungbörn sem virkilega þurfa á því að halda að einhver annist þau á meðan pabbi og mamma vinna fyrir nauðþurftunum.
Menningarhúsið er umdeild framkvæmd en hún er komin af stað og ekki verður þar aftur snúið. Kostnaðarhliðina þekki ég ekki en veit að okkur Akureyringa vantar tilfinnanlega hljómleikasal. Ég vona bara að fleiri muni komast þar að en Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, þótt hún sé vissulega ágæt til síns brúks.
Húsbyggjendur hafa verið ósáttir vegna tafa á framkvæmdum og ýmsum skipulagsmálum, segir blaðamaður í klausu sinni. Er það svo? Ég þekki ekkert sveitarfélag þar sem ekki er óánægja meðal einhverra hópa, misjafnlega fjölmennra, með skipulagsmál. Sjálfur er ég hundóánægður með ýmislegt en harðánægður með annað. Ætli svo sé ekki um flesta, ef grannt er skoðað?
Í blaðinu er það einnig talið Sigrúnu Björk bæjarstjóra til lasts að hafa fengið Jóhannes í Bónus upp á móti sér. Bíðum nú við ... hvað er svona skelfilegt við það? Er tilvera og framtíð Akureyrar í voða ef Jóhannes í Bónus er ósáttur við bæjarstjórann? Það eru aldeilis völd og áhrif sem maðurinn hefur.
Ég sit ekki hér og skrifa til að verja gjörðir bæjarstjóra með kjafti og klóm. Síður en svo. Sigrún Björk er vissulega umdeild - en það var Kristján Þór líka og Jakob og Sigfús og Bjarni og nafni minn Bergs og þeir allir saman. Ég settist niður vegna síðasta atriðisins sem blaðamaðurinn nefnir.
Blaðamaðurinn heldur því nefnilega fram að bæjarstjórinn hafi meinað ungu fólki að koma í bæinn um verslunarmannahelgina.
Þvílíkt bull. Engum, sem hefur sæmilega hreinan skjöld, hefur verið meinað að koma til Akureyrar, að því er ég best veit, hvorki fyrr né síðar.
Blaðamennska af þessu tagi er engum sæmandi.
Og hananú.
Já, svo gerðust stórtíðindi í gær. Ég var sammála Ögmundi Jónassyni. Þetta er líklega í fyrsta skipti sem það gerist. Orð hans um forsetann og braskarana voru í tíma töluð og verða vonandi til þess að vekja umræður (þótt forsetinn hafi ekki áhuga á að taka þátt í þeim) og skoðanaskipti um hlutverk og störf forsetans.
30.10.2007 | 16:30
Madríd
Spánarferðin stutta var aldeilis hreint ágæt. Madríd er nokkuð skemmtileg borg þó að ég hafi ekki beinlínis heillast. Hún er dálítið skítug, eins og margar stórborgir, ruslið var svo sem ekki áberandi en víða mátti sjá merki um þvaglát manna og hunda og finna tilheyrandi óþef. Ekki var óalgengt að sjá betlara að störfum og heimilisleysingjar lágu sums staðar uppi við húsveggi. Jarðlestakerfi þeirra Madrídinga er hins vegar til fyrirmyndar, einfalt, skilvirkt og afskaplega snyrtilegt. Hótelið var prýðilegt (við brugðum okkur meira að segja í heilsulind þar, hjónakornin) og við vorum heppin með mat - kannski af því að við fundum strax góðan, amerískan veitingastað sem bauð upp á það besta í norður- og mið-amerískri matarmenningu. Mér finnst slíkur matur góður - miklu betri en tapas með hráu keti og misjafnlega velllukkaðar paeljur - og ég held mig gjarnan við það sem ég þekki vel og nýt þess að borða. Svona er ég nú lásí.
Í leikhúsum var m.a. verið að sýna "La Bella y la Bestia" og ballett frá Moskvu var í heimsókn. Við létum leikhúsin eiga sig, enda ekkert sérlega sleip í spænskunni, og sömuleiðis fékk fótboltinn frið fyrir okkur. Mér skilst reyndar að leikurinn, sem margir ferðafélaganna ætluðu að fara á, hafi verið færður. Feginn er ég að vera ekki knattspyrnuaðdáandi - ég hefði áreiðanlega orðið alveg brjálaður.
Við fórum hins vegar á tónleika með Van Morrison í gríðarstórri, nýrri íþróttahöll, Palacio de Deportes, og það var magnað. Karl byrjaði á slaginu átta, söng og spilaði með hljómsveitinni sinni fínu í einn og hálfan tíma - án þess að stansa og gaf fólki varla tóm til að klappa - og kvaddi síðan. Flutningurinn óaðfinnanlegur - hljómburðurinn frábær. Svona eiga tónleikar að vera.
Meira síðar.
25.10.2007 | 08:30
Spánn
Nokkurra daga hlé verður nú á bloggfærslu yðar einlægs þar sem hann er að hugsa um að skella sér í stutta Spánarferð eftir hádegi ásamt sinni ektakvinnu. Þetta verður í fyrsta skipti sem ég heimsæki Spán og þykir mörgum jafnöldrum mínum það merkilegur andsk... Ég er lítill sólstrandargæi og því stefnum við á höfuðborgina Madríd í fyrstu umferð.
Flogið er frá Akureyri og verður það óskaplegur munur, verði veður og vindar ekki til leiðinda og beini okkur suður til Keflavíkur. Ég hef einu sinni áður flogið beint utan frá Akureyri en það er langt síðan. Var þá mikið kraðak í litlu flugstöðinni okkar, en hún hefur verið stækkuð síðan og ætti því að vera óþarft að þjást af kremjuótta nú.
Ég hlakka til. Ferðin verður stutt en við erum ákveðin í að nota hana vel. Hvorki til stórinnkaupa né rútuflandurs, heldur bara til að lalla um, skoða hús og menn, njóta góðs matar og - jú, á laugardagskvöldið eigum við miða á tónleika með Van Morrison í einhverri geysistórri, nýrri íþrótta- og konserthöll. Það verður ekki leiðinlegt, það er ég viss um.
Amma barnanna verður hjá þeim á meðan og ég er sannfærður um að ekki munu leiðindin þjaka þau heldur.
22.10.2007 | 10:46
Nornabrengl
Í gærkvöldi horfði ég á Glæpinn (Forbrydelsen), mér til mikillar ánægju. Þessir þættir lofa sannarlega góðu, enda hafa þeir notið mikilla vinsælda í Danmörku og víðar. Sérstaklega hef ég gaman af því hvað Sofie Gråböl nýtur sín í hlutverki lögreglukonunnar Lund.
Í gær vakti sérkennileg þýðing þó svo mikla athygli mína að ég var í hálfgerðu losti lengi vel. Munaði minnstu að ég tapaði þræðinum fyrir vikið! Í þættinum barst í tal norn ein ágæt úr Andrésblöðunum, Maddama Mimm (Madam Mim), sem myndin er af hér til hliðar. Þýðandinn þýddi "Madam Mim" hins vegar sem "Hexía de Trix".
Hexía er allt önnur norn, mun illskeyttari og slægari en Mimm, sem alla jafna er dagfarsprúð, geðgóð og dálítið mistæk. Ég veit ekki af hverju þýðandinn kaus að fara þessa leið, en e.t.v. er vankunnáttu í Andrésfræðum um að kenna. Ef til vill er þýðandinn of ungur til að muna eftir dönsku Andrésblöðunum, en þar var Maddama Mimm tíður gestur.
Alla jafna skiptir svona nokkuð litlu máli. Norn er jú norn. En í samhengi þáttarins í gærkvöldi gæti það skipt býsna miklu hvort á ferðinni var Maddama Mimm eða Hexía de Trix. Það á eftir að koma í ljós.
Hvernig er annars hægt að fá vinnu við þýðingar úr dönsku án þess að vera sæmilega vel að sér í Andrési önd?
19.10.2007 | 09:01
Æði
![]() |
Forseti Íslands fær umhverfisverðlaun Norðurslóða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.10.2007 | 12:57
Gripasýning?
![]() |
Landbúnaðarnefnd leggst gegn nektardansi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
16.10.2007 | 20:16
Fáar betri
Kirsten Dunst er afbragðsleikkona og hefur líka það sem næstmestu máli skiptir: há kinnbein! Ég get vel séð Dunst fyrir mér í hlutverkinu, enda Debbie e.t.v. orðin fullroskin til að leika sjálfa sig á yngri árum.
Deborah Harry er reyndar nokkuð afkastamikil leikkona og var t.d. óborganleg í gömlu útgáfunni af Hairspray um árið. Nú leikur hún gjarnan ömmur ... og ferst það vel úr hendi.
Þegar þetta er skrifað er nýjasta lag kerlu, Two Times Blue, á spilaranum hérna til vinstri. Það er af nýju sólóplötunni hennar, sem fengið hefur misgóða dóma.
![]() |
Kirsten Dunst leikur Debbie Harry |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.10.2007 | 22:32
Óvitar
Jæja, þá dreif ég mig loksins á Óvita í kvöld ásamt yngri syni mínum. Ætlunin var að sjá leikritið um síðustu helgi en þá fékk piltur gubbupest og við feðgarnir vorum því heima meðan aðrir í fjölskyldunni brugðu sér í leikhús.
Þetta var bráðskemmtileg sýning. Börnin standa sig geysilega vel - voru alveg frábær - en ekki heyrði ég þó hvert orð sem þau sögðu eða sungu. Fullorðnu leikararnir eru afskaplega skemmtilegir, Guðjón Davíð eins og sniðinn í hlutverk Guðmundar og Þráinn Karlsson óborganlegur í einu minnsta og óvenjulegasta hlutverki sínu á ferlinum.
Heildaryfirbragð sýningarinnar er ákaflega vel heppnað og varla hægt að ímynda sér að betur hefði verið hægt að gera. Smágaldrar setja nokkurn svip á sýninguna og vöktu mikla kátínu og umhugsun hjá syni mínum. Tónlist Jóns Ólafssonar rennur ljúflega í gegn en það vakti athygli mína þegar ég var á heimleið að ekki eitt einasta lag hafði náð að festast í huga mér. Ég veit ekki hvað það er við lög Jóns, mér finnst eins og þau vanti alltaf herslumuninn til að teljast virkilega góð. En þessi tónlist var fínn undirleikur við sýninguna og það sem ég heyrði af textunum var prýðilegt.
Þetta var sem sagt í alla staði hin besta skemmtun. Vel og fagmannlega unnin sýning sem allir aðstandendur hennar geta verið hæstánægðir með.
11.10.2007 | 17:25
Glaður
Mikið er ég glaður yfir því að borgarpólitíkin í henni Reykjavík skuli ekki koma mér við. Ég bý ekki þar og kaus ekki þar og þess vegna kemur mér ekkert við hver er borgarstjóri eða hvaða flokkar ráða ríkjum. En ef ég byggi þar myndi ég ekki vanda framsóknarmönnum kveðjurnar. Ætli þetta sé ekki bara lúaleg hefnd fyrir meint svik sjálfstæðismanna eftir síðustu þingkosningar? Það mætti segja mér að Guðni væri ekki búinn að fyrirgefa neitt, enda áreiðanlega afkomandi Guðrúnar Ósvífursdóttur. Gangi Birni Inga vel í þessu fjölflokksbrotasamstarfi. Ég er viss um að enda þótt sjálfstæðismenn séu áreiðanlega súrir yfir að hafa misst völdin í borginni séu þeir a.m.k. himinlifandi yfir að þurfa ekki að dansa eftir dyntum Björns Inga lengur.
Ég spái þessum nýja meirihluta ekki langra lífdaga. Og ég held að nýi borgarstjórinn sé lítið annað en masið. En, eins og ég segi, málið kemur mér ekki við ...