Færsluflokkur: Bloggar
9.10.2007 | 21:07
Big Daddy
Kaliforníusveitin spaugsama, Big Daddy, er sennilega ekki ýkja þekkt hér á landi - frekar en annars staðar. Hún var stofnuð árið 1983 og vakti fljótt athygli fyrir nýstárlegar, en yfirleitt sérlega skemmtilegar og vel heppnaðar, útsetningar af kunnum tónsmíðum. Árið 1985 komust þeir félagarnir t.d. inn á breska vinsældalistann með útgáfu af lagi Bruce Springsteen, "Dancing In The Dark." Útsetningin var fengin að láni úr gömlu lagi með Pat Boone, "Moody River". Útkoman er á spilaranum hérna til vinstri. Ég reyni að endurnýja lögin þar reglulega og hafa þau svona hvert úr sinni áttinni.
Ekki veit ég hvort félagarnir í Big Daddy eru enn að. Þeir eru ekki afkastamiklir og plötur þeirra ekki auðfundnar. Margt er á huldu um þessa ágætu æringja, en þeir segjast sjálfir hafa stofnað hljómsveitina á sjötta áratugnum. Þeim var hins vegar rænt, segja þeir, af skæruliðum frá Laos þegar þeir voru að skemmta bandarískum hermönnum í Víetnam á sínum tíma og skæruliðarnir voru vitaskuld svo hrifnir af tónlist þeirra að þeir fengust ekki til að skila þeim fyrr en 1983!
Ég þekki menn og konur sem ég væri alveg til í að losna við næstu þrjátíu árin eða svo. Ætli þessar skæruliðasveitir séu enn starfandi?
9.10.2007 | 11:15
Súlur?
7.10.2007 | 16:39
Bretar vita sínu viti
Þetta val kemur mér ekki á óvart. Ég hef aldrei haft dálæti á laginu "Ebony And Ivory" og hefði sennilega greitt því atkvæði í sams konar kosningu hér á landi. Dúett McCartneys og Jacksons er heldur ekki góður og ekki er ég hrifinn, frekar en Bretinn, af Litla trommuleikaranum með Bing og Bowie - kannski af því að mér finnst þetta fallega lag alltaf best með Bing einum og sér.
"Save Your Love" ætti hins vegar ágætlega heima á lista yfir fyndnustu dúettana. Íslenska útgáfan, með Magnúsi Ólafssyni og Þuríði Sigurðardóttur, er ekki síðri að því leyti.
Ekki veit ég hvaða ágæta fólk er þarna nefnt í sömu andrá og lagið "You're The One That I Want," en auðvitað er það alltaf best með þeim Jóni og Ólafíu. Það kemur mér hins vegar á óvart að þarna skuli ekki sjást nöfn á borð við Barbru Streisand, Elton John og Frank Sinatra - það ágæta, en mistæka fólk, á sennilega heima á báðum listunum ...
![]() |
Ebony & Ivory valinn versti dúett sögunnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.10.2007 | 08:31
Innihald: Kúadelluvanilla ...
Ja, það er eins gott að huga vel að því hvaðan vanillan manns kemur. Gæti MS e.t.v. lækkað verð á jógúrt, skyri og ís með því að kanna hagkvæmni innflutnings á kýrrassavanillu? Eða er þetta kannski tilvalið sóknarfæri fyrir íslenska kúabændur og jafnvel efni til næstu stóriðjuáforma á Íslandi?
Mér datt í hug erindi úr kvæðinu Mýsuð eftir Örn Arnarson, þar sem horft er á heiminn frá sjónarhóli flugna:
Hver kúadella er kostaland. / Þá kenning er skylt að boða / að jörðin sé skítur, hafið hland / og himinninn keytufroða.
Hvað skyldi annars hafa orðið af dúettinum misheppnaða, Milli Vanilli? Það var nú meiri (kúa)dellan á sínum tíma.
![]() |
Samkynhneigðarsprengja" hlýtur Ig Nóbelsverðlaun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
2.10.2007 | 21:18
Skegg
Ég hef verið skeggjaður í fimmtán ár eða meira. Börnin mín hafa sjaldan séð mig skegglausan, nema við afar hátíðleg tækifæri og ég hef jafnharðan leyft skegginu að vaxa aftur. Þó hefur það aldrei orðið neitt í stíl við skegg Sveinbjarnar Beinteinssonar, þess skeggprúða goða, heldur er skeggið á mér svona í George Michael- og Steingríms J.-stílnum alla jafna. Konan mín vildi á sínum tíma ekki að ég safnaði skeggi en getur nú, held ég, ekki hugsað sér að ég vappi um veröldina nauðrakaður.
Ég var að strjúka á mér nýslegið skeggið áðan og fór þá að hugsa um hvað ég væri heppinn. Ég mætti ekki til þess hugsa hvernig mér liði ef mér sprytti ekki grön. Sannfærður er ég um að skeggið mitt hefur oft forðað mér frá því að falla í pytt svartsýnis, þyngsla og almenns doða ... það er einfaldlega svo óskaplega róandi, gleðjandi og andagiftaraukandi að strjúka á sér skeggið. Meira að segja broddar duga ágætlega.
Konur hafa fæstar skegg til að státa af - þótt hún amma mín hafi haft örlítinn ljósan hýjung á efri vörinni, sem mér þótti afar merkilegur þegar ég var barn - en ætli sítt hár komi ekki í sama stað niður? Ég sé a.m.k. konur oft snúa upp á hárið á sér og fikta í því þegar þær þurfa mikið að hugsa.
Er það kannski þess vegna sem ég er með skegg? Af því að ég hef ekkert hár til að snúa upp á? Á þessu hlýtur að vera til einhver gagnmerk sálfræðiúttekt, það er ég viss um ...
27.9.2007 | 17:28
Oft er það gott...
Á fyrri hluta áttunda áratugarins, þegar útvarpsstöðin var auðvitað bara ein, var á dagskránni þáttur sem hét Tíu á toppnum. Umsjónarmaðurinn hét Örn Petersen og þátturinn var vinsældalisti síns tíma. Ég er ekki í nokkrum vafa um að þátturinn naut gríðarmikillar hlustunar. Að minnsta kosti sat ég límdur við útvarpstækið þegar hann var sendur út og það gerðu allir mínir vinir og kunningjar líka.
Um það leyti sem þátturinn góði (og alltof skammlífi) rann sitt skeið á enda voru á toppnum tveir sómamenn, þeir Albert Hammond og Lobo. Albert er tvítyngdur, jafnvígur á spænsku og ensku, og hefur lengi notið vinsælda í hinum spænskumælandi heimi. Hann var hins vegar ekki stjarna nema skamma hríð og langþekktastur fyrir lag sitt "It Never Rains in Southern California". Albert er enn að, fékk orðu frá Bretadrottningu fyrir nokkrum árum fyrir störf sín að tónlistarmálum, og sendi nýlega frá sér plötu eftir langt hlé. Sonur hans og nafni er þekktur gítarleikari (Strokes).
Lobo heitir Kent Lavoie réttu nafni, er af indíánaættum og varð líka skammlífur á stjörnuhimninum. Kunnasta lag hans heitir "I'd Love You To Want Me". Árið 1975, þegar Tíu á toppnum kvaddi (ef minnið svíkur mig ekki), var skin þeirra Alberts og Lobos á stjörnuhimninum mjög tekið að dofna. Ég hef, að gamni, sett hér inn á spilarann lögin sem voru númer 1 og 2 daginn sem Örn Petersen tilkynnti að þættirnir Tíu á toppnum yrðu ekki fleiri. Ég get þó ekki fyrir mitt litla líf munað hvort lagið var í fyrsta sæti. Það gerir heldur ekkert til. Þetta eru létt lög og melódísk - kannski örlítið væmin, en gerir það nokkuð til?
25.9.2007 | 18:51
Na na na
Eitt allra vinsælasta - nei, allra vinsælasta lagið í sögu æskulýðsheimilisins (síðar félagsmiðstöðvarinnar) Dynheima á Akureyri á árunum 1974-1984 (og kannski lengur) var Na Na Na með trommuleikaranum Cozy Powell. Cozy þessi hét réttu nafni Colin Flooks, fæddist á Englandi árið 1947 og er af mörgum talinn einn allra færasti trommuleikari sinnar samtíðar. Hann er trúlega þekktastur fyrir spilamennsku sína í hljómsveit Ritchies Blackmore, Rainbow. Cozy Powell lést í bílslysi árið 1998.
Ekki er mér kunnugt um að Na Na Na hafi náð viðlíka vinsældum annars staðar í heiminum. Þetta var hálfgert einkennislag Dynheima í a.m.k. áratug ekkert lag var spilað jafnoft, ekki einu sinni útgáfa Showaddywaddy af Under The Moon of Love, sem þó var svo sannarlega vinsæl. Dance With The Devil er áreiðanlega þekktasta lagið sem Cozy sendi frá sér á sólóferlinum, en varð aldrei jafn vinsælt í Dynheimum og einfalda lagið með einfalda nafninu: Na Na Na.
Í kvöld verður opnuð ný félagsmiðstöð fyrir unglinga í gamla Barnaskóla Akureyrar, fallegu húsi sem setur mikinn svip á bæinn. Ég hitti forstöðumanninn áðan, sem er gamall Dynheimaunglingur, og þá rifjaðist svo margt upp fyrir mér sem ég hafði ekki hugsað um lengi. Til dæmis Cozy Powell og Na Na Na. Þá uppgötvaði ég að ég hafði aldrei haft hugmynd um hver söng lagið, en vissi að Cozy hafði ekki gert það sjálfur. Nú veit ég að það var gamall félagi hans, Frank Aiello. Höfundur lags og texta er John Cameron.
Meira um Cozy og Dynheima síðar (það er ég viss um).
23.9.2007 | 11:25
Pabbar og prinsessur
Í gær fór ég á tveggja tíma námskeið (og tæplega það) sem hét "Pabbar og prinsessur" og þar átti að kenna okkur feðrunum að flétta hár dætra okkar og greiða það með ýmsum hætti. Ég hlakkaði til að fara, enda hef ég lengi ætlað mér að læra eitthvað í þessa veru og löngum horft öfundaraugum á þá feður sem greiða dætrum sínum eins og það sé einfaldasta verk í heimi.
En námskeiðið olli mér talsverðum vonbrigðum, því miður. Þarna var ein kona að leiðbeina okkur körlunum (ætli við höfum ekki verið 10 talsins) og fyrir menn eins og mig, sem eru ríkulega útbúnir af þumalfingrum, er það alltof lítið. Ég hélt að þarna yrðu fleiri leiðbeinendur og hefði í rauninni aldrei farið á námskeiðið ef ég hefði vitað að leiðbeinandinn yrði aðeins einn, hvað þá borgað 3500 krónur fyrir.
Mér fannst námskeiðið því miður alls ekki peninganna virði. Vitaskuld lærði ég örlítið um fléttugerð og greiðslu en það var óttalegt smáræði og konan gat ekki með nokkru móti sinnt okkur öllum eins og skyldi. Ég er því litlu betur staddur í hárgreiðslunni en ég var áður. Og dóttir mín er ekki síður vonsvikin en ég, enda eyddum við talsverðum tíma í bið og ekki neitt.
Áður en næsta námskeið er skipulagt verður hágreiðslustofan að sjá til þess að leiðbeinendur séu fleiri eða þátttakendur færri. Það verður að mínum dómi að vanda betur til verks næst, ef meiningin er að endurtaka leikinn og eru feður hér með varaðir við að láta glepjast af gylliboðum af þessu tagi.
21.9.2007 | 11:54
Dularfulla eyjan, enn og aftur
"Bahamas eða Viðey?" stendur stórum og áberandi stöfum á heilsíðuauglýsingu Spron í dagblöðum í dag. Hjá mér er valið alls ekki einfalt. Ég hef nefnilega ekki hugmynd um hvað þetta Bahamas er.
Eða hvað?
Jú, fyrir viku eða svo horfði ég reyndar á mynddisk með börnunum mínum þar sem þýðandinn minntist eitthvað á Bahamas-eyju.
Og nú er spurningin, af því að ég er farinn að ryðga í landafræðinni: Er Bahamas-eyja við Ísland? Trúlega þá nálægt Reykjavík, fyrst Spron lætur hennar getið í auglýsingum sínum. Eru eyjarnar á Kollafirði kannski fleiri en mig minnti?
Væri ég viðskiptavinur Spron veldi ég hiklaust Viðey, bara vegna þess að hana þekki ég. Ég hef meira að segja komið þangað.
Bahamas þekki ég hins vegar ekki og ég er alltaf soldið nervös við hið óþekkta ... Skyldi eyja þessi annars draga nafn sitt af Bahamaeyjum við austurströnd Flórídaríkis?
20.9.2007 | 21:53
Skipt um barn
Í dag skiptum við hjónin um barn. Já, hann sonur okkar er orðinn stór og genginn úr vistinni svo að við tókum því með þökkum þegar okkur var boðin telpa í staðinn. Nú eigum við allt í einu tvo stráka og tvær stelpur, en ekki þrjá stráka og eina stelpu.
Og hvar er slíkan skiptimarkað með börn að finna? Er kannski eitthvað til sem heitir Barna- og unglingabúð Akureyrar? Eða fórum við kannski til einhvers þróunarlands, þar sem stúlkubörn eru óvelkomin, og keyptum okkur hnátu fyrir slikk?
Nei, það er engin slík dramatík á ferðinni hér. Hann Li- Quan Wang, SOS-drengurinn okkar í Kína, er orðinn stór, hefur kvatt þorpið sitt og er farinn að vinna í verksmiðju. Um þetta fengum við bréf frá höfuðstöðvum SOS-barnaþorpanna í dag. En fyrst Li-Quan ætlar nú að verða stór og standa á eigin fótum var okkur boðið að taka að okkur tíu ára gamla indverska telpu í staðinn. Hún heitir Tincy Teresa og er glaðleg og snjöll stelpa, af myndinni að dæma.
Auðvitað er það snjall leikur hjá SOS-barnaþorpunum að hafa þegar útvegað nýtt fósturbarn (og mynd) áður en það "gamla" kveður. Það er ákaflega erfitt að segja nei. Í okkar tilfelli stóð það reyndar aldrei til. Það hefur verið gaman að styrkja Li-Quan og gera honum kleift að njóta menntunar og umhyggju sem hann hefði annars tæpast fengið. Ég vona að SOS-þorpið hans í Kína sendi okkur nýtt heimilisfang hans, svo að við getum haldið sambandi við hann, kæri hann sig um það.
Og við hjónin hlökkum mikið til að kynnast henni Tincy. Hún Erna okkar er himinlifandi yfir að hafa loksins eignast systur og strákarnir eru spenntir fyrir "nýja" barninu líka. Þvílík blessun að svona "ættleiðing" skuli vera möguleg.