Færsluflokkur: Bloggar

Góðir krakkar

Ég fór í sund í morgun, eins og ég geri gjarnan á sunnudögum, og leiðin lá að venju í Glerárlaug, litlu perluna sem kúrir milli Þórsvallarins og Glerárskóla. Þegar þangað kom var óvenjumikill mannfjöldi á staðnum og fékk ég þær upplýsingar að á Þórssvæðinu færi fram fótboltamót. Þar sem Glerárlaugin er lítil og hvorki hátt til lofts né vítt til veggja í sturtum og klefum runnu á mig tvær grímur. Átti ég að snúa við og fara í Akureyrarlaugina eða láta mig hafa það?

Ég ákvað að fá mér sundsprett í Glerárlauginni og sé ekki eftir því. Þó að margt væri um manninn voru gestirnir, unglingar á að giska 12-15 ára, einstaklega ljúfir, þægilegir og tillitssamir. Þeir höfðu verið að keppa og voru að fá sér sundsprett og hlýja sér í pottinum (enda kalt í veðri) milli leikja. Ég spjallaði við nokkra drengi á leiðinni ofan í og upp úr og reyndust þeir hinir skemmtilegustu. Nokkrir þeirra voru merktir ungmennafélaginu Fjölni og geri ég ráð fyrir að þeir hafi allir verið liðsmenn þess. Ekki örlaði á frekju, yfirgangi, hávaða eða tillitsleysi. Mætti sumt fullorðið fólk taka sér þessa pilta til fyrirmyndar.

Þegar ég kom upp úr fór ég að hugsa um hvað unglingar eru í rauninni og upp til hópa gott fólk. Þetta fannst mér þegar ég kenndi í Gagnfræðaskólanum og vestur á Laugum í Sælingsdal og þetta finnst mér enn, þó að ég hafi minni tengsl við þennan aldurshóp nú en áður. Unglingar eiga skilið að komast oftar í fréttirnar fyrir allt það góða og gagnlega sem þeir leggja af mörkum til samfélagsins, en ekki bara þegar örfáir þeirra eru til vandræða eða missa dómgreindina. Margt fullorðið fólk er hálfhrætt við unglinga, enda geta þeir stundum verið svolítið fyrirferðarmiklir og hávaðasamir, en það er bara eðli þeirra. Unglingar eru gott fólk og skemmtilegt. Á það var ég minntur í dag.


Debbí rokkar

dharryÉg hef síðustu daga verið að sjúga inn í eyrun á mér nýtt lag með Deborah Harry, "Two Times Blue", sem er af væntanlegri sólóplötu hennar, "Necessary Evil". Mikið hlakka ég til að heyra allan gripinn þegar þar að kemur. Þetta lag er fínt - veldur trúlega engum straumhvörfum í sögu alþýðutónlistarinnar en er grípandi og tekur annað veifið óvænta stefnu. Auk þess hentar það rödd Harry afar vel. Harry virðist ekki hafa brugðið á það ráð að syngja gamla söngleikja- eða Gerschwinsmelli til að endurlífga feril sinn, eins og sumir tónlistarmenn sem komnir eru af allra léttasta skeiði, enda óþarfi. Debbie rokkar feitt.

Ég lét langþráðan draum rætast haustið 2005 og fór á tónleika með Blondie í Lundúnum. Það hafði lengi verið á stefnuskránni og ég varð ekki svikinn. En nú er Deborah Harry sem sagt að senda frá sér sólóplötu eftir 14 ára hlé - ef ég man rétt - og fyrsta lagið lofar góðu. Hinar plöturnar fjórar, "Koo-Koo", "Rockbird", "Def, Dumb & Blonde" og "Debravation" voru misjafnar, sú síðastnefnda seldist t.d. ekki vel og þótti almennt ekki merkileg afurð. Á öllum plötunum voru hins vegar góðir sprettir - ég vona bara að "Two Times Blue" sé ekki eini góði spretturinn á nýju plötunni.

Deborah Harry er 61 árs eða þar um bil - heimildum ber ekki saman um hvort hún er fædd 1945 eða 1946. Það skiptir heldur engu máli. Konan sem ég sá á sviði í Lundúnum haustið 2005 var, þrátt fyrir að vera kominn af æskuskeiði, mun hressari og betur á sig komin en stúlkan Britney Spears eins og hún blasti við sjónvarpsáhorfendum á MTV-hátíðinni um daginn. Aldur er sannarlega afstæður.


Sex hundruð?

Ég var að lesa að veitingamaður hér í bæ hefði afhent bæjarstjóra lista með undirskriftum 600 manna sem krefjast þess að meirihluti bæjarstjórnar segi af sér vegna aldurstakmarka á tjaldstæðum bæjarins fyrstu helgina í ágúst.

Ég leit á netsíðuna, þar sem undirskriftum var safnað, skömmu eftir að söfnunin hófst. Þá blöstu vissulega við mér nöfn allmargra Akureyringa. Þarna var hins vegar líka fólk sem var að mótmæla undirskriftasöfnuninni eða hæðast að henni. Þá sá ég ekki betur en býsna margir þeirra sem lögðu nafn sitt við listann væru alls ekki búsettir í sveitarfélaginu og hefðu því alls engan rétt til að krefjast eins eða neins í sambandi við stjórn bæjarins. Mér dytti til dæmis ekki í hug að mótmæla framkvæmdum við Kársnes, væri ég mótfallinn þeim, einfaldlega af því að ég er ekki búsettur í Kópavogi. Um Reykjavík gegnir að sumu leyti öðru máli, enda er hún höfuðborg okkar allra, en ég hef samt engan rétt til að fara fram á afsögn meirihluta borgarstjórnar ef mér líkar ekki það sem hún hefst að.

Ég treysti því að veitingamaðurinn hafi vinsað þetta fólk úr og að eftir standi 600 sammála, sjálfráða heimamenn. 

Það er reyndar ekkert sérstaklega há tala ... er það?


Vanmáttur

Stundum finn ég sárt til vanmáttar míns og fákunnáttu þegar ég les fréttirnar. Ég veit til dæmis ekkert hvað um er að vera í viðskiptafrétt sem nýlega birtist á mbl.is undir fyrirsögninni Flöggun barst of seint. Ég skil ekki fyrirsögnina, enda hefði ég aldrei ímyndað mér að "flöggun" gæti borist eitthvert. Ég skil fréttina svo að Landsbankinn hafi auglýst sölu eða stært sig af henni, enda er það eina merkingin sagnarinnar flagga sem ég kann, fyrir utan það að skjóta upp fána.

Ég vissi ekki að til væru flöggunarskyld viðskipti, en á þau er minnst í fréttinni. Vonandi eru þau í samræmi við auglýsinga- eða fánalög.

Sem betur fer er mér ekki um megn að viðurkenna vanmátt minn gagnvart flöggun og fréttum af henni. Annars væri ég í vondum málum.


mbl.is
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mas?

Áðan las ég "frétt" um það á visir.is að hún Þóra í Stundinni okkar væri, eins og margir vissu (en ekki ég, enda fylgist ég ótrúlega lítið og illa með), búin að söðla um og ætlaði nú að selja húsið sitt við Framnesveginn. Hún dvelst nefnilega langdvölum á Bahamas.

Bahamas? Hvar er það?

Gæti hugsast að þetta séu Bahamaeyjar? Sem eru, ef ég man rétt, í Karíbahafi eða þar um slóðir (en ekki í Karabíska hafinu, sem ég hafði aldrei heyrt nefnt fyrr en fyrir fáeinum árum).

Lýkur þar með nöldri dagsins, enda sá sem þetta ritar farinn að hugsa hlýlega til Bahamaeyja eftir þessi skrif. Þar á ég nebbla gamla skólasystur, sem er víst orðinn einhvers konar yfirmaður í stórum og gildum banka... Ég ætti kannski að senda henni Rhondu tölvupóst við tækifæri og kanna hvernig ég geti best ávaxtað mitt rýra pund? Ég er a.m.k. viss um að þjónustugjöldin og dráttarvextirnir eru varla hærri þar en hér...

 

 


Augnsamband

Eitt af því mikilvægasta í umferðinni, sagði ökukennarinn minn mér forðum, er að reyna að ná augnsambandi við aðra ökumenn. Þetta er sérstaklega mikilvægt á gatnamótum, á hringtorgum og við aðrar þær aðstæður þar sem þú ert e.t.v. ekki alveg 100% viss um hvað annar ökumaður ætlar sér að gera, eða ef þú heldur að hann viti e.t.v. ekki hvað þú hyggst fyrir.

Þetta rifjaðist upp fyrir mér í morgun þegar aftur bárust fréttir af umferðarhnútum og hægagangi á götum Reykjavíkur. (Ástandið er svo sem ekki miklu betra hér á Akureyri, enda bílarnir hér alveg jafn margir, ef ekki fleiri, miðað við íbúafjölda, sbr. svifrykið sem hér eitrar fyrir bæjarbúum á veturna.) Ég hef tekið eftir því á síðustu dögum að það heyrir til undantekninga að aðrir ökumenn líti í áttina til manns í von um að ná augnsambandi, jafnvel á hættulegum stöðum. Eldri ökumenn eru þó skárri en þeir yngri.

Væri þetta ekki eitthvað sem yfirvöld umferðarmála gætu hamrað svolítið á? Ég er nefnilega sannfærður um það, eftir þrjátíu ár við stýrið, að gamli ökukennarinn minn vissi hvað hann söng. Um leið og tveir ökumenn ná augnsambandi eru þeir orðnir samherjar í umferðinni. Og þá verður þessi hundleiðinlega og stórhættulega einstaklingshyggja Íslendinga í umferðinni kannski ekki lengur allt að því sjálfsagður hlutur.


Nálgunarbann

Já, karli var barasta bannað að koma nálægt móður sinni. Eins gott að hún var búin að venja hann af brjósti. En hvað með köttinn? Var kauða ekki bannað að koma nálægt honum, hinu meinta og ætlaða fórnarlambi?

Ekki er öll vitleysan eins. Sem betur fer.


mbl.is Ákærður fyrir að hóta að ræna ketti móður sinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ian McShane

Ég hef ákaflega gaman af gömlum, vellukkuðum sjónvarpsþáttaröðum. Ein slík hefur verið sýnd á DR á undanförnum mánuðum og ég var einmitt að horfa á þátt úr henni fyrr í dag. Þættirnir eru breskir, nefnast "Lovejoy" og fjalla um samnefndan fornmunasala sem stundum er á gráu svæði hvað venjubundnar kaup- og söluaðferðir snertir. Spennan í þáttunum er ekki ýkja mikil en húmorinn ágætur og þeir skarta, eins og flestir breskir sjónvarpsþættir, skemmtilegum aukaleikurum.

Sá sem leikur Lovejoy er enginn annar en Ian McShane, maður sem fæddur er í Manchester árið 1942. Hann hóf feril sinn í rómantískum hlutverkum, svo tóku við skapgerðarhlutverk og síðustu árin hefur hann slegið í gegn sem slúbbert í þáttunum "Deadwood". Fyrir leik sinn þar hefur hann m.a. fengið Golden Globe-verðlaun. Þótti ýmsum mál til komið að þessi ágæti leikari, sem kannski er ekki mesti stórleikari í heimi en stendur alltaf fyrir sínu, fengi almennilega viðurkenningu.

Ég hef gaman af svona körlum. Svipsterkum náungum sem hreinlega eiga skjáinn þegar þeir birtast á honum. Leika sér að því að skjóta yngri og frægari nöggum ref fyrir rass. Það er hrein unun að horfa á Ian McShane sem Lovejoy, þó að þættirnir séu ekkert óskaplega merkilegir og svolítið farnir að eldast (þeir voianmcru gerðir á 9. áratugnum). Svona eiga góðir sjónvarpsleikarar að vera.

 

 


Potturinn og pannan

Á leiðinni til höfuðborgarinnar í síðustu viku tókum við hjónakornin eftir skilti á Blönduósi, skammt frá N1, með merki Pottsins og pönnunar, þess gamla og sívinsæla veitingastaðar við Skipholtið í Reykjavík. Hvað var þetta skilti að gera þarna?

Við ákváðum að kanna málið á leiðinni til baka og það má með sanni segja að Húnvetningar hafi komið okkur hressilega og ánægjulega á óvart. Á Blönduósi var nefnilega nýverið opnað "útibú" frá Pottinum og pönnunni. Það er til húsa í gamalli vélsmiðju, skínandi vel innréttaður staður og allt viðmót kokks og þjónustufólks hið notalegasta. Maturinn sveik ekki. Á boðstólum eru klassískir Potts- og pönnuréttir ásamt fleiri girnilegum réttum, auk hamborgara og þvíumlíks. Barnamatseðillinn er prýðilegur og verðið er hreint ekki svo slæmt.

Ég vona að þetta sé aðeins upphafið að breyttum matarvenjum Íslendinga sem ferðast um þjóðvegi landsins. Að skyndiborgararnir og það sem þeim fylgir fari að láta undan síga fyrir hollari og vandaðri mat. Við fjölskyldan ætlum svo sannarlega að koma aftur við á Pottinum og pönnunni á Blönduósi og vonandi lifir staðurinn sem allra lengst, því að hann lofar vissulega góðu.

Hvernig væri að fá Lauga-ás í Hrútafjörðinn og Greifann (með sinn ljúffenga saltfisk) supaí Skagafjörð?


Ojæja

Hjólreiðarnar hafa áreiðanlega sitt að segja, en best gæti ég trúað að reykingar þeirra dönsku skiptu jafnvel enn meira máli við að halda meðalþyngdinni niðri þar í landi...


mbl.is Íslenskar konur þyngri en þær dönsku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband