Færsluflokkur: Bloggar

Mikil er ábyrgð alríkislögreglunnar

Getur hugsast að takmarkaðir leikhæfileikar og hækkandi aldur heljarmennisins, ásamt dvínandi áhuga bíógesta, hafi eitthvað að segja?
mbl.is Drap FBI feril Stevens Seagals?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veður

Ég tölti í sund í hádeginu. Í Glerárlaug, litla perlu með dásamlegum pottum. Átti svæðið.

Veðrið var dásamlegt. Gerist ekki betra. Hlýtt, sólarlaust, sunnanandvari... eftirlætisveðrið mitt. Ég er ekki mikill sólarinnar maður, þá verð ég latur og nenni engu, allra síst að liggja í sólinni! Síðdegis fór svo að rigna. Það var yndislegt líka, það rigndi lóðrétt og rigningin var hlý, en það er frekar óvenjulegt hér nyrðra. Venjulega rignir hér í norðanátt og þó að oft rigni lóðrétt er úrkoman oftast köld.

Akureyringar eru stundum sagðir montnir af veðrinu hjá sér og það fer í taugarnar á mörgum. Sjálfur held ég að það sé fjarri lagi að halda því fram að alltaf sé gott veður á Akureyri. Veðrið hér er hins vegar sjaldan mjög vont. Það getur að vísu gert andsk... harða sunnan- og suðvestanátt, en úr öðrum áttum er hann sjaldan hvass. Kaldbakur og hin fjöllin skýla okkur ágætlega fyrir hörðustu norðanáttunum. Vaðlaheiðin lokar á austanáttina. Á Akureyri getur kyngt niður snjó og orðið ári kalt, líka á sumrin þegar hann leggst í norðrið, en hér er sjaldan slagveður. Ég hef búið á Suðvestur- og Vesturlandi og fann muninn þegar ég fluttist aftur hingað norður: á Akureyri verður sjaldan mjög vont veður, sjaldnar en víða annars staðar. Það er hins vegar hrein og klár haugalygi að veðrið hér sé alltaf gott.

Gamall vinnufélagi minn óskapast mikið þegar sumrin eru ekki sólrík og segir þá gjarnan að þetta sé ekkert sumar! Gildir þá einu þótt hitastig sé vel yfir meðallagi og ekki hafi gert nein hvassviðri eða norðanskít. Sumarið í ár verður eflaust ekki það besta hér nyrðra í manna minnum. En mér finnst það bara hafa verið ágætt hingað til. Það hefur a.m.k. ekkert snjóað, og það kallast nú stundum gott...

agureyri


Besti auðjöfurinn!

Alveg ætlaði ég vitlaus að verða úr hlátri þegar ég opnaði Fréttablaðið í morgun og sá að þar var heil síða lögð undir "álitsgjöf" um það hver væri besti auðmaður Íslands! Í fyrstu fannst mér sem myndirnar á síðunni gæfu til kynna að þarna væri um einhvers konar brandara að ræða, en þegar ég fór að lesa kom í ljós að hér var á ferð rammasta alvara. Meðal álitsgjafanna var sæmilega virðulegt fólk, en ég verð nú að segja eins og er að mér finnst svona vitleysa frekar eiga heima á síðum fyrirsagnatímarita á borð við Séð og heyrt en í dagblaði sem dreift er á mörg heimili og vill láta taka sig alvarlega.

Ég efa hins vegar ekki að þeir Björgólfsfeðgar og Jóhannes "White Fence" Jónsson eru ágætlega að þessu komnir. Í einfeldni minni finnst mér svona leikur bara í besta falli svolítið ósmekklegur og dálítið hlægilegur, í versta falli móðgun við þá sem minna mega sín og geta ekki séð af fé til líknarmála þótt þeir fegnir vildu. En líklega er ég bara svona neikvæður, eins og fyrri daginn.

Kannski er gúrkutíð um að kenna. Það er ósköp lítið að gerast í rauninni, bara menningarnótt í Reykjavík, aflþynnuverksmiðja á Akureyri, olíuhreinsunarstöð við Arnarfjörð, gengislækkun krónunnar, ljósgeisli í málefnum geðfatlaðra barna og unglinga... er það nema von að blöð þurfi að fylla síður sínar af einhverju uppbyggilegra efni!

Ég treysti því að í Fréttablaðinu á morgun verði heil síða með umfjöllun um bestu öreiga Íslands. Hlakka til að sjá hverjir álitsgjafarnir verða.


Fásinnið

Ég er nú svo neikvæður að ég nennti ekki að horfa á þessi ósköp í sjónvarpinu. Löngu búinn að fá nóg af þessu sama, gamla liði sem spilar og syngur á öllum svona fíneríistónleikum sem haldnir eru á Íslandi. Sumir eru komnir býsna langt frá uppruna sínum, finnst mér, og heldur hefði ég viljað fá örlitla vaxtalækkun á lánið mitt heldur en enn eina tónleikana með Bubba, Bjögga, Palla og hinum í háaðlinum. Kaupþingi hefði verið nær að smala saman einhverjum skemmtilegum nýliðum úr hópi tónlistarfólks, t.d. fólki sem er á aldur við bankann, og gefa gömlu brýnunum frí svona einu sinni...

 


mbl.is Aldrei fleiri á Laugardalsvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamlar plötur

eltannjonStundum kemur yfir mig löngun og þörf til að hlusta á plötur sem ég hef ekki snert lengi. Undanfarna daga hef ég til dæmis verið að hlusta á gamlar LP-plötur með Elton John, sem ég hef haft mætur á í marga áratugi, enda hef ég fyrirgefið honum flest. Það er kannski helst diskóplatan frá '79 eða þar um bil sem mér gengur illa að hlusta á, en ég er nú svo skýtinn að mér finnast allar aðrar plötur með karlinum góðar. Líka þær "lélegu".

Ég hef aðallega verið að hlusta á plötur Eltons frá því seint á 8. áratugnum og þeim níunda. Sumir kalla þetta niðurlægingartímabilið hið fyrra (það seinna kom víst á tíunda áratugnum þegar hann sendi frá sér, í kjölfar vinsælda Konungs ljónanna, nokkrar rólegheitaplötur sem spekingar töldu ekki bera vitni um mikinn listrænan metnað). Í mínum eyrum á Elton John sér ekkert niðurlægingartímabil. Mér finnst hann alltaf góður. Og á þessum plötum, sem vissulega eru frábrugðnar því sem hann gerði í upphafi ferils síns og svo nú á allra síðustu árum, eru fínustu lög. Þau eru ekki öll jafngóð, enda varla hægt að ætlast til þess, en þessi tímabil Eltons eru að mínu áliti vanmetin og gimsteinarnir úr smiðju hans fleiri en margir vilja vera láta.

Ég fór sæll og glaður á tónleika Eltons á Laugardalsvelli fyrir sex árum eða svo. Ég fór þaðan sæll og glaður líka. Einhverjir hafa verið að býsnast yfir að þessir tónleikar hafi verið lélegir. Ekki veit ég hvað menn vilja. Hvað er betra en Elton einn með píanóinu sínu? Hann var í fínu formi, karlinn, og þó að ég hafi gaman af að sjá og heyra hann rokka (hann gerir alltof lítið af því nú orðið, blessaður) finnst mér hann ekki síðri þegar hann situr einn við flygilinn sinn og syngur með sínu nefi.

Elton er frábær. Líka þegar hann er "lélegur". Það er ekki öllum gefið.


Stolt

Sonur minn er mikill brettaáhugamaður, eins og sjá má hér. Er það nema von að maður sé stundum að rifna af stolti yfir börnunum sínum?

http://www.youtube.com/watch?v=drBb46ktDeo


Það er ekki hægt að leika mær

Nei, það er bara hreinlega útilokað, hvort sem mærin er feit eða ekki. Það er hins vegar mögulegt að Viktoría geti leikið mey. (Æ, þið verðið að afsaka, ég kenndi einu sinni íslensku...) Vona að stúlkan gæti sín á sólskininu vestrí henni Amiríku, það ku vera sérlega hættulegt... LoL
mbl.is Viktoría Beckham leikur feita brúðarmær
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einn dagur?

Mikið er nú gott að þetta skuli bara vera einn og einn dagur, nú orðið, í stað heilu áranna og áratuganna hér í eina tíð.
mbl.is Verðbólgudagur í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pipar og salt: In memoriam

Þá er ljóst að þátturinn litli, sem ég hef stýrt á Rás 1 síðastliðna vetur, er kominn undir græna torfu. Pipar og salt hljómar ei meir. Ég mun sakna þess svolítið að geta ekki lengur dustað ryk af gömlum plötum sem ég veit að svo margir hafa gaman af að hlusta á, en til þess gefst vonandi tækifæri seinna. Ég hef haft óskaplega gaman af þessu aukastarfi mínu, ekki síst vegna viðbragða hlustenda. En það er vandi að halda dampi og ef til vill var hreinlega kominn tími á karlrassgatið sem hér skrifar.utvarp

Aðstæður hafa líka breyst, ég skipti um aðalstarf í vor og verð fram eftir hausti að bisa við losa mig út úr næstsíðustu aukavinnunni, svo að verkefnaskorturinn þjakar mig ekki. Ég er ákaflega latur maður að eðlisfari en samt hef ég alltaf unnið miklu meira en ég hef ætlað mér. Kannski vegna þess að ég hef gaman af svo mörgu, kannski vegna þess að ég á stundum erfitt með að segja nei.

Samt get ég ekki neitað því að það eru dálítil vonbrigði að yfirmaður útvarpsins skuli ekki telja sér hag í því að hafa mig innanborðs, svona að jafnaði. Sjálfur veit ég í hjarta mínu að til eru margir verri útvarpsmenn en ég, þó að vissulega séu mjög margir miklu betri. Starfsmenn tónlistardeildar RÚV hafa lengi setið að músikhólfunum á Rás 1 og það er svo sem ágætt, þeim veitir ábyggilega ekkert af aukatekjunum, en þó að ég vilji ekki kasta rýrð á þetta ágæta fólk verð ég að játa að mér finnst klukkan hafa glumið á býsna marga fyrir alllöngu síðan. Það er of lítil hreyfing á fólki og þó að Rás 1 sé íhaldssamt útvarp - og eigi að vera það - er algjör óþarfi að láta hana staðna. Þess vegna var kannski ágætt, þó að ég hafi ekki staldrað lengi við, að ég skyldi fá reisupassann! Rás 2 hefur því miður fjarlægst alþýðu manna á síðustu árum en ég er vongóður um að Sigrún muni snúa þeirri þróun við og mér heyrist hún raunar byrjuð á því. Þar á bæ er misjafn sauðurinn, eins og gengur, og margir búnir að vera þar alltof, alltof lengi.

Ég hef lengi haft þá skoðun að hér á Akureyri vanti vandað og gott tónlistar- og viðburðaútvarp fyrir fullorðið fólk. Þeir sem eru sömu skoðunar - og vita um einhvern sem á peninga og er sömu skoðunar! - hafi endilega samband við karlrassgatið sem þetta skrifar! Netfangið mitt er einhvers staðar hér á síðunni...


Staur

Ég vona að ökumaðurinn geri sér grein fyrir því - ef ekki nú, þá með tíð og tíma - hvað hann var lánsamur að hafna á staur en ekki mannveru.
mbl.is Ók ölvaður á staur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband