Færsluflokkur: Bloggar

Heyr, heyr!

Svona eiga bæjarstjórar að vera.
mbl.is Ákvörðun um að banna ungmennum að tjalda tekin af illri nausyn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kinnroði

Það kemur fyrir - ekki oft, en stöku sinnum - að ég skammast mín fyrir að búa á Akureyri.

Í dag kom það fyrir tvisvar.

Í fyrra skiptið þegar ég sá grein eftir mann nokkurn, sem kallar sig "vin Akureyrarvallar", í Morgunblaðinu. Maður þessi kennir "aðkomumönnum" um allt það sem hann finnur þróun bæjarins til foráttu á undanförnum árum.

Svona viðhorf hefði átt að jarða með viðhöfn fyrir mörgum árum.

Í seinna skiptið þegar ég sá á netinu að fólk sem kallar sig "vini Akureyrar" ætlar að hefja undirskriftasöfnun þar sem krefjast á afsagnar bæjarstjórans - og einhverra fleiri bæjarfulltrúa, ef ég man rétt.

Ástæðan? Ja, hugsanlega tengist hún þeim þrjú þúsund hamborgurum sem slegið er upp á forsíðu DV í dag.

Hafa menn enga sómatilfinningu? Þetta er í besta falli aðhlátursefni.

Ég vona að "aðkomumenn" haldi áfram að láta að sér kveða í bæjarmálunum og stuðla að framförum og velsæld í bænum.

Auk þess legg ég til að verslunarmannahelgar verði lagðar niður.

 


Áreiti og áreitni

Eru áreiti og áreitni samheiti? Ég held ekki. Í mínum huga er kvenkynsorðið áreitni neikvætt orð og felur í sér einhvers konar yfirgang eða átroðning. Það er yfirleitt ekkert grín að verða fyrir kynferðislegri áreitni, til dæmis. Nágrannar geta sýnt áreitni og fyrir kemur að hún verður að hreinu og kláru einelti.

Áreiti er hins vegar hvorugkynsorð og getur verið hvort tveggja, jákvætt og neikvætt. Öll verðum við fyrir ýmiss konar áreiti allan liðlangan daginn. Kynferðislegt áreiti er til dæmis alls ekki endilega neikvætt og stundum ráðum við litlu um hvort við völdum því eða verðum fyrir því. Við verðum líka fyrir alls kyns áreiti af völdum lyktar, sjónar, heyrnar, o.s.frv. Áreiti er alls ekki alltaf af mannavöldum, en áreitni er það trúlega oftast nær, þó að dýr geti átt það til að vera áreitin líka.

Ilmvatnssteggur af konu sem situr fyrir framan mann í leikhúsi er ákaflega óþægilegt áreiti, en verður varla áreitni fyrr en kerla sprautar ilmvatninu framan í mann. Ilmurinn af nýbakaðri köku er hins vegar afskaplega notalegt áreiti.

Þess vegna hef ég soldið gaman af því þegar ég les eða heyri í fréttum að einhver hafi verið kærður fyrir kynferðislegt áreiti. Ætli býsna margir eigi þá ekki kæru yfir höfði sér fyrr eða síðar?

Og þetta var sem sagt helst í fræðsluhorni dagsins... Smile


Mývatn

Fjölskyldan brá sér í Mývatnssveit í gær og hafði þá ekki þangað komið býsna lengi. Veðrið var gott, örlítil gola hélt flugunni í burtu og sólin skein aðeins með köflum svo að ökuferðir milli áfangastaða urðu börnum bærilegar. Að frátöldum fremur dýrum og ekkert sérlega góðum hádegismat í kaffiteríunni á Seli (mamma var að vísu harðánægð með kjötsúpuna sína) var þessi ferð vel heppnuð í alla staði. Sveitin skartaði sínu fegursta og hvarvetna var tekið vel á móti okkur. Mývatnssveit er alltaf jafn falleg. Þess sjást þó víða merki að ferðamenn fara ekki að settum reglum og tilmælum, t.a.m. er átroðningurinn í Dimmuborgum og víðar greinilega mikill. Erlendir ferðamenn virðast mun verri en Íslendingar hvað þetta snertir. Þeir halda líklega að reglurnar og tilmælin séu einungis fyrir heimamenn!

Það vakti athygli okkar að hvergi var neinn að flýta sér. Það var óvenju afslappað andrúmsloft víðast hvar, hvort sem var við kassann í Strax eða Jarðböðunum, þótt á báðum stöðum væri mikið að gera. Við urðum ekki vör við neinn hraðakstur á leiðinni og hvergi bólaði á óþolinmæði eða geðvonsku.

Skánar kannski ferðamáti manna á Íslandi þegar líður á sumarið?


Hrópandi ósamræmi

Framkvæmdastjóri Einnar með öllu hefur víst tilkynnt að ekkert verði úr hátíðarhöldum um verslunarmannahelgi á Akureyri að ári ef útiloka á aldurshópinn 18-23 ára.

Ekki vissi ég að það væri í hans valdi að ákveða slíkt. Hélt í einfeldni minni að öðrum félögum væri frjálst að spreyta sig og að maður þyrfti að fá leyfi hjá bæjaryfirvöldum til hátíðahalda.

Bragi segir í viðtali við Fréttablaðið að hátíðin hafi verið stofnuð til að auka ferðamannastraum til bæjarins.

Eru ferðamenn það sama og ferðamenn? Ég held ekki. Þá "ferðamenn", sem hingað hafa fjölmennt um verslunarmannahelgar á undanförnum árum og sett svip sinn á bæinn, svo ekki sé dýpra í árinni tekið, kæri ég mig ekki um.

Bragi segir líka að það sé í hrópandi ósamræmi að loka þennan hóp úti núna en bjóða hann svo velkominn á heimavistir og stúdentagarða eftir mánuð.

Hvaða ósamræmi er það? Er þetta ekki svipað og að eiga kunningja, sem er velkominn í heimsókn þegar hann er edrú en ekki þegar hann er drukkinn? Þekkja ekki flestir einhvern slíkan mann eða konu?

Það er í hrópandi ósamræmi við þá ímynd Akureyrar, sem ég held að bæjarbúar vilji, að halda "hátíð" á borð við þá sem hér hefur liðist á undanförnum árum. Helgin í ár var ánægjuleg undantekning og ég fagna því ef frekari sukkveislur verða ekki haldnar í framtíðinni, svo að sannir ferðamenn geti gengið um bæinn og notið hans með heimamönnum.


Söngleysa

Bloggarar fara sumir mikinn í dag og óskapast út í söng og hljóðfæraleik Árna nokkurs Johnsen, sem ég veit svo sem ekki til þess að hafi gefið sig út fyrir að vera neinn sérstakur snillingur. Ég held að maðurinn megi syngja og spila fyrir sitt fólk í Eyjum án þess að verið sé að agnúast út í hann. Enginn er neyddur til að kaupa diskana hans og víða á landinu eru útvarpsstöðvar nægilega margar til að hægt sé að skipta ef hann hljómar í eyrum manna og þeir geta ekki hugsað sér að hlusta á hann.

Á sama tíma er mærður roskinn maður, sem stígur á svið í litlu þorpi austur á landi, rymur hátt og gefur frá sér samsafn óskiljanlegra búkhljóða. Þessi maður heitir Magnús og þykir fínn pappír meðal margra þeirra sem stundum þykjast þess umkomnir að kenna sauðsvörtum almúganum að meta tónlist. Ég hef aldrei skilið hvað það er við þennan mann sem fólki þykir merkilegt. Við lestur texta Megasar hefur mér t.d. sýnst snilld þeirra stórlega ofmetin þó að sumir séu vissulega góðir. Lagasmiður er hann fínn, en hann á ekki að syngja. Ég er bara svo skrítinn að ég geri þá kröfu til söngvara að a) þeir hafi einhverja rödd og b) það skiljist hvað þeir eru að segja.

Þess vegna kann ég ekki að meta Megas. Nema þegar hann semur tónlist fyrir aðra. Músikin hans í leikritinu hans Þorvalds, Lífið - notkunarreglur, var til dæmis fín. En þetta er bara mín skoðun og hana ætla ég að fá að hafa. Og hananú. Smile


Af fylkjum (sem hvergi finnast) og hvölum (sem finnast, sem betur fer)

Sé í sjónvarpsdagskránni auglýsta bíómynd á RÚV í kvöld. Hún heitir "Sunshine State" og þar er án efa átt við Flórída, enda gerast atburðir myndarinnar þar. Hins vegar nefnist myndin í íslenskri þýðingu "Sólskinsfylkið" og sú jafna gengur engan veginn upp. Það eru nefnilega engin fylki í Bandaríkjunum. Þar eru ríki. Þess vegna heitir landið Bandaríkin, en ekki Bandafylkin. Þó kann að vera að í þýðingunni sé vísað til einhvers annars sem tengist myndinni ... ef til vill sést herfylki vappa þar um í sólinni og blíðunni ... Ég bíð spenntur.

Var að horfa á endursýningu á fyrri hluta myndarinnar um búrhvalinn og lífshlaup hans frá árinu 1929. Frábærlega skemmtilegur þáttur og ekki bara dýralífsmynd heldur fræðsluþáttur um veður, jarðfræði, mannkynssögu og ýmislegt fleira í leiðinni. Hefði sannarlega ekki á móti fleiri þáttum af þessu tagi.


Sko til

Áðan var hringt í mig frá sjónvarpsstöð og ég beðinn að koma þeim sjónarmiðum á framfæri þar varðandi Eina með öllu sem ég hef lýst hér á blogginu. Ég sagði nei takk. Ekki vegna þess að ég þori ekki að standa með sjálfum mér og lýsa skoðunum mínum í fjölmiðlum. Síður en svo. Ég er sæmilega reyndur fjölmiðlamaður og er alls ekki smeykur við þá. Hins vegar tók ég þá ákvörðun fyrir mörgum árum, áratugum jafnvel, að koma ekki fram í sjónvarpi, hvert sem tilefnið væri. Sú ákvörðun stendur enn. Á þeim árum var ég að vinna hjá útvarpinu og uppgötvaði að það getur verið gott að vera sæmilega þekkt rödd og sæmilega þekkt nafn, en hafa óþekkt andlit! Auk þess koma skoðanir mínar oft fram í persónulegum greinum sem ég skrifa á www.akureyri.net og sá miðill hentar mér ágætlega (og ekki bara vegna þess að ég ritstýri honum!).

Þessu vil ég halda eins lengi og kostur er. Einhverjum þykir ég kannski ekki alveg nógu athyglissjúkur, en það verður þá bara að hafa það...


Hræsni?

Í fréttum RÚV áðan var viðtal við einn forsvarsmanna hinna svokölluðu Vina Akureyrar, sem halda hátíðina Eina með öllu. Þegar hann sagði að í bænum væru nú um helmingi færri gestir en í fyrra spurði fréttakonan: "Hverju kennirðu um?"

Þvílík spurning. Ég hefði spurt: "Hverju þakkarðu það?"

Ég vil að sjálfsögðu fá sem flesta gesti til Akureyrar - og sem flesta nýja íbúa - en mér er ekki alveg sama hverjir gestirnir eru eða hverra erinda þeir koma. Í dag var t.d. handtekinn maður á leið til Akureyrar með 100 skammta af LSD. Guði sé lof að hann komst ekki alla leið.

Ég býð alla gesti velkomna, sem geta hagað sér eins og fólk - en ef aldurstakmark er eina leiðin, þótt vond sé, til að bæjarbúar og friðsamir gestir geti sofið sæmilega rólegir þá verður bara að hafa það. Sama leið er farin víðar um þessa helgi, þótt það fari ekki eins hátt.

Lofuðu ekki allir flokkar því fyrir kosningar að framvegis yrði um friðsamlega fjölskylduhátíð að ræða í bænum um verslunarmannahelgar?

Kaupmenn og fyrirtæki, þ.á.m. lítil kaffihús á samgöngumiðstöðvum, hljóta að þrauka þrátt fyrir að gestir séu heldur færri. En það er nú líka gömul saga að gestirnir virka alltaf færri ef þeir eru friðsamir...


tjaldHér á Akureyri hefur verslunarmannahelgin verið fremur róleg það sem af er og líklega ljóst að "aldurstakmarkið" sem bæjarstjórn setti á tjaldstæðin hefur skilað sér. Fulltrúar græðginnar eru vissir um að þessi ákvörðun sé röng. Fulltrúar viðkomandi aldurshóps líka, þeir sem á annað borð hafa tjáð sig. Það er ósköp skiljanlegt, enda er ég hræddur um að ég hefði orðið fúll í þeirra sporum. Lögmenn eru sumir vissir um það líka, að þetta sé ranglátt og ólöglegt, enda gæti hér verið komið ágætismál handa þeim að græða á.

Sjálfur er ég ekki viss í minni sök hvað þessa ákvörðun bæjaryfirvalda snertir. Í aðra röndina finnst mér svolítið kjánalegt að setja svona aldursmörk, enda langstærstur hluti fólks á þessum aldri til mikillar fyrirmyndar og alls ekki á þeim buxunum (eða úr þeim) að drekka, dópa, æla, nauðga og skíta í garða um verslunarmannahelgar. Á hinn bóginn verður að segjast að margir íbúar bæjarins, þar á meðal ég, fagna "rólegheitunum". Þetta er allt annað líf en undanfarin ár. Og ég er viss um að þær fjölskyldur, sem leggja leið sína til Akureyrar nú um helgina, syrgja ekki sukkandi ungviðið.

Mikið er talað um að betra sé að hafa unga fólkið inni í bæjarfélagi, þar sem því er veitt þjónusta og er undir einhvers konar eftirliti, heldur en úti á víðavangi. Þetta minnir mig svolítið á rökin fyrir því að unglingum, allt niður í 13 ára, var hleypt inn í æskulýðsheimilið Dynheima í gamla daga þrátt fyrir að á þeim sæist vín. Mörgum þótti nefnilega betra að hafa þá þar, undir umsjón og eftirliti, heldur en einhvers staðar úti í bæ í misjöfnum veðrum og alls kyns óæskilegum selskap.

Svo datt einhverjum í hug að ráðast að rót vandans: unglingadrykkjunni. Allt í einu varð nokkurs konar hugarfarsbreyting. Einhver var svo snjall að benda á að það væri kannski ekkert sniðugt að unglingar væru yfir höfuð að drekka. Þetta hafði fólki ekki dottið í hug fyrr, en við nánari umhugsun fannst flestum þetta prýðileg hugmynd og voru til í að taka þátt í að reyna að stöðva unglingadrykkju.

Hefur nokkrum dottið í hug að reyna að ráðast að rót vandans hvað snertir sukk ungs fólks um verslunarmannahelgar með tilheyrandi umgengnis-, ofbeldis- og hávaðavanda? Er kannski, þegar allt kemur til alls, hægt að senda ungmennunum (þ.e. þeim minnihlutahópi sem þetta stundar) þau skilaboð að þetta verði ekki liðið, hvorki á Akureyri né annars staðar?

Spyr sá sem ekkert veit annað en það að hann, sem óbreyttur íbúi á Akureyri, er mjög sáttur við Eina með öllu þetta árið - a.m.k. so far.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband