Færsluflokkur: Bloggar

Lög

Í aukakrónuauglýsingu Landsbankans er spilað lagið "I Was Kaiser Bill's Batman" með Whistling Jack Smith, blísturslag sem ég man vel eftir frá því að ég var barn og gleypti í mig alla tónlist sem heyrðist á Rás 1 og var léttari en Mahler og Mussorgsky. Mér þykir illa farið með þetta skemmtilega lag í auglýsingunni. Það er sundurskorið og klippt og síðan er því skeytt saman þannig að úr verður lagleysa og ekki nokkur leið fyrir þá, sem ekki kannast við lagið, að gera sér grein fyrir því hvernig það hljómar í raun og veru.

Það getur vel verið að einhverjum finnist ég vera að agnúast að óþörfu. En mér finnst nauðsynlegt að borin sé ákveðin virðing fyrir tónsmíðum annarra, líka (og kannski ekki síst) dægurlagahöfundum. Þetta er því miður ekki fyrsta lagið sem verður fyrir barðinu á "sniðugum" auglýsingagerðarmönnum, en kannski hafa Landsbankinn og önnur slík örfyrirtæki ekki efni á að biðja einhvern góðan tónsmið að semja stef handa sér...


Jón

Ég horfði á Bráðavaktina á RÚV í kvöld og það er í frásögur færandi, því að þátt úr þeirri syrpu hef ég ekki séð í nokkur ár. Í þættinum lék gestahlutverk John nokkur Mahoney, sem margir muna vel eftir síðan hann lék Martin Crane, pabba Frasiers. Í þættinum fór Mahoney með hlutverk homma, draggdrottningar sem átti mikið veikan mann. Mikið déskoti gerði karl þetta vel. Ég vissi svo sem að hann væri góður leikari, hann var skemmtilegur í Frasierþáttunum og hefur leikið vel í ýmsum bíó- og sjónvarpsmyndum, en þarna sýndi hann á sér hlið sem ég vissi ekki að hann ætti til. Þegar ég fór að hnýsast á netinu kom í ljós að hann er Breti(!), hann kýs fremur að leika á sviði en í kvikmyndum og hann jonmahonivar enskukennari áður en hann gerðist leikari.

Mikið er ég feginn að John Mahoney ákvað að skipta um starf.


Skelfilegt

Hugsa sér - sex af hverjum tíu fara einir á bílum sínum í vinnuna á hverjum morgni! Og tveir til viðbótar í bíl með öðrum!

Þetta er klikkun. Er nokkur furða að gatnakerfi höfuðborgarsvæðisins sé að sligast? Hvað í ósköpunum þarf að gerast til að Íslendingar fari að hugsa sinn gang í þessum málum? Og hugsið ykkur alla peningaeyðsluna og loftmengunina!

Í mínum hjartfólgna heimabæ er ástandið ábyggilega litlu skárra - og þó. Eftir að strætóferðir urðu ókeypis hefur farþegunum fjölgað mjög. Ennþá eru samt ótrúlega margir sem fara sína leið á sínum bíl og sínum hraða - einir.

Umferðarmálin leysast ekki með fleiri og breiðari götum, það er ljóst. Þau leysast einungis með bættum almenningssamgöngum. En til þess að þær batni þarf fólk að nota þær - jafnvel þótt það þýði aðeins meiri tíma til að koma sér í vinnuna á morgnana.


mbl.is Hafnfirðingar lengur á leiðinni til vinnu en aðrir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Agureyri II

Ekki lít ég á mig sem aðkomumann á Akureyri, þótt ég sé ekki fæddur hér. Ég hef alltaf verið talinn til heimamanna. Það er gott, því að í Reykjavík er ég líka talinn til heimamanna og ekki er verra að eiga víða heima.

Mér þykir ákaflega vænt um báða bæina og ekki síður um Laugar í Sælingsdal, þar sem við hjónin bjuggum í áratug. Dalamenn reyndust okkur einkar vel og við höfum sterkar taugar vestur. Þangað er líka afar gott að koma.

Orð mín um Akureyri mega ekki skiljast sem svo að mér þyki ekki vænt um bæinn. Síður en svo. Hins vegar skal það fúslega viðurkennt að fyrstu árin leist mér ekki á blikuna. Enda var Akureyri sjálfri sér nóg þá, líka hvað fólk varðaði. Nú er öldin önnur hvað fólksstrauminn snertir og mikil hreyfing á fólki að og frá bænum. Það er afskaplega gott mál og raunar sveitarfélaginu bráðnauðsynlegt.

Það ríkir kraftur og bjartsýni á Akureyri, finnst mér, þó að vissulega megi alltaf finna að hinu og þessu ef maður endilega vill. Hér hefur margt gott verið gert á undanförnum árum og barlómurinn löngu horfinn, sem einkenndi bæinn um hríð eftir fall Sovétríkjanna og Sambandsins.


Agureyri

Þegar ég fluttist með foreldrum mínum og systkinum norður til Akureyrar átta ára gamall - á móti straumnum, sem þá lá suður eins og í mörg ár á eftir - var ekki laust við að mér fyndist margt skrýtið í hinum norðlenska kýrhaus. Ég lenti í skóla sem var eins og úr grárri forneskju miðað við þann sem ég hafi gengið í fyrir sunnan og þar notuðu menn ýmsa einkennilega hluti, svo sem viskaleður og tálgara. Auk þess hét úlpa ýmsum undarlegum nöfnum fyrir norðan: stakkur, jakki og guðmávitahvað. Kennarinn minn var mjög í stíl við skólann. 06_akureyri_smallVitaskuld gerðu sumir skólafélaga minna stólpagrín að mínum reygvíska framburði en ég lærði smám saman að það borgaði sig að tala eins konar ríkisíslensku, hvorki of norðlenska né mjög sunnlenska, því að þá var mér hvorki strítt nyrðra né syðra!

Akureyri var sérstök og er að mörgu leyti enn. Þótt hún hafi samlagast mjög á síðustu árum og áratugum og sé ekki lengur eins og ríki í ríkinu með sína siði og venjur er ýmislegt sem vekur eftirtekt. Hér eru til dæmis nokkrar götur aðalbrautir í aðra áttina, en ekki hina. Það á víst að laga á næstunni, sé ekki búið að því, en sú aðgerð hefur tekið nokkra áratugi. Akureyringar hafa aldrei verið neitt að flýta sér þegar breytingar eru annars vegar.

Svo eigum við merkilegasta ráðhús í heimi. Það er nefnilega raðhús. Trúið þið mér ekki? Það stendur nú samt skýrum stöfum fyrir ofan dyrnar á ráðhúsinu okkar: RAÐHÚS. Ég bið ráðamenn bæjarins lengstra orða að fara nú ekki að leita að kommunni sem dottin er ofan af A-inu, því að þar með hefur Akureyri misst umtalsverða sérstöðu.

 


Hættum þessu!

Las í Blaðinu í dag viðtöl við tvær stúlkur. Önnur á pólska móður, hin er frá Litháen. Báðar segja frá fordómum sem þær verða fyrir hér á Íslandi. Ég hef áður lesið og heyrt svipaðar frásagnir og það er því miður engum blöðum um það að fletta að býsna margir Íslendingar eru fordómafullir, fákunnandi og beinlínis dónalegir í garð útlendinga, einkum ef útlendingarnir eru frá löndum sem við þekkjum lítið til en þykjumst vita allt um.

Svona létum við líka við Færeyinga og Grænlendinga, en það hefur líklega breyst nokkuð, a.m.k. hvað þá fyrrnefndu snertir, trúlega vegna þess hversu margir Íslendingar hafa farið til Færeyja og kynnst þeirri merku þjóð. Grænlendingar búa enn við það, held ég, að teljast annars eða þriðja flokks þjóð hér á Fróni, bara vegna þess hvað við erum fávís og þröngsýn - og þar með fordómafull.

Hættum þessu. Þetta er nákvæmlega sama viðhorfið og Íslendingar kvörtuðu undan á árum áður. Þá fundum við, þegar við fórum utan, stundum fyrir fákunnáttu, fordómum og dónaskap, af því að það var almennt talið að hér byggi fátæk, fákunnandi þjóð sem væri hálfgerður baggi á „siðmenntuðu“ þjóðunum í kringum sig.

Og höfum við virkilega efni á að setja okkur á háan hest? Eru allir Litháar fíkniefnasmyglarar, kynlífssalar og morðingjar? Eru þá ekki allir Íslendingar náttúruspillar, mengarar og álrustar? Ég veit ekki betur en það sé almenn skoðun manna að flestir Pólverjar, Litháar og aðriir þeir sem hingað koma, t.d. úr sunnan- og austanverðri Evrópu, séu harðduglegt fólk og að mörgu leyti miklu betra vinnuafl en „innfæddir“ Íslendingar. Svo er menning þess miklu eldri en okkar og sagan stórbrotnari. Er það e.t.v. það sem fer svona í taugarnar á okkur? Að við sjáum að þrátt fyrir að efnahagurinn sé slæmur víða erlendis og atvinnuástandið líka er fólkið, sem frá þessum löndum kemur, okkur svo miklu fremra á margan hátt? Það skyldi þó aldrei vera.


Dylanesque

Var á stöðvaflakki og datt þá inn í nýbyrjaðan þátt í sænska sjónvarpinu um gerð plötunnar Dylanesque, þar sem Bryan Ferry syngur lög og texta eftir Bob Dylan. Megnið af efninu er frá sjöunda áratugnum og Ferry fer misvel með það, eins og gengur, en í heild heyrðíst mér og sýndist framtakið vel heppnað. Sumum þykir sjálfsagt lítið til koma, aðrir eru eflaust stórhrifnir, en ég er þarna einhvers staðar á milli. Um lagavalið má sömuleiðis deila, en Ferry er fínn þegar hann syngur "réttu" lögin.

Virðingin fyrir tónsmíðum og textum Dylans leynir sér ekki, en Ferry leyfir sér að leika sér að þeim og í sumum tilfellum eru útsetningarnar bráðsnjallar. Tónlistarflutningurinn er fyrsta flokks, eins og vænta mátti, enda hefur Bryan Ferry alltaf verið fundvís á gott fólk.

Það getbrjannur bara vel verið að ég kaupi diskinn Dylanesque við tækifæri, ef hann fæst á góðu verði. Ég verð að játa að enda þótt verk Dylans séu mörg hver góð hefur mér alltaf þótt karlinn sjálfur heldur leiðinlegur. Verk hans eru betri í flutningi annarra, finnst mér. Og það er bara mín skoðun. Alveg eins og það er mín skoðun að lambakjöt sé ekkert sérstaklega góður matur, hvort sem það er íslenskt eða ekki. Og hananú. W00t


Oft á dag

Í þrjátíu kílómetra hverfi, eins og því sem ég bý í, er það ekki bara daglegt brauð að bílstjórar aki á tvöföldum hámarkshraða, heldur nánast regla fremur en undantekning. Þetta er yfirleitt sama fólkið og það sem ekki nennir að gefa stefnuljós, tekur vinstri beygju eins og það væri að taka hægri beygju, leggur uppi á gangstéttum og virðir ekki hægri rétt.

Ég veit ekki hvað er hægt að gera við svona fólk. Löggan sést aldrei í mínu hverfi og þess vegna held ég að þessir ökumenn sjái enga ástæðu til að fara eftir reglum - gilda þær ekki líka bara fyrir aðra?

Hverfið mitt er nýtt. Það er fullt af börnum. En hvað varðar þessa ökumenn um börn? Umferðarslys eru bara eitthvað sem aðrir lenda í. Það kemur ekkert fyrir mig - og hvað varðar aðra um það þótt ég keyri eftir mínu höfði?


mbl.is Á tvöföldum hámarkshraða í íbúðargötu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Saving Akureyri

Fyrst björguðu þeir óbreytta hermanninum Ryan, svo Íslandi... ég held að nú sé tími til kominn að mótmælendur alls konar þjappi sér saman og reyni að bjarga Akureyri frá fleiri "hátíðum" um verslunarmannahelgi. Hvað skyldi kosta að fá Saving Iceland í létta herferð hérna fyrir norðan? Eða er Akureyri kannski ekki hluti af náttúrunni?

En ég vil bara dansinn og sönglið, takk, engar málningarslettur.


Fjölskylduhátíð?

Hvers konar fjölskylduhátíð er það sem býður upp á sérstök unglingatjaldstæði? Eru unglingar ekki hluti fjölskyldunnar? Eru fjölskylduhátíðir ekki hugsaðar sem sameiginleg skemmtun fyrir fjölskylduna? Eða eru þetta sérstök tjaldstæði fyrir munaðarlaus ungmenni?

Hvers konar fjölskylduhátíð er það sem býður upp á unglingadansleiki til klukkan þrjú að nóttu?

Upp á hvers konar fjölskylduhátíð ætla þeir að bjóða sem kalla fólk, sem hefur áhyggjur af því að þrettán ára unglingar skuli neyta áfengis og vímuefna hópum saman á Akureyri um verslunarmannahelgi, "postula neikvæðninnar"?

Séra Svavar A. Jónsson hefur m.a. fengið þessa nafnbót fyrir að bera umhyggju fyrir æsku landsins. Þá er Elín Margrét Hallgrímsdóttir, sem fyrr, eini bæjarfulltrúinn sem þorir að vera á móti fjöldasamkomum sem sigla, að því er virðist, undir fölsku flaggi ár eftir ár.

Er meirihluti bæjarbúa virkilega hlynntur Einni með öllu? Enginn sem ég þekki er það. Hver er það eiginlega sem hefur svona sterkt tak á bæjarstjórninni, sama hverjir þar sitja?

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband