Færsluflokkur: Bloggar
22.7.2007 | 11:54
Slátur var það, heillin
Inga Eydal fær verðlaun, koss á kinn næst þegar við hittumst, fyrir að giska rétt á merkingu orðsins "galsapylsa" sem undirritaður rakst á í Íslenskri orðabók við leit að einhverju allt öðru. Þetta er sumsé lifrarpylsa. Ekki veit ég ástæðu nafngiftarinnar og ekki finn ég nein dæmi um notkun orðsins við lauslega athugun, en ekki hef ég orðið var við að sláturneysla kalli fram neinn sérstakan galsa í mér eða minni fjölskyldu. Mér dettur helst í hug að einhverjum börnum hafi á árum áður boðið við lifrarpylsu eða ekki getað hugsað sér að snæða neitt sem búið var til úr lifur, og þess vegna hafi einhver mætur bóndi eða húsfreyja fundið upp þetta ágæta heiti. ,,Hvað er í matinn, mamma?" ,,Það er galsapylsa, heillin, með kartöflum og jafningi." ,,Vá, frábært!" Þetta hljómar einfaldlega svo miklu betur að ég er að hugsa um að leggja til við (hitt) yfirvaldið á heimilinu að þessu orði verði dengt í almenna notkun hér á bæ. Og nú þarf eg bara að finna eitthvert gott orð yfir blóðmör!
20.7.2007 | 22:21
Kristilegt þunglyndi og galsapylsa
Ég man ekki að hverju ég var að leita á Gúglinu í dag þegar ég lenti inni á einhverju sem nefnist "Kristilegar þunglyndissíður." Í ljós kom að málefnið var svo sem gott, eins og vænta mátti, en heldur finnst mér nafngiftin óheppileg...
Í Íslenskri orðabók rakst ég hins vegar á hið skemmtilega orð "galsapylsa". Og nú megið þið giska á hvað það þýðir. Er þetta: a) bjúga, b) smápylsa, c) lifrarpylsa, d) getnaðarlimur?
Svar í næsta þætti.
19.7.2007 | 13:05
Góðar fréttir
Þetta voru góðar fréttir. Kanadamenn eru góðir heim að sækja og stutt að fara frá Torontó til ýmissa ágætra borga og staða, auk þess sem borgin sjálf er skemmtileg. Ég vona bara að flugsætin verði á viðráðanlegum prís.
Ólíklegt þykir mér að Icelandair hyggi á flug til Montreal og Ottawa líka, því stutt er á milli borganna þriggja. Hins vegar er ég viss um að margir, vestanhafs sem hérlendis, myndu notfæra sér áætlunarflug til Winnipeg. En verðið skiptir auðvitað miklu eins og fyrri daginn.
![]() |
Icelandair hefur áætlunarflug til Toronto næsta vor |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.7.2007 | 11:27
Bindin burt!
Dásamlegar fréttir fyrir okkur sem þolum ekki hálstau! Verður ekki Alþingi að koma saman tafarlaust, fjalla um málið og aflétta bindisskyldu af karlkyns þingmönnum?
Annað mál: Er orðið "óumhverfisvænn" virkilega til?
![]() |
Hálsbindanotkun getur verið óumhverfisvæn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.7.2007 | 19:56
Hinn eini sanni seppi
Á níunda áratugnum vann ég nokkur sumur á leiklistardeild útvarpsins, eins og hún hét þá, og man að eitt leikritið sem ég færði til spjaldskrár hér Hinn eini sanni seppi. Ekki man ég neitt um þetta leikrit, en annað verk var eftir Tom Stoppard og hét The Dog It Was That Died eða Það var hundurinn, sem varð undir. Ég man líka eftir leikritinu Frost á stöku stað, en sá Frost var enginn annar en lögregluforinginn ágæti. Svo má ég ekki gleyma eigin afrekum á sviði útvarpsleiklistar, en ég sagði nokkrar setningar í leikriti sem hét Gráir hestar. Leikstjóri var Erlingur E. Halldórsson, bróðir Baldvins, sem nú er nýlátinn. Með mér í þessu fína verki voru stór nöfn - Sigríður Hagalín, Þorsteinn Gunnarsson, Anna Kristín Arngrímsdóttir og fleiri.
Mér varð allt í einu hugsað til rakka, hesta og fleiri dýra eftir ævintýrið um hann Lúkas, sem reyndar stendur enn. Skelfileg múgsefjun og hroðaleg upplifun fyrir aumingja piltinn sem lenti í því að vera sakaður um hundsdráp og fá yfir sig líflátshótanir og hvaðeina. Þetta er bara eins og í amerískri hasarmynd. Dómstóll götunnar lætur ekki að sér hæða. Og lætur sér ekki segjast heldur. Það er á svona stundum sem ég skammast mín svolítið fyrir að tilheyra mannkyninu.
16.7.2007 | 21:03
Æ!
Ég trúi ekki að það eigi að fara að eyðileggja Þingvelli! Mér þótti nóg um þegar fréttir bárust af því að fella ætti nokkur hundruð barrtré þar, bara vegna dynta einhvers ráðs eða nefndar sem spekúlerar í því hvaða staðir á jarðríki eiga skilið að komast á einhverja heimsminjaskrá. Mér var spurn: Er virkilega svo nauðsynlegt að Þingvellir komist á umrædda skrá? Þeir hafa verið skráarlausir langalengi. Mega þeir ekki vera það áfram?
Svo kom upp úr kafinu í fréttunum í kvöld að ráðið var alsaklaust. Þetta eru tiktúrur einhverra manna og kvenna sem vilja hafa Þingvelli eins og þeir voru á þjóðveldisöld! Og svei mér þá, þetta fólk virðist ætla að komast upp með vitleysuna!
Ég er alinn upp við barrtré á Þingvöllum. Ég vil hafa þau þar áfram. Og ef við ætlum að fara að breyta Þingvöllum þannig að þeir verði eins og þeir voru fyrir átta hundruð árum eða svo finnst mér að rífa þurfi öll mannvirki sem þar eru. En varla er það partur af prógramminu, er það?
Og varla má mismuna landshlutum og héruðum... varla ætla þingmenn að láta það líðast? Hér með krefst ég þess að allt Ísland verði fært í sama horf og það var á þjóðveldisöld.
Í alvöru talað ... kemst fólk upp með svona lagað?
Auk þess legg ég til að Akureyrarbær hætti að styrkja íþróttafélög sem kunna sig ekki.
Loks legg ég til að fólk hætti að agnúast út í lögregluna þegar hún er að gera skyldu sína.
Og hananú!
15.7.2007 | 23:13
Hrist'ann, heillin
Haldið þið að ég hafi ekki loksins sest niður og horft á Bond-myndina Casino Royale? Það kom reyndar ekki til af góðu, ég hef verið heima undanfarna daga með bilað auga, en það er nú loksins að lagast og því áræddi ég að reyna að horfa á heila bíómynd. Það tókst.
Já, Bond var ágætur. Ég verð samt dálítinn tíma að venjast Craig í þessu hlutverki. Hann virðist ekki eiga til þennan sposka svip sem gerði Connery, Moore og Brosnan svo ágæta og hann er ekki alveg nógu "suave". Hann er líkastur Dalton, finnst mér, og það er út af fyrir sig ekkert slæmt. Ég hugsa að Ian Fleming hefði orðið ánægður. Craig er líkur manninum sem Fleming sá fyrir sér þegar hann skóp persónuna, en vissulega dálítið eldri.
Aftur á móti þykir mér hálfkjánalegt að myndin skuli vera látin gerast nú á dögum af því að í henni er Bond að hefja feril sinn sem 007. Með sama hætti er órökrétt að Judi Dench skuli vera látin leika M, þar sem hún kom ekki til sögunnar fyrr en Bond var kominn á virðulegan aldur. En það er nú svo margt sem er hálfkjánalegt og órökrétt í Bond-myndum, að þetta gerir í rauninni lítið til. Það var gaman að sjá Felix sáluga Leiter, vin Bonds, en litaraft hans bendir reyndar til að hann stundi Bahamaeyjarnar fullgrimmt. Ég saknaði Q ekkert tiltakanlega, en einhver með hans hugvit hefur þó greinilega fengið að koma nálægt gerð bifreiðanna sem Bond notar.
Ég vil enn að gerð verði mynd þar sem Bond fær að vera á "sínum" aldri. Moore og Connery eru enn nokkuð brattir og ég veit ekki betur en Lazenby sé það líka. Væri ekki gráupplagt að fá einhvern þeirra til að leika Bond þar sem hann stígur upp úr sínum helga steini og vinnur eitthvert þjóðþrifaverk til bjargar landi sínu og drottningu? Einhver roskin og virðuleg leikkona gæti verið Bond-stelpan. Hvað um Judy Parfitt eða Súsönnu York?
Lagið í Casino Royale, flutt af Chris Cornell, er ekkert sérstakt. Það fellur að mínum dómi í flokk miðlungs-Bondlaga. Botninn náðist án efa með hryllingnum sem Madonna sönglaði fyrir nokkrum árum. Besta Bond-lagið? Erfiðari spurning, því mörg eru góð.
Og í lokin hljómaði hið gamalkunna stef Monty Normans, sem betur fer lítið breytt. Það bjargaði myndinni og varð til þess að mér fannst, þegar upp var staðið, að ég hefði verið að horfa á ekta James Bond.
13.7.2007 | 18:47
Ellimörk?
Þessa stundina er bráðmyndarleg stúlka að lesa fréttirnar á Stöð 2. En mikið hræðilega er hún óskýr. Þegar hún er ekki á skjánum þarf ég virkilega að sperra eyrun til að skilja hvað hún er að segja. Ástandið lagast þegar hún sést, því að þá get ég að nokkru ráðið af varahreyfingunum hvað hún er að fara. Pirringur í mér? Nei, alls ekki. Ellimörk? Kannski. En þá vildi ég ekki vera í sporum fólks sem virkilega er farið að tapa heyrn.
Fréttaþulir verða að vera skýrmæltir. Ekkert endilega norðlenskir, vestfirskir, skaftfellskir, sunnlenskir... bara skýrmæltir. Að öðrum kosti fara fréttirnar fyrir ofan garð og neðan og það er varla ætlun nokkurrar fréttastofu, er það?
13.7.2007 | 17:21
Heilög kusa!
Ætli það þurfi ekki talsverðan mannafla til að skrá allar þunganir í þessu geysifjölmenna ríki? Það er ekki lítið í ráðist. Mætti e.t.v. hugsa sér þetta sem eina af mótvægisaðgerðum íslensku ríkisstjórnarinnar vegna yfirvofandi samdráttar í fiskveiðum? Þunganaskrá ríkisins gæti áreiðanlega verið til húsa hvar á landinu sem vera skyldi...
Gamanlaust: Þetta yrði án efa skelfileg afturför ef samþykkt yrði, þó að indverski ráðherrann vilji eflaust vel.
![]() |
Vill skrá allar þunganir á Indlandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
11.7.2007 | 22:57
Strætó er að koma
Trítlaði niður á stoppistöð uppúr klukkan hálfátta í morgun og gladdist þegar ég sá Gamla vagninn koma upp brekkuna. Gamli vagninn er ábyggilega að minnsta kosti aldarfjórðungsgamall og er sá síðasti nokkurra vagna sem SVA keypti um það leyti. Hann er enn í fullu fjöri, að því er manni virðist, og bílstjórarnir láta vel af því að keyra hann, þótt hann sé þyngri og svifaseinni en nýju strætóarnir.
Gamli vagninn er stærri en þeir nýju og í honum er alltaf nóg pláss. Sætin eru líka miklu þægilegri en í nýju vögnunum. Þeir nýju eru alveg hreint ágætir, ekki er ég að hvetja forsvarsmenn SVA til að selja þá og kaupa gamla, síður en svo. Ég er aðallega að pára þetta vegna þess hvað mér finnst notalegt til þess að hugsa að þrátt fyrir tækjabrjálæði Íslendinga og hvað við erum gjörn á að fleygja öllu sem bilað er - og jafnvel áður en það bilar, ef það þykir ekki lengur nógu flott - skuli Gamli vagninn silast upp brekkuna af og til á morgnana og flytja mig í vinnuna og heim aftur. Og án þess að klikka. Ég er ekki í nokkrum vafa um að þessir vagnar voru einhver bestu kaup sem Akureyrarkaupstaður hefur gert. Mig minnir endilega að annar gamall vagn frá SVA sé notaður sem skólabíll í Mosfellsbæ. Ég vona að börnin þar viti hvað þau eiga gott. Svona bílar eru ekki á hverju strái lengur.